Jóhann í lengsta flugi Icelandair
Jóhann Axel Thorarensen, flugmaður hjá Icelandair, flaug til Kína og sótti sautján tonn af hjúkrunarvarningi fyrir íslenska heilbrigðiskerfið.
– Hvernig var að fljúga þessa löngu ferð til Kína og hver var tilgangurinn?
Það var fyrir margar sakir mjög ánægjulegt að fara í þetta flug þó svo að þetta hafi verið langt en við flugum þetta fram og til baka. Tilgangur flugsins var að sækja lækninga- og hjúkrunarvörur fyrir íslenska heilbrigðiskerfið, í samstarfi við DB Schenker, sem á að nota í baráttunni við COVID-19-faraldurinn. Við fórum í loftið frá Keflavík klukkan 09:50 miðvikudagsmorguninn 8. apríl síðastliðinn á Boeing 767-300 þotu Icelandair sem búið var að undirbúa sérstaklega fyrir þetta flug hvað varðar fyrirkomulag á því hvernig farminum skyldi komið fyrir um borð í lestum og farþegarými þegar komið væri á áfangastað. Farið var í loftið til norðurs og stefna sett í norðaustur þvert yfir Ísland. Þegar komið var út fyrir strendur Íslands rétt sunnan við Langanes tók við Noregshafið og svo lá leið okkar yfir Norður-Noreg, Svíþjóð, Finnland, Rússland, Mongólíu og svo Kína. Þar flugum við rétt vestan við Wuhan-hérað sem flestir þekkja orðið. Við lentum í Shanghai klukkan 21:39 að íslenskum tíma, eða tæplega tólf klukkustundum síðar. Í þessu flugi voru fjórir flugstjórar og tveir flugmenn ásamt tveimur flugvirkjum og þremur hlaðmönnum. Fluginu var skipt niður á milli okkar flugmanna samkvæmt fyrirfram ákveðnu verklagi sem samþykkt var af flugmálayfirvöldum þar sem vakttíminn var með lengra móti. Eftir lendingu í Shanghai tók svo við að taka eldsneyti fyrir heimferðina og að hlaða um sautján tonnum af lækninga- og hjúkrunarvörum um borð. Með samstilltu átaki þar sem allir lögðu sitt af mörkum tókst vel að koma vörunum fyrir um borð. Fyllstu varúðarráðstafanir voru teknar í ljósi aðstæðna og vorum við öll með grímur og hanska á meðan við vorum á jörðinni í Kína. Við tók svo flugið heim sem var öllu lengra sökum mótvinds á leiðinni. Flogin var nokkuð svipuð leið til baka og þegar við nálguðumst Ísland í 40.000 fetum reis fallega eyjan okkar úr sæ og hægt var að sjá landsendanna á milli í blíðviðrinu sem tók á móti okkur eftir um 13½ klukkustunda langt flug frá Kína, sem er það lengsta sem Icelandair hefur flogið leyfi ég mér að fullyrða. Það er stór hópur innan Icelandair sem kemur að því að því að skipuleggja svona flug en þess má geta að það voru fleiri Suðurnesjamenn sem komu að þessu flugi. Þau Örn Eiríksson, sem var einn af hlaðmönnunum í ferðinni, og Jenný Waltersdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandair, sem tók þátt í skipulagningu ferðarinnar.
– Hvað viltu segja um stöðuna sem flugbransinn er að upplifa núna á tímum COVID-19?
Flugbransinn er að upplifa stöðu sem hefur ekki komið upp áður. Það hafa vissulega komið erfið tímabil í fluginu en ekkert þessu líkt, að nánast allur flugfloti í heiminum sé kyrrsettur. Frá því ég byrjaði í þessum bransa hefur maður gengið í gegnum nokkrar lægðir, svo sem árásirnar á tvíburaturnana þann 11. september 2001, efnahagskreppuna 2008, gosið í Eyjafjallajökli 2010 og svo COVID-19 2020. Það er óhætt að segja að flugiðnaðurinn í heild sinni í heiminum eigi í verulegum kröggum þessi misserin þar sem tekjuhlið rekstursins hefur nánast þurrkast út. Icelandair hefur gripið til aðgerða með því að draga úr kostnaði og leita allra leiða til þess að koma félaginu út úr þessum ólgusjó, sem ekki bara Icelandair stendur í heldur öll fyrirtæki i ferðamannaiðnaðinum á Íslandi í dag. Icelandair er vel í stakk búið til að takast á við þessa stöðu í einhvern tíma þar sem eiginfjárstaða félagsins er sterk. Ég tel að flugiðnaðurinn eigi eftir að jafna sig fljótt og örugglega og ber ég mikið traust til stjórnenda Icelandair og öllu því góða fólki sem vinnur þar.
– Hvernig hefur fjölskylda þín verið að upplifa COVID-19?
