JóiPé og Króli fóru á kostum á Trúnó - myndir
Íbúafundur í Stapa var ekki eini viðburðurinn sem fór fram í Hljómahöll í Reykjanesbæ í gær, þvert á móti. JóiPé og Króli komu fram í Bergi í Hljómahöll fyrir troðfullum sal en uppselt var á tónleikanna fyrir löngu síðan. Tónleikarnir voru hluti af tónleikaröðinni Trúnó á vegum Hljómahallarinnar en meðal hljómsveita sem komið hafa fram á Trúnó eru Hjálmar, Prins Pólo, SSSól, KK og Úlfur Úlfur svo eitthvað sé nefnt.
JóiPé og Króli fóru á kostum og var stemningin frábær á meðal tónleikagesta, sem voru á öllum aldri en stemningin lýsir sér best í því ljósi að tónleikarnir voru klukkutíma lengur en áætlaður tími og ekki sást á salnum að nokkur maður hafi farið eftir auglýstan tíma. Tónlistarmennirnir skutust upp á stjörnuhimininn haustið 2017 þegar þeir gáfu út smellinn B.O.B.A. og fylgdu laginu eftir með plötunni Gerviglingur sem varð gríðarlega vinsæl. Fyrr á þessu ári gáfu þeir út plötuna Afsakið Hlé og þeirra nýjasta verk er plata sem ber heitið 22:40 - 08:16 en hún kom út 18. október sl. Sú plata kom óvænt frá þeim, án þess að nokkur maður vissi af og bera nöfn laganna tímasetninguna þegar þau urðu til en platan var samin á einni nóttu.
Strákarnir mættu með hljómsveit með sér en þeir komu fyrst fram með henni á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves nú fyrr í mánuðinum. Megnið af tónlist þeirra JóaPé og Króla er gerð í samstarfi við Þormóð Eiríksson og Starra Snæ Valdimarsson en þeir búa til taktanna og hljóðblanda lögin. Báðir voru þeir hluti af hljómsveitinni sem fylgdi strákunum í gær. Tónleikarnir voru töluvert óhefðbundnari en rappararnir eru eflaust vanir en á milli laga töluðu þeir um lífið og tilveruna, hvernig lög þeirra urðu til, ásamt því að svara spurningum tónleikagesta. Það vakti athygli að þeir tóku bæði gömul og ný lög, en sum lögin höfðu þeir ekki spilað í allt að ár og sögðu svo sögur af upphafi tónlistarferilsins, hvernig þeir kynntust og fóru að búa til tónlist saman. Myndir frá tónleikunum má sjá hér að neðan.
Frétt/myndir - Páll Orri Pálsson
[email protected]
Strákarnir voru í miklu stuði í Hljómahöll í gær.
Skorað var á Króla úr sal að sýna hvað hann kynni á gítar og trommur, sem hann gerði og stóð sig með prýði.
Tónleikagestir spurðu spjörunum úr og svöruðu þeir JóiPé og Króli af mikilli hógværð og auðmýkt.
Starri Snær Valdimarsson er sjálflærður taktsmiður en nýjasta plata JóaPé og Króla er unnin í nánu samstarfi við Starra, sem hljóðblandar lögin einnig.
Þormóður Eiríksson var gítarleikarinn í hljómsveitinni sem kom fram í gær en hann er einnig taktsmiður. Þessa daganna vinnur hann náið með Herra Hnetusmjör, rappara og stofnanda KBE en Þormóður er nýjasti meðlimur hópsins.
JóiPé og Króli ásamt hljómsveit þakkar fyrir sig eftir vel heppnaða og skemmtilega tónleika í Hljómahöll.