Jákvæðar hugleiðingar um orð
Laugardaginn 20. febrúar kl.16:00 opnar fyrsta sýning í Suðsuðvestur á nýju ári. Þess má geta að Suðsuðvestur varð fimm ára í janúar og telst því með,elstu svokölluðum „non-profit“ sýningarrýmum landsins.
Að þessu sinni ætlar Jeanette Castioni að opna sýningu á myndbandsverkinu „How alike do we have to be to be similar?”
„Í verkinu eru kannaðar jákvæðar hugleiðingar um orð sem helstu miðlunarleið tilfinninga og hugmynda, jafn þýðingamikilla og kraft ímyndunaraflsins. Fyrir okkur eru persónurnar í myndbrotunum verur án raddar, en þegar við reynum að skilja tungumálið þeirra öðlumst við nýtt sjónarhorn sem rennur saman við skynjun okkar á samkennd sem verður raunveruleg,“ segir m.a. í kynningu á verkinu.
Jeanette Castioni er ítölsk og hefur verið búsett á Íslandi undanfarin ár. Hún útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Suðsuðvestur er til húsa á Hafnargötu 22 í Keflavík. Aðgangur er ókeypis
og allir velkomnir.