Jesus Christ flottur í Keflavíkurkirkju
Eurovisionfarinn Eyþór þandi magnaða rödd sína. Sýning í Sandgerði í kvöld og í Grindavík annað kvöld.
Söngvarar og flytjendur kórs Keflavíkurkirkju í söngleiknum Jesus Christ Superstar slógu í gegn á frumflutningi hans í Keflavíkurkirkju í gærkvöld. Svo mikil var aðsóknin að fjöldi manns þurfti frá að hverfa. Næstu sýningar eru í kvöld og annað kvöld. Aðeins verða þessar þrjár sýningar.
Arnór B. Vilbergsson organisti stóð í stafni og stjórnaði kór, hljómsveit og einsöngvurum sem voru ekki af verri endanum. Má þar nefna Eyþór Inga Gunnlaugsson fulltrúa Íslands í Evróvisjón en hann söng hlutverk Jesú, og Sigurð Ingimarsson sem var í hlutverki Júdasar. Aðrir söngvarar eru úr röðum kórfélaga og margir þeirra leika einnig á ýmiss hljóðfæri.
Sóknarpresturinn las texta verksins á milli tónlistaratriða og fór einnig á kostum með mjög skemmtilegum flutingi. Svo sló hann einnig á létta strengi og það kunnu áhorfendur vel að meta. Hann sagði ánægjulegt að sjá svona fulla kirkju. Það hjálpaði að hífa upp meðaltalið í messusókn en hvert sæti var skipað og fjölmargir stóðu einnig.
Það er ljóst að öllu var tjaldað til að vel mætti heppnast og það gerði það svo sannarlega. Kirkjugestir klöppuðu flytjendum lof í lófa og voru ánægðir með flutninginn.
Það eina sem skyggði á var að margir þurftu frá að hverfa og þeir sem fóru í safnaðarheimilið nutu sýningarinnar þar ekki nógu vel þar sem hljóðið skilaði sér ekki nógu vel þangað. Eitthvað sem þarf að skoða í framtíðinni þegar svo vinsælir viðburði eru settir upp í kirkjunni. Svo mikill var spenningurinn fyrir sýningunni að kirkja var orðin fullsetin 45 mín. fyrir sýningu.
Önnur sýning er 25. mars í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og 26. mars í Grindavíkurkirkju. Dagskrá hefst kl. 20:00.
Elmar syngur í bleiku umhverfi en kirkjan var skrýdd fögrum ljósum í miklum litum.
Séra Skúli las texta á milli laga.
„Jesús og Júdas“, Eyþór og Sigurður á sviðinu í Keflavíkurkirkju.