Jóhann Kristján Eyjólfsson er 90 ára og líður vel
Jóhann Kristján Eyjólfsson varð níræður þann 12. október síðastliðinn. Í dag dvelur hann á elliheimilinu Hlévangi í Reykjanesbæ og honum hefur sjaldan liðið betur. VF tók tal af Hanna eins og hann er kallaður en Hanni bjó mestan hluta ævi sinnar í Sandgerði og var til 50 ára vélstjóri hjá Miðnesi. Eiginkona Jóhanns hét Jóhanna Kristín Einarsdóttir en hún kvaddi þennan heim fyrir 7 árum, saman áttu þau tvö börn en Jóhann gekk í föðurstað Önnu Soffíu sem rak lengi Vinnufataþjónustuna Borg en hún lést af völdum krabbameins í fyrra. Hanni ól einnig upp sonarson sinn Jóhann Harðarson. Börn Hanna eru Hörður Jóhannsson og Erla Jóhannsdóttir, Hörður býr í Keflavík en Erla í Sandgerði. Hörður á fjögur börn og Erla fimm börn en flest barnabörn Hanna búa á Suðurnesjum.
Hundur og belja með í för
Þegar blaðamann bar að garði var Hanni í sínu fínasta pússi og á leið til helgistundar á elliheimilinu. Ekkert varð af helgistundinni því Hanni hafði frá mörgu að segja. Árið 1914 flutti fjölskylda Jóhanns frá Reykjavík og til Sandgerði því faðir hans, Eyjólfur Jóhannsson útgerðarmaður hóf að gera bátinn út frá Sandgerði því þar var styttra á miðin. Fjölskyldan fluttist búferlum og fór á 11 tonna mótorbátnum Garðari frá Reykjavík. Með í för voru Jóhann og tvö yngri systkini hans en þau urðu alls átta og Jóhann var þeirra elstur. „Sjóleiðin milli Reykjavíkur og Sandgerðis tók aldrei minna en 6-8 klukkustundir á þessum tíma, með okkur fjölskyldunni komu hundur og belja en hundurinn var látinn sofa uppi í koju hjá mér í fóðurpokanum fyrir beljuna,” sagði Jóhann sem var aðeins 5 ára gamall þegar hann flutti ásamt fjölskyldu sinni. Útgerðin hjá föður Jóhanns gekk ekki sem skyldi og því var Garðar seldur til Vestmannaeyja þar sem hann var gerður út og lauk sinni tíð er hann strandaði.
Hitaði upp fyrir Bubba Morthens
Um fermingaraldur var Hanni farinn að spila á harmonikku og ekki leið á löngu uns hann hafði efni á því að kaupa sína eigin. „Ég spilaði mikið á nikkuna suður á Hvalsnesi, þar var oft mikil traffík því margir opnir bátar gerðu þaðan út og þar átti fólk það til að lyfta sér upp eins og annars staðar. Ég man að eitt kvöldið lagði ég af stað að heiman um 7 leytið og var einn að spila á nikkuna til að ganga sjö um morguninn,” sagði Hanni sem hefur átt það til síðustu ár að grípa í nikkuna við hátíðleg tilefni. Þegar barnabarnabarn Jóhanns varð 25 ára fyrir tveimur árum var Bubbi Mortens fenginn til þess að spila fyrir afmælisbarnið en það var Hanni sem hitaði upp í veislugestum með nikkuna að vopni áður en „kóngurinn” sló sexstrengina.
Algerlega áhyggjulaus
Hanni er alsæll með dvöl sína á Hlévangi og segir að það sé dekstrað við hann á tá og fingri. „Ég átti ágætis heimili í Sandgerði og þar var oft mikill gestagangur og allt það en þjónustan hér er frábær, það er alveg sama hversu lítilvægt það er sem maður þarfnast, starfsfólkið er alltaf komið á harða hlaupum boðið og búið til þess að aðstoða mann. Hér er ég algerlega áhyggjulaus og hef það fínt,” sagði þessi hressi öldungur.
Afi lifði af eldingu
Jóhann er mikill ættfræðiáhugamaður og sagði blaðamanni stórmerkilega sögu af Jóhanni Kristjáni Árnasyni afa sínum. Þannig var að Jóhann lagði af stað hinn 16. mars 1865 ásamt átta öðrum mönnum á áttæringi til Voga frá Reykjavík. Stefnan var að halda til í Vogum um veturinn og gera bátinn þaðan út. Veður var fremur ískyggilegt þegar lagt var af stað og austanvindinn herti er á daginn leið. Áhöfnin gisti í Vogum um nóttina en ætluðu svo að halda heimleiðis en þá rak á kolsvart él og sú ákvörðun tekin að leita lands. Þegar í land var komið leituðu áhafnarmeðlimir skjóls að Auðnum, skipverjar leituðu sér skjóls undir norðurgafli timburhúss og hugðust standa af sér élið. Í sömu andrá laust eldingu niður í húsið og féllu allir mennirnir til jarðar eins og þeir hefðu verið skotnir. Jóhann Árnason, afi Hanna, stóð fyrir miðjum gafli hússins þegar eldingunni laust niður og féllu tveir menn ofan á hann og voru þeir báðir örendir. Jóhann sakaði ekki og hresstist hann fljótt. Þrír létust af völdum eldingarinnar af þeim níu sem saman voru komnir undir húsgaflinum, aðrir brenndust illa en Jóhann Árnason var eins og nýsleginn túskildingur. Nánari frásögn af þessu slysi er að finna í Niðjatali Ingibjargar Steinunnar Eyjólfsdóttur og Jóhanns Kristjáns Árnasonar í samantek Sigurðar Hermundarsonar.
Hanni hefur það mjög gott á Hlévangi í dag og segist gera fátt annað en fá sér nokkrar kríur yfir daginn og hlusta á útvarpið. Því miður missti hann af helgistundinni vegna heimsóknar frá blaðamanni en það var ekki að sjá að hann sæji eftir henni. „Það hefur verið logið á skemmri tíma en 2000 árum,” sagði hann og brosti út í annað.
VF-myndir og texti/ Jón Björn Ólafsson