Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 6. nóvember 2006 kl. 10:41

"Jól í skókassa" hjá KFUM og K í Reykjanesbæ

Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM og KFUK, sem kallar  sig Bleikjuna, að láta reyna á verkefnið „Jól í skókassa“ hér á landi.

Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt síðan áfram að spyrjast út og fyrir síðustu jól söfnuðust yfir 2600 skókassar, eða rúmlega fimmfalt fleiri en fyrsta árið!

Blaðamaður Víkurfrétta fór á fund KFUK þar sem ungar stúlkur voru í óðaönn við að setja gjafir í skókassa  og pakka þeim skemmtileg a inn. Það var glatt á hjalla og undu þær sér vel við.

Laufey Gísladóttir er umsjónarmaður verkefnisins og sagði okkur aðeins frá því.  „Jól í skókassa er skemmtilegt og þroskandi verkefni sem stelpurnar í yngri deild KFUK hafa fengið að taka þátt í.  Þetta er í 3 skipti sem verkefninu er hleypt af stokknum og höfum við verið með frá upphafi.Verkefnið jól í skókassa felst í  að þær setja nokkra hluti, eins og ritföng, vettlinga, sokka, hreinlætisvörur, leikföng og sælgæti í skókassa.

Þær þurfa að ákveða aldur og kyn á þeim sem á að fá kassann og merkja hann.
Kassanum er síðan pakkað inn í jólapappír og vandasamasta verkið er að lokinu þarf að pakka sér.  Það er til að tollurinn þurfi ekki að rífa pakkann upp heldur geta þeir auðveldlega opnað hann án þess að skemma neitt.
Síðan er pökkunum útdeilt til þurfandi barna víðsvegar um heiminn. Þannig viljum við mæta þörfum fólks sem eru fórnarlömb stríðs, fátæktar, náttúruhamfara og sjúkdóma með það að markmiði að sýna kærleika Guðs í verki.“ Laufey segir að þetta verkefni hafi verið mjög þroskandi fyrir stúlkurnar.  Þær upplifa sterkt þá tilfinningu að þær séu hluti af heild og þeirra framlag skipti máli.

„Áður en kassinn er sendur af stað leggjum við 3-500 kr. í umslag efst í kassann fyrir sendingarkostnaði.  Margar af stelpunum hafa verið að gefa af pening sem þær eiga sjálfar og hafa verið mjög stoltar að setja peninginn í kassann.  Ef einhver á ekki pening þá höfum við bara leyst það.  Það eiga allir að geta verið með.

Skókassarnir frá Íslandi  verða sendir til Úkraínu eins og í fyrra.   Þar er ástandið víða mjög bágborið.  Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Sumir foreldrar hafa fengið að bæta við kössum og fólk hefur verið að spyrjast fyrir og langar að vera með.“

Ef fleiri hafa áhuga að vera með þá er hægt að koma þeim inn í aðalstöðvar KFUM og K í Reykjavík á Holtaveg  á föstudeginum frá 9-16 eða laugardeginum 11. nóv. sem er lokadagur frá kl. 11-16. Hægt er að skoða síðuna http://www.skokassar.net/  ef spurningar kvikna.

Texti: Hanna Björg Konráðsdóttir

Myndir: Ellert Grétarsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024