Jesus Christ Superstar í Keflavíkurkirkju
Keflavíkurkirkja hefur undanfarin ár ekki legið á liði sínu í öflugu tónlistarstarfi Reykjanesbæjar og ræðst nú í enn eitt metnaðarfullt verkefni á föstunni. Samkvæmt hefðinni er það píslarsagan sem er umfjöllunarefnið en á nokkuð nýstárlegan hátt, því nú standa yfir í kirkjunni æfingar á völdum lögum úr rokkóperunni ,,Jesus Christ Superstar". Um er að ræða messu sem flutt verður í kirkjum á Suðurnesjum í dymbilviku af Kór Keflavíkurkirkju ásamt hljómsveit og völdum söngvurum með væntanlegan Eurovisionfara Eyþór Inga í fararbroddi.
Stjórnandi verksins er Arnór B. Vilbergsson organisti í Keflavíkurkirkju en hann hefur einnig útsett tónlistina sérstaklega fyrir kórinn og hljómsveitina. Eins og flestir vita er tónlistin eftir Andrew Loyd Webber og Tim Rice en Hannes Örn Blandon þýddi textann á íslensku. Sr. Skúli S. Ólafsson hefur samið hugleiðingar um síðustu daga Krists sem verða fluttar milli laganna af sóknarprestum hverrar kirkju.
Þegar Arnór var inntur eftir því hvernig þetta hefði komið til sagðist hann vera búinn að ganga með þessa hugmynd í áratug. Hann hafði sett þetta upp í miklu smærri mynd í Stærra-Árskógskirkju í Eyjafirði, þar sem hann starfaði sem organisti áður en hann réðst til starfa í Keflavík. Síðan hafi hann beðið eftir rétta tækifærinu til að setja verkið upp með þeim myndugleik sem nú er gert. ,,Ég hafði tvennt að leiðarljósi við útsetningarnar. Í fyrsta lagi að þetta sé messa þar sem prestur tengi saman lögin með hugleiðingu um efnið og svo fær kórinn miklu stærra hlutverk en er í óperunni. Með því að auka vægi kórsins er ætlunin að magna upp áhrifin þar sem hann leysir af hólmi strengja- og blásturshljóðfærin í upprunalegu útsetningunni.
Auk kórsins eru valinn maður í hverju rúmi við einsöng og hljóðfæraleik. Með hlutverk Jesú og Júdasar fara þeir Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Sigurður Ingimarsson en sá síðarnefndi þandi svo eftirminnilega raddböndin í U2 messunni sem Arnór og kirkjukórinn sungu fyrir tveimur árum. Auk þeirra sjá félagar úr kórnum um einsöng og hljóðfæraleik með aðstoð góðra hljóðfæraleikara sem hafa veitt liðsinni við uppákomur af þessu tagi í gegnum árin.
Fyrirhugaðar messur eru þrjár: Á pálmasunnudag 24. mars í Keflavíkurkirkju, þann 25. mars í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og 26. mars í Grindavíkurkirkju og hefjast kl. 20. Ekki verður krafist aðgangseyris að þessum viðburði en safnað á staðnum frjálsum framlögum í orgelsjóð Keflavíkurkirkju.