Jóhann Kristjánsson dró fánann að húni í Reykjanesbæ
Það kom í hlut Jóhanns R. Kristjánssonar að draga þjóðhátíðarfánann í Reykjanesbæ að húni í dag. Eftir að myndarleg skrúðganga hafði komið fylktu liði með þennan stærsta fána á Íslandi í skrúðgarðinn í Keflavík kom það í hlut Jóhanns að draga fánann að húni. Jóhann býr við fötlun eftir alvarlegt umferðarslys fyrir fáum árum en fatlaðir einstaklingar áttu stóran þátt í þjóðhátíðardeginum í Reykjanesbæ þetta árið.Eftir að fáninn hafði verið dreginn að húni söng Karlakór Keflavíkur við undirspil Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þar með lauk skipulagðri dagskrá í skrúðgarðinum og hátíðarhöld voru flutt í Reykjaneshöllina. Þetta var gert vegna þess að veðurfræðingar höfðu búist við verra veðri en raun var á. Þegar í Reykjaneshöllina var komið flutti Gísli Jóhannsson ávarp dagsins eftir setningu Gunnars Oddssonar og Lára Ingimundardóttir kom fram í gervi fjallkonunnar. Þá tóku við skemmtiatriði og í kvöld verður kvöldskemmtun í Reykjaneshöllinni.
Myndin er frá fánahyllingu Jóhanns R. Krisjánssonar. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Myndin er frá fánahyllingu Jóhanns R. Krisjánssonar. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson