Íþróttamiðstöð Grindavíkur tilnefnd til Menningarverðlauna DV
Íþróttamiðstöðin í Grindavík er tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015 í flokknum arkitektúr. Byggingin er að marga mati glæsileg og hlaut í fyrra Steinsteypuverðlaunin 2015 og var einnig tilnefnd til íslensku lýsingarverðlaunanna. Hægt er að kjósa rafrænt hér og stendur kosning til miðnættis þann 9. mars.
Eftirtöld verk eru einnig tilnefnd í flokknum arkitektúr:
Orlofshús í Brekkuskógi (PK Arkitektar)
Hjúkrunarheimilið Dyngja í Fljótsdalshéraði (Hornsteinar arkitektar)
Orka til framtíðar, afmælissýning Landsvirkjunar á Ljósafossi (Gagarín og Tvíhorf arkitektar)
Íbúðir í Eddufelli (GP Arkitektar)
Í umsögn á vef DV segir um Íþróttamiðstöð Grindavíkur:
„Um er að ræða metnaðarfullt verkefni sem felur í sér öfluga viðbót við þau íþróttamannvirki sem fyrir eru og á bæjarfélagið hrós skilið fyrir að nota núverandi innviði til að skapa stemningu og líf. Þegar horft er á nýju bygginguna má sjá óvenjulegt en að sama skapi áhugavert formtungumál sem birtirt í gluggasetningu og efniskennd. Með landslagshönnuninni eru svo kynnt til leiks mjúk form úr steinsteypu sem mynda nokkurs konar setstalla. Þeir virka sem óformlegar áhorfendastúkur þegar viðburði ber á góma á útisviði sem staðsett er fyrir miðju torgsins. Þessi fjölbreytilega blanda formtungumáls sem birtist í byggingu og torgi er djörf en að sama skapi lifandi og skemmtilegur rammi utan líf og leik í bæjarfélaginu Grindavík.“