Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jeppakarlar af Suðurnesjum á hálendinu
Mánudagur 23. febrúar 2004 kl. 15:01

Jeppakarlar af Suðurnesjum á hálendinu

Um helgina fóru meðlimir Suðurnesjadeildar 4X4 klúbbsins í þorrablótsferð í Hvanngil norður af Þórsmörk. Hópurinn samanstóð af 16 jeppum, en vegna krapa og snjóleysis komst hópurinn ekki að Hvanngili og fór því niður í Fljótshlíð þar sem Þorrablótið var haldið.

Gretar Þór Sæþórsson tók myndir í ferðinni og að hans sögn gekk ferðin vel. „Þrátt fyrir erfiða færð var þetta mjög gaman. Við komumst ekki að Hvanngili vegna þess að áin Emstra var búin að ryðja sig og rann ekki undir brúnna eins og venjulega. Af þeim sökum komumst við ekki að Hvanngili. Við vorum til rúmlega fjögur um nóttina að reyna að komast að Hvanngili. Hópurinn brá á það ráð að gista í smalaskála að Mosa við Markarfljót en hópurinn komst ekki allur fyrir í skálanum þannig að sumir þurftu að gista í bílum sínum,“ segir Gretar.

Á laugardeginum sáu ferðalangarnir ána Emstru og segir Gretar að þá hafi verið ljóst að ekki væri ráðlegt að reyna að fara yfir ána og því var brugðið á það ráð að fara að Hellishólum í Fljótshlíð. „Það er mjög góð aðstaða að Hellishólum. Við vorum öll í litlum sumarbústöðum og á staðnum er einnig búið að innrétta gamalt fjós þar sem nú er veislusalur,“ sagði Gretar en hópurinn kom til baka í gær.

 

 

 

 

Ljósmyndir: Frá ferðalagi Suðurnesjadeildar 4X4 klúbbsins um helgina. VF-ljósmyndir/Gretar Þór Sæþórsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024