Íslenskri hönnun komið fyrir á flugbraut
- Hönnunarmars út fyrir höfuðborgarsvæðið í fyrsta sinn.
„Þetta er í fyrsta skipti sem Hönnunarmars fer út fyrir höfuðborgarsvæðið. Hér í flugstöðinni er lögð rík áhersla á að hafa íslenska hönnun á boðstólnum. Einnig er flugstöðin ótvíræð tenging við Hönnunarmars því hér bjóðum við velkomna og kveðjum erlenda gesti sem koma hingað til lands til þess að sækja þennan viðburð,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, viðskiptastjóri hjá Isavia.
Hún segir einnig að flugstöðin sé sýningarglugginn inn í landið og mikilvægur snertipunktur vegna fjöldans sem fer þar um. Útbúin var flugbraut og íslenskri hönnun komið fyrir á henni. „Við vildum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á íslenskri hönnun og fjölbreytni hennar og um leið að minna á að allar þessar vörur eru seldar í flugstöðinni á hagstæðum kjörum. Þetta er síðasti viðkomustaður erlendra ferðamann á leið sinni um landið og þeir nota oft tækifærið til að kaupa séríslenskar vörur til minninga um heimsóknina.“
Þá sé þetta skref einnig liður í því að gera flugstöðina meira lifandi og í tengingu við það sem er að gerast í landinu á hverjum tíma. „Meðal þess sem við erum með í pípunum er að verða „off venue“ á Iceland Airwavers í haust,“ segir Gunnhildur Erla.
Hönnunarmars fer fram þessa dagana í sjötta sinn og lýkur á sunnudag. Hann spannar vítt svið, allt frá helstu hönnuðum þjóðarinnar sem sýna hvað í þeim býr, til nýútskrifaðra hönnuða sem eru stíga sín fyrstu skref. Á þessum dögum er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum.
Víkurfréttir litu við og smelltu af myndum af hluta þeirra vara og hönnunar sem sýnd er í flugstöðinni.
VF/Olga Björt