Jazz í Duushúsum í kvöld
Það er ekki á hverjum degi sem tónlistarmenn úr fremstu röð íslensks djass spila í Reykjanesbæ. Sú verður raunin í kvöld í Duushúsum. Tilefni tónleikanna er að fylgja eftir nýlegri útgáfu geisladisks sem ber heitið „Concrete“ og inniheldur annarsvegar frumsamin lög og hinsvegar lög sem sett hafa verið í djassbúning. Þar á meðal er verk eftir Chopin og stef úr þáttunum um Múmínálfana sem fá nýja túlkun.
Tónlistin á plötunni Concrete er góð blanda af flóknum og einföldum tónsmíðum undir ýmsum áhrifum. Geisladisk má nálgast hjá 12 Tónum.
Tónlistarmenn á tónleikunum verða þeir sömu og á plötunni Concrete: Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar, Einar Valur Scheving á trommur, Leifur Gunnarsson á bassa og Magnús Rannver Rafnsson á píanó. Leikin verða lög af plötunni í bland við sígilda þekkta djasstónlist. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00.