Jákvæð viðbrögð við endurbótum á Myllubakkaskóla
Gert ráð fyrir fjölgun nemenda á komandi árum
Tillögur að endurbótum á Myllubakkaskóla hafa verið kynntar og þar segir að allur skólinn hafi verið endurhugsaður út frá nútímalegum viðhorfum og breyttum tímum með fjölbreyttari kennsluaðferðum. Tillagan felur í sér að ný ásýnd skólans verður látlaus og að álmurnar eru hugsaðar þannig að þær myndi heildstæða byggingu við verklok. Tillögurnar hafa mælst vel fyrir hjá stjórnendum og starfsfólki skólans og segir Hlynur Jónsson, skólastjóri Myllubakkaskóla, frumdrögin vera glæsileg og að þau komi vel út.
„Almennt hef ég bara heyrt jákvæð viðbrögð við tillögunum. Fyrst átti ég von á viðbrögðum eins og með sundhöllina, Myllubakkaskóli er jú líka hannaður af Guðjóni Samúelssyni, en ég hef ekki heyrt mikið að fólk sé að spá í því í þessu tilfelli. Þessar teikningar nýta lóðina líka miklu betur, baklóðirnar eru miklu stærri og bjartari,“ segir Hlynur.
„Þetta verður mikil breyting fyrir skólastarfið. Ekki bara það að við séum að auka við okkur plássið, það er gert ráð fyrir stækkun, skólinn ætti að rúma 450 til 500 nemendur en þeir eru um 300 núna. Skólinn var gerður fyrir 330 nemendur en með uppbyggingunni sem er fyrirhuguð á Vatnsnesinu er gert ráð fyrir fjölgun upp á 150 nemendur og því er verið að stækka skólann í samræmi við það. Við fáum stærra íþróttahús og getum þá mögulega verið með alla okkar íþróttakennslu á sama stað, þurfum þá ekki að fara upp á Sunnubraut.“
Bætt aðstaða til íþróttaiðkunar
Hlynur segir að íþróttahúsið hafi verið barn síns tíma og sé að flatarmáli innan við 200 fermetrar.
„Ég man sjálfur eftir að hafa verið á körfuboltaæfingum þar. Við vorum tuttugu, þrjátíu strákar og þegar maður hugsar til baka spyr maður sig hvernig þetta hafi verið hægt. Nýja íþróttahúsið verður glæsilegt og vonandi nýtist það ekki bara okkur heldur líka út í íþróttastarfið í kjölfarið. Fleiri æfingastaðir, hægt að hafa fleiri æfingar fyrr um daginn og þá ljúka börn sínum tómstundum fyrr á daginn – þannig að þetta myndi bæta aðstöðuna fyrir alla.“
Hvenær sérðu fyrir þér að þessi nemendafjölgun muni eiga sér stað?
„Ég held að það sé dálítið í það. Þó það sé búið að deiliskipuleggja hverfið er ekki byrjað að byggja það svo það verða væntanlega einhver ár í það. Samt sem áður nýtum við plássið alveg, verðum með færri börn í hverjum árgangi en getum tekið á mót fleirum þegar fjölgunin verður hægt og bítandi næstu árin,“ segir Hlynur. Hann segir jafnframt að nú þegar sé búið að taka við nokkrum nemendum frá Grindavík og það sé ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að þeim gæti mögulega fjölgað, hvort sem það sé til frambúðar eða tímabundið.
Hlökkum til að komast í nýju bygginguna
Mikið rask hefur orðið á skólastarfi Myllubakkaskóla eftir að mygla greindist í skólanum fyrir tveimur árum og það hefur haft mikil áhrif á alla sem að starfinu koma.
„Hvort sem það er starfsfólkið, foreldrar nemenda eða nemendur sjálfir þá upplifa allir að þetta sé orðið mjög langdregið og við hlökkum öll til að geta komist í bygginguna. Um næstu áramót fáum við eina álmu afhenta, þannig að í janúar getum við flutt inn í eina bygginguna. Haustið 2024 verður næsti áfangi afhentur og haustið 2025 ætti allur skólinn að vera meira og minna tilbúinn.“
Hlynur tekur fram að þessar áætlanir eru samkvæmt núverandi tímaáætlun en eins og flestir vita geta þau áform alltaf breyst.