Jól í sveitinni
Jólin eru heilög hjá mörgum, hefðirnar alltaf eins og engu má breyta. Sama ár eftir ár en þannig verða til hefðir sem fólki finnst ómissandi um hver jól.
Svo eru sumir sem vilja prófa eitthvað nýtt eins og hjónin Venný Sigurðardóttir og Elías Kristjánsson sem ákváðu að halda jól í sumarbústaðnum um síðustu jól og fannst það skemmtileg upplifun.
„Eftir miklar endurbætur á Hálsakoti, sumarhúsi þar sem móðir mín, Kristín Sveinbjörnsdóttir, bjó í 23 ár eftir að hafa búið í Keflavík í áratugi, ákváðum við fjölskyldan að eyða jólunum þar í fyrra. Bróðir minn, Skúli Sigurðsson, og mágkona mín, Hlíf Matthíasdóttir, sem bjuggu hér í Keflavík til fjölda ára og fluttu austur í gamalt sumarhús sem þau hafa verið að endurgera að hluta en það hús áttu amma mín og afi, það hús er rétt hjá okkar og er kallað Óðalið. Þessi staður heitir Iða II og er rétt við Laugarás í Biskupstungum. Þetta er eiginlega lítið fjölskylduhverfi þar sem bræður mömmu áttu sín hús og eru nú börn þeirra komin með sín hús eða tekin við gömlu húsunum. Þessi staður er yndislegur og frábært að vera í svona nánu og góðu sambandi við frændfólk sitt.
En sem sagt þá tókum við þessa ákvörðun að eyða þarna jólunum í fyrra og vorum mætt tveimur dögum fyrir jól í kyrrðina og myrkrið. Hefðbundinn undirbúningur fór í hönd, skreyta litla kotið og setja upp jólaljós úti. Ekkert pláss var fyrir jólatré svo pökkunum var raðað upp á skáp og á gólfið. Við borðum alltaf rjúpur á aðfangadag enda alin upp við það á þessum degi. Í einhver ár var rjúpuskortur og þá fannst okkur jólin ekki koma eins og þau áttu að gera. Á aðfangadagskvöld borðuðum við öll saman, fólkið mitt sem var í sveitinni. Skúli bróðir eldaði rjúpurnar og gerði sósuna, sósan er mjög mikilvæg með þessum mat. Klukkan sex hringdu kirkjuklukkurnar inn jólin í útvarpinu og aðrar kirkjuklukkur ómuðu frá Skálholti og við settumst við matarborðið. Þarna sátum við saman og borðuðum þennan himneska mat á þessum yndislega stað, þaðan sem við eigum öll svo margar góðar minningar. Því miður komst mamma ekki þar sem hún var orðin alveg rúmföst. Á jóladag bættist svo Mási bróðir og fjölskylda í hópinn og við fórum öll í heimsókn til mömmu á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka. Þessi jól voru svo notaleg. Ég held að við Elli höfum aldrei átt eins róleg og afslöppuð jól og erum meira en tilbúin að gera þetta aftur einhvern tímann. Mamma mín, þessi yndislega kona sem öllum þótti svo vænt um, lést 9. júní í sumar, hennar er sárt saknað og verður skrítið að hafa hana ekki hér á jólunum sem nú fara í hönd.“