Jóga með börnum í leikskólanum Gimli

Í dag er Dagur leikskólans haldinn í ellefta sinn, 6. febrúar er merkisdagur í sögu leikskólans hér á landi en á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og því mikilvægur þáttur í upphafi skólagöngu hvers barns, en þar læra börn m.a. samskipti, félagsfærni og taka sín fyrstu skref í námi.

Leikskólinn Gimli hefur frá árinu 2007 boðið upp á jóga en það er ein af námsleiðum leikskólans. Öll börn á Gimli fara í jógastund einu sinni í viku með sínum hóp og er markmið stundanna að æfa sig í að vera hér og nú eða í núvitund. Fyrstu sex árin sá Guðrún Gunnarsdóttir jógakennari um jógastundirnar en frá árinu 2013 hefur leikskóla-og jógakennarinn Sigurbjörg Eydís Gunnarsdóttir eða Sibba eins og hún er kölluð, séð um undibúning, skipulag og kennslu jógastundanna.

Úr jógastund á Gimli.

Í jóga læra börnin að rækta vitund um líkamlegt-og andlegt heilbrigði og að hafa kærleika og gleði að leiðarljósi. Í jógastund er markmið að auka orðaforða, orðaskilning og stærðfræði í gegnum umræður, sögur og ævintýri sem eru unnin í hverri jógastund, þar er sögunum fléttað saman við kynjanámskrá Hjallastefnunnar.
Til að efla einstaklings- og félagfærni barnanna er meðal annars unnið með orð sem tengjast dyggðum, sjálfstrausti, samkennd, samskiptum og vináttu. Þar er rætt um merkingu orðanna, þau sett í samhengi og æft að setja sig í spor annara.

Jógastundirnar á Gimli fara fram í rólegu umhverfi þar sem nemendur hita upp með léttum teygjum, gera öndunaræfingar, ræða saman og láta kærleiksstein ganga sín á milli. Aðalæfingin í jógastundinni er sú að farið er í ævintýraferð þar sem gerðar eru stöður út frá sögunni sem sögð er hverju sinni. Í lokin slaka allir á, hlusta á slökunarsögu, fá kærleiksnudd og einbeita sér að öndun. Þess má einnig geta að á útisvæðinu er jógalundur sem leikskólinn nýtir á sumrin fyrir jógastundir.

Karen Valdimarsdóttir leikskólastýra á Gimli segir að ávinningurinn af jógastundum sé mikilvægur hluti af heilbrigði hvers barns þar sem róleg stund er nýtt í að efla einbeitingu, athygli, hlustun og þolinmæði. Nemendur nái einnig að liðka sig og efla styrk líkamans með hinum ýmsu stöðum og teygjuæfingum.
Það sé einnig mikilvægt að nemendur taki umræður um tilfinningar og líðan, því það kenni samkennd gagnvart þeim sjálfum og öðrum. Auk þess eykst líkamsvitund og trú á eigin getu styrkist. Börnin læra aðferðir sem þau geta nýtt sér hvar og hvenær sem er. 

Þeir sem vilja vekja athygli á deginum í samfélagsmiðlum eru hvattir til að nota myllumerkið #dagurleikskolans2018.