Jóhann sýnir í Kvikunni
Listamaðurinn Jóhann Dalberg Sverrisson er fæddur í Keflavík árið 1964. Síðan 2008 hefur hann verið að vinna skúlptúra og kertastjaka úr grjóti.
Á síðasta ári komst hann í kynni við steina sem eru uppistaðan í sýningu sem hann heldur í Kviku um þessar myndir. Sýninguna kallar hann Sjávarvætti. Ef rýnt er í steinana á sýningunni má sjá að í hverjum steini leynast fleiri en ein og fleiri en tvær sýnir, týndar sálir, forynjur, skrýmsli, sjóarar, sjófuglar eða ljúfar meyjar. Allt eftir því hvert sjónarhornið er og kannski líka hver horfir og hvað býr í brjósti áhorfandans.
Sýningin hefur staðið yfir í Kvikunni síðan 1. júní og verður tekin niður eftir verslunarmannahelgina. Þannig að sú helgi verður væntanlega síðasta sýningarhelgin í Grindavík.
Jóhann er að uppruna Keflvíkingur en flutti ungur til Grindavíkur og svo Reykjvíkur. Margir kannast eflaust við afa hans og alnafna sem bjó frá unga aldri í Keflavík.
Steinarnir sem eru uppistaðan í sýningunni Sjávarvættir eru allir úr graníti nema Marbendillinn. Steinarnir fundust í fjörunni í Dýrafirði. Sennilegast þykir að þeir hafi borist þangað með amerískum lúðuveiðiskipum á 19. öldinni og þjónað hlutverki ballestar á siglingunni löngu frá Gloucester Massachusetts, þaðan sem skipin lögðu upp. En ameríkanar stunduðu umfangsmiklar lúðuveiðar frá Dýrafirði á seinni hluta 19. aldar.
En þó steinarnir tjái sig hvorki á enska tungu, eða aðra ef því er að skipta, er ekki þar með sagt að þeir steinþegi. Þegar Jóhann byrjaði að eiga við þá með verkfærum sínum var engu líkara en steinarnir sjálfir réðu hvað birtist hverju sinni. Það var sem í þeim byggu kraftmiklir andar sem beðið hefðu lengi óþreyjufullir eftir að líkamnast ef svo mætti segja. Á þessari sýningu á Sjávarvættunum gefur svo að líta afraksturinn af þessu samstarfi Jóhanns og steinanna.
Fyrsta verk Jóhanns leit dagsins ljós í september 2011 og svo birtust þau eitt af öðru á tímabilinu frá desember 2011 til maí 2012.
Önnur verk á sýningunni eru úr graníti og eru unnin á undanförnum árum.