Jóhanna Rut þenur raddböndin
„Don't stop believin“ söng Jóhanna Ruth Luna Jose fyrir okkur í hljóðveri Geimsteins í vikunni. Hún hefur verið með hálsbólgu síðustu daga en lét það ekki aftra sér í hljóðverinu. Jóhanna Rut bar sigur úr býtum í Söngkeppni Samfés sem fór fram í Laugardalshöll á dögunum. Jóhanna Ruth keppni fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima í Reykjanesbæ. Í keppninni söng hún lagið Girl on Fire með Alicia Keys.
Jóhanna er 13 ára og stundar námi í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ. Henni finnst skemmtilegt að búa þar í bæ og að henni gangi vel í skólanum.
„Ég á líka marga vini sem eru duglegir að kenna mér íslensku.“ Jóhanna Ruth hefur búið á Íslandi í fjögur ár, en hún er frá Filippseyjum eins og foreldrarnir.
„Pabbi söng mikið þegar hann var ungur og mamma líka. Ég hef alltaf sungið mikið og mamma og pabbi hafa hvatt mig óspart. Ég hef oft sungið við ýmis tilefni en ekki fyrir framan svona stóran hóp.“
Hún stefnir á að taka þátt í Ísland got talent og ekki er ólíklegt að hún syngi lög með Celine Dion, Whitney Houston eða Alicia Keys.
Spurð að lokum um framtíðaráform í söng segist Jóhanna Ruth alveg geta hugsað sér að starfa sem söngkona. „Það er eiginlega eina áhugamálið mitt.“
Við hjá Sjónvarpi Víkurfrétta lentum í vandræðum með birtingu á söng Jóhönnu í innslagi sem við hlóðum upp á myndveituna Youtube. Við bjóðum ykkur því upp á tengil á Vimeo og vonum að Jóhanna fái að láta ljós sitt skína í friði á þeim vettvangi.
Jóhanna Rut // Sjónvarp Víkurfrétta // 12. þáttur 2015 from Víkurfréttir ehf on Vimeo.