Jöklaljós í Sandgerði
Við Strandgötu 18 í Sandgerði er ýmislegt á seiði sem fáir vita af. Kertasmiðjan Jöklaljós er á neðri hæð hússins en á efri hæðinni er Listasmiðjan Ný-vídd. Sólrún Símonardóttir er eigandi kertagerðarinnar og vinnur þar oft langt fram eftir nóttu. Þegar inn er komið blasa við kerti í öllum regnbogans litum og fallegar skreytingar. Kertin eru það falleg að sumir einfaldlega tíma ekki að kveikja á þeim en Sigrún er á því að fólk eigi að kveikja á kertum til að gera umhverfið notalegra og rólegra. Kertasmiðjan er opin um helgar frá 13-17 en einnig er hægt að ná í Sólrúnu í síma 896-6866 og fá að kíkja í heimsókn á öðrum tímum. Hægt er að sjá kertagerðakonuna að störfum og hefur það vakið mikla ánægju hjá fólki að sjá sannan listamann að verki. Í augnablikinu er Sólrún með einn starfsmann og segir hún það alveg nóg enda engin fjöldaframleiðsla. Það er því full ljóst að Sandgerði hefur upp á mikið að bjóða og vel þess virði að kíkja við í bíltúrnum um Reykjanesið.