Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jeppaskrepp á Skjaldbreið
Þriðjudagur 4. janúar 2005 kl. 12:22

Jeppaskrepp á Skjaldbreið

Lagt var upp frá Keflavík upp úr klukkan 9 á sunnudag og haldið sem leið lá austur Reykjanesið til Reykjavíkur.  Teknir voru farþegar í Hafnarfirði og svo hittist hópurinn aftur á Shellstöðinni við Vesturlandsveg.  Þar var fullt plan af jeppum og vélsleðum svo að það voru ekki bara Suðurnesjamenn sem ætluðu að nýta góðaveðrið til útivistar heldur hugðust höfuðborgarbúar gerða það líka í stórum stíl.

Það var svo um tíuleitið sem menn fóru af stað frá borginni og óku sem leið lá um Mosfellsheiði til Þingvalla veðrið var glææsilegt um -12° frost, logn og léttskýjað svo útsýnið yfir Þingvallavatn var frábært og sjá morgunnroðann á suðurhimninum flott myndefni.

Þegar komið var á Lyngdalsheiðina var mikið af bílum sem skildir höfðu verið eftir með sleðakerrum aftaní því þar hafa sleðamenn tekið af og spænt áfram á sleðum sínum.  Þónokkur snjór var á heiðinni en færið var ekkert sérstakt. Snjórinn tróðst illa svo hleypa þurfti vel úr til að fljóta.  Talsvert var af jeppum á leiðinni inn Lyngdalsheiði og gekk mönnum misvel að fikra sig áfram í fönninni.  Þegar nær dró Skjaldbreið og hlíðar hans sáust var alveg ótrúlegt að sjá alla bílana sem þar voru - það var nánast samfelld bílaruna frá rótum og alveg upp á topp veð smá eyðum á milli þar sem menn voru að baslast í brekkunum.  Nokkrar hindranir voru á uppleiðinni þó okkur gengi bara vel enda voru aðrir búnir að ryðja brautina þó svo að það hafi nú ekki í öllum tilfellum verið betra.

Þegar tindinum var náð voru þar um 50 bílar og enn voru bílar á uppleið og niður reyndar líka sem segir okkur nokkuð um þann fjölda sem á ferðinni var.  Þarna hittum við fleiri suðurnesjamenn sem voru að viðra jeppana sína.  Útsýnið var mjög gott þarna þar sem við stóðum í tæplega 1100 metra hæð. Yfir okkur flugu tvær einkaflugvélar nokkuð lágt og greinilegt að flugmenn nutu veðursins eins og við, einnig sveimaði krummi þar um og fylgdist með hópnum og lenti við og við - í hæfilegri fjarlæð þó.Eftir að hafa virt fyrir sér landið og bragðað á nestinu var ákveðið að halda áfram í norður og niður á línuveg sem liggur um Haukadalsheiði sunnan Langjökuls og fylgja honum í vestur að Kaldadal og síðan þaðan niður á Þingvöll. Gekk sú ferð nokkuð vel þó lítið sæist af þeim vegum sem verið var að elta.  Nokkrir jeppar voru á vegi okkar og gekk þeim ferðin misvel eins og gengur í miklum snjó.  Er við komum á Þingvöll var svo skotið lofti í dekkin. Tekið var að skyggja nokkuð svo menn kvöddust og héldu heim á leið eftir vel heppnaðan dag á fjöllum.

Gretar Þór Sæþórsson

Ljósmyndir: Gretar Þór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024