Jákvæðnin besta vopnið í rigningunni

- Vinnuskóli Grindavíkur hefur gengið vel í sumar

Vinnuskóli Grindavíkur hefur verið starfræktur frá því í byrjun sumars en alls sóttu um áttatíu krakkar um störf hjá Vinnuskólanum frá 8.–10. bekk að sögn yfirflokkstjórans, Ingu Fanney Rúnarsdóttur.

Ná ekki að mála sökum vætutíðar
Ágætlega gekk að ráða inn flokkstjóra en Inga Fanney segir að flokkstjórastarfið sé alls ekki fyrir alla og að útlitið hafi ekki verið bjart í fyrstu. „En við náðum að púsla þessu saman í lokin og réðum inn gott fólk sem vinnur vel saman.“

Helstu verkefni vinnuskólans í sumar hafa verið beðahreinsun, gróðursetning og almenn hreinsum bæjarins. Inn á milli er málningarvinna en sökum regns og vætutíðar hefur ekki verið hægt að fara í þau málningarverkefni sem liggja fyrir innan bæjarins en Inga segist krossa fingur og vonast til þess að það komi nokkrir þurrir dagar til þess að hægt verði að klára þau verkefni.

En hvernig hefur nemendum Vinnuskólans gengið í rigningunni í sumar?

„Ég er alltaf bjartsýn fyrir góðu sumri en verð því miður oftast fyrir vonbrigðum, við reynum að taka þessu með jákvæðnina að vopni, þó það geti oft verið erfitt. En á verstu rigningardögunum þá eru krakkarnir vanalega með stuttan dag og við höfum alltaf næga innivinnu til að sinna sem við geymum fyrir þessa ,,skemmtilegu“ daga.“