Fjölskyldan hefur tekið þessu með mikilli rósemd og skilningi. Við hjónin vorum með þeim fyrstu til að fara í sóttkví þar sem við vorum á skíðum á Ítalíu í lok febrúar. Fjölskyldan var ansi fljót að tileinka sér allar þær leiðbeiningar sem okkur voru settar af heilbrigðisyfirvöldum þar sem við vorum í sóttkví. Börnin máttu vera hjá okkur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um nálægð og faðmlög o.þ.h. og fórum við alfarið eftir leiðbeiningum sóttvarnarlæknis í þeim efnum. Að auki ökklabrotnaði eiginkonan í ferðinni og þurfti að fara í aðgerð þegar við komum heim og vorum við því enn minna á ferðinni eftir að sóttkví lauk en við hefðum kannski annars gert. Eiginkonan er svo heppin að geta unnið heima en flestir á hennar vinnustað, Íslandsbanka, vinna heima á meðan samkomubannið er svo að þetta ástand hefur sem betur fer ekki haft mikil áhrif á hennar vinnu. Börnin eru orðin óþreyjufull að venjulegt skólahald og íþróttaæfingar hefjist og kunna mun betur að meta það að geta mætt.
Eins og fleiri viðmælendur í þessu tölublaði svaraði Jóhann Axel nokkrum laufléttum spurningum Víkurfrétta:
Jóhann Axel Thorarensen, flugstjóri hjá Icelandair ehf.
– Hvernig varðir þú páskunum?
Ég var að fljúga heim frá Kína á skírdag með lækninga- og hjúkrunarvörur. Annars hef ég notið páskanna heima í faðmi fjölskyldunnar að borða góðan mat og spila með krökkunum. Einnig hef ég verið að dytta að ýmsu hérna heima eins og svo margir aðrir.
– Hvernig páskaegg fékkstu og hver var málshátturinn?
Súkkulaðiegg frá Nóa Síríus nr. 5 og málshátturinn var: „Sælla er að gefa en þiggja.“
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Aðallega hefðbundin símtöl en hef notað Teams og Snapchat til að taka hópsímtöl við vinina. Fórum m.a. í Pub Quiz með vinahópnum á Teams sem var algjör snilld og gott að geta hitt fjölskyldu og vini á þennan hátt.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
95 ára gömul amma mín fengi það símtal. Hún býr ein og er í sjálfskipaðri sóttkví og við megum því ekki heimsækja hana.
– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?
Þetta eru ekki tíðindi sem maður var að óska eftir en ef það er það sem þarf til að tryggja að þessi óværa láti undan þá tekur maður því. Þetta eru því miður mjög slæmar fréttir fyrir vinnuveitanda minn og ferðaþjónustuna í heild sinni.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Fólk þarf að standa saman og hugsa vel um hvert annað. Tökum litlu hlutunum eins og faðmlögum og knúsum ekki sem sjálfsögðum hlut.
– Ertu liðtækur í eldhúsinu?
Ég á mína spretti.
– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?
Góða nautasteik með Bearnaise og frönskum og góðu rauðvíni.
– Hvað var í páskamatinn?
Ali hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi, í eftirrétt vorum við með Sherry-ís að hætti ömmu og Toblerone-ís að hætti mömmu.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Allskyns grillmat á kolagrilli eins og lambalæri og nauta Ribeye-steikur.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Dæturnar og eiginkonan hafa verið mjög duglegar að baka í samkomubanninu, kræsingar eins og t.d. bananabrauð, makkarónur, hafraklatta og ýmsar tertur.
– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?
Hægt er að versla á heimkaup.is heilar máltíðir fyrir fjóra sem kosta undir 2000 krónur. Ætli ég myndi ekki nýta mér eitthvað þar eins og marineraða kjúklingaleggi.
– Hvað hefur gott gerst í vikunni?
COVID-smitum fækkar jafnt og þétt sem er mjög jákvætt. Einnig verð ég að minnast á flugið til Kína fyrir nokkrum dögum þegar ég og vinnufélagar mínir sóttum sautján tonn af lækningabúnaði. Búið er að staðfesta að allur búnaðurinn stenst þær kröfur sem gerðar eru sem er virkilega frábært.
– Hvað hefur vont gerst í vikunni?
Dauðsföll vegna COVID-19.
Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali?
Hver er spurningin og svarið við henni?
– Verður gott veður í sumar og hvað stefnir þú á að gera í sumar?
Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og ég er viss um að veðrið verði gott í sumar. Það var einn góður maður sem sagði eitt sinn við mig: „Það er ekki neitt vont veður, bara léleg föt.“ Þannig að þetta er líka spurning um hugarfar, að láta ekki veðrið fara í taugarnar á sér bara klæða sig eftir því hvernig það er hverju sinni. Í sumar ætla ég að renna fyrir fisk, spila golf og keyra um landið með fjölskyldunni með fellihýsið aftan í bílnum og njóta alls þess sem Ísland býður upp á yfir sumartímann.