Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jane Austen er og verður í uppáhaldi
Eydís Hentze er lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar.
Miðvikudagur 28. júní 2017 kl. 16:26

Jane Austen er og verður í uppáhaldi

-Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar

Lesandi vikunnar er einlægur aðdáandi rithöfundarins Jane Austen og bókin Hroki og hleypidómar er í sérstöku uppáhaldi eftir sama höfund. Eydís Hentze er háskólanemi, færeyskur zen-meistari og móðir. Eftir annasaman vetur unir Eydís sér vel í garðinum og nýtur þess að lesa aðrar bækur en skólabækur. Þessa stundina er hún að lesa Fýkur yfir hæðir eftir Emily Brontë.

Eydís er ekki lengi að hugsa sig um við val á eftirlætis bók. ,,Það er engin spurning í mínum huga, það er bara ein sem kemst þangað. Bókin heitir Hroki og hleypidómar og er eftir Jane Austen.“ Þann 18. júlí eru liðin 200 ár síðan Jane Austen lést en hún er og verður, að sögn Eydísar, hennar uppáhalds rithöfundur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem Eydís les helst fyrir utan námsbækur er fræðsluefni tengt meðgöngum og fæðingum, glæpasögur eru alltaf í uppáhaldi og klassískar bókmenntir eftir kvenkyns höfunda.

Sú bók sem hefur hvað mest áhrif á Eydísi er uppáhalds bókin hennar, Hroki og hleypidómar. Eydís hefur lesið bókina margoft en oftast á ensku. Hún segist ekki endilega kjósa það frekar en bókin hafi verið til sem ókeypis eintak í smáforritinu iBooks, sem og aðrar bækur eftir Jane Austen. Sagan tekur fyrir alls konar dýnamík í mannlegum samskiptum sem Eydísi finnst mjög áhugavert og margt sem má heimfæra á okkar tíma sem nútímamanneskjan er enn að kljást við. ,,Ekki bara ástin, líka staða okkar í samfélaginu, staða innan hópa, staða kynjanna.“

,,Enska þess tíma er ljómandi skemmtileg og mörg orð hafa allt aðra þýðingu í dag þannig að ég gat skellt hressilega upp úr við og við.“
Aðalsöguhetja bókarinnar er Elisabeth Bennet og minnir hún Eydísi með margt á hina hispurslausu Samönthu Jones úr sjónvarpsþáttunum vinsælu Sex and the City. ,,Hún stóð alltaf með sér og sínum löngunum, það finnst mér ótrúlega flott. Þetta er líka gríðarlega feminískt rit, samfélagslega gagnrýnið en veitir ótrúlega mikla innsýn. Ritstíll Jane Austen er líka afskaplega flottur, þessi mögnuðu samtöl sem eru í gangi og þessi rosaleg persónusköpun.“

Að mati Eydísar ættu allir að lesa Hroki og hleypidómar því sagan kennir svo margt. Einnig telur hún að allir hefðu gott af því að lesa Bréfin hans Þórbergs sem veita dásamlega innsýn í hans persónulega líf og líf hans sem rithöfundar.

Eydís kýs að lesa upp í rúmi og les jafnt rafbækur sem hefðbundnar.

Bækurnar sem Eydís mælir með í sumarlesturinn eru glæpasögur eftir Fred Vargas, öllu eftir Jane Austen, Fýkur yfir hæðir og fyrir alla sem eiga börn mælir hún með bókinni Samskipti foreldra og barna – Að ala upp ábyrga æsku – eftir Dr. Thomas Gordon. Einnig mælir hún með My invented country eftir Isabel Allende og Þrettánda sagan eftir Diane Setterfield.

Á eyðieyju þyrfti Eydís eingöngu eina bók, Hroki og hleypidómar. ,,Það er endalaust hægt að læra af þessari bók.“

Það sem eftir lifir sumars ætlar Eydís að njóta þess sem hver dagur hefur upp á að bjóða, gera það besta úr öllu og klára Fýkur yfir hæðir í rólegheitunum.

Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 09-18 og á laugardögum frá klukkan 11-17. Rafbókasafnið er alltaf opið – nánari upplýsingar á heimasíðu safnsins. Á heimasíðu safnsins er hægt að mæla með Lesanda vikunnar.