Jóga í Grindavík
Þegar hausta tekur hugsa sér margir til hreyfings og er þá jafnan margt í boði til að efla hug og anda. Þær Margrét Gísladóttir og Fanney Laustsen hafa tekið að sér að kenna Grindvíkingum Jóga og þegar blaðamaður leit inn hjá þeim á dögunum skipti engum togum að hann var drifinn á gólfið og látinn gera nokkrar léttar jógaæfingar. Verður að játast að það kom verulega á óvart hve æfingarnar höfðu styrkjandi áhrif þó að ekki væri hamast með þungum lóðum.
Margrét og Fanney sögðu að þokkalega hefði gengið að fá fólk á æfingarnar en þó hefði ekki verið hægt að halda öll námskeiðin. Þær sögðu að margir töluðu um að vera alltaf á leiðinni að fara í Jóga og nú væri ekki eftir neinu að bíða og drífa sig af stað. Þær eru með mjög góða aðstöðu í kjallara sundlaugar Grindavíkur og hafa gert salinn mjög notalegan með kertum og góðum dýnum.
VF-mynd/Þorsteinn