Joe Cocker kominn til landsins
Sálarsöngvarinn Joe Cocker kom til landsins í dag ásamt föruneyti sínu, en hann mun halda tónleika í nýuppgerðri Laugardalshöll á fimmtudagskvöld.
Cocker, sem er frægastur fyrir slagara eins og „With a little help from my friends“ og „You are so beautiful“, mun þenja sín rámu raddbönd fyrir landann í fyrsta skipti, en hann hyggst kynna sér land og þjóð á meðan dvöl hans stendur og er næsta víst að hann mun renna fyrir lax áður en hann hverfur af landi brott.
Umboðsmaður kappans var ekki alveg sáttur við fjölmiðlamenn sem mættu til að taka á móti honum og ráðlagði Cocker að tjá sig ekki þar sem þeir voru ekki undirbúnir. Hann mun hins vegar fara í viðtal á Stöð2 í kvöld og á morgun verður blaðamannafundur þar sem hann verður spurður spjörunum úr.
VF-myndir/Þorgils