Íslenska er magnað tungumál
Snobb eða neikvæð gagnrýni verður ekki til þess að hjálpa okkur, segir Bryndís Jóna Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri við Heiðarskóla í Reykjanesbæ
Eitt af því skemmtilegasta sem Bryndís Jóna Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri við Heiðarskóla gerði áður var einmitt að kenna íslensku á mið- og unglingastigi. Í dag segist hún upplifa sig sem eilífðar íslenskukennara í uppeldi barna sinna. Bryndís er einnig rithöfundur og hefur gefið hefur út nokkrar vinsælar unglingabækur.
Bækur skapa notalegar stundir
„Ég les ennþá öðru hverju fyrir dóttur mína ellefu ára á kvöldin og gerði það einnig fyrir son minn þangað til hann fór sjálfur að vilja hella sér í Harry Potter og önnur ævintýri fyrir svefninn. Við lesturinn hef ég hvatt þau til að spyrja ef þau skilja ekki það sem ég er að lesa og stundum stoppa ég sjálf og ræði við þau um orð eða innhald. Þetta á auðvitað einnig við um heimalesturinn þeirra. Ég á það líka til að nota meðvitað ákveðin orð eða orðasambönd í því skyni að þau heyri þau heima. Þegar þau voru yngri á sínu virkasta máltökuskeiði nýtti ég hvert tækifæri sem gafst í einskonar orðaspjall. Þegar dóttir mín var á leikskólaaldri man ég t.d. eftir því að hún benti á húsþak og spurði hvort þetta væri strompur. Rétt var það og þá mátti hún líka vita að fyrirbærið má einnig kalla skorstein. Ég held því að ég geti með góðri samvisku sagt að ég sé ábyrgur málnotandi og ágætis fyrirmynd barna minna en svo langt frá því að vera fullkomin,“ segir Bryndís Jóna sem segist alltaf hafa verið áhugasöm um íslenskt mál.
Snemma beygist krókurinn
Þegar Bryndís Jóna var lítið barn þá tók mamma hennar eftir því hvað hún var fljót að taka eftir bókstöfum og táknum í umhverfinu. Þess vegna fékk mamma hennar kennaramenntaða kunningjakonu sína til þess að kenna henni að lesa áður en hún byrjaði í skóla. Málfræði- og stafsetningarreglur lágu ávallt vel fyrir Bryndísi Jónu á skólagöngu hennar og átti hún auðvelt með að beita þeim í rituðum texta. Hún hafði mjög gaman af því að lesa bækur og áttaði sig snemma á því hvað það lá vel fyrir henni að setja saman orð og setningar í sögur og ritgerðir, jafnvel ljóð, sendibréf og styttri kveðjur til vina og vandamanna.
Það má velta því fyrir sér hvort barn fæðist með þennan áhuga eða hvort áhuginn lærist með foreldri sem er duglegt að lesa upphátt fyrir barnið sitt og örva það með bókum? Móðir Bryndísar Jónu var vakandi yfir þessum hæfileikum dóttur sinnar og hefur það án efa hjálpað henni að rækta þá með sér.
Íslensk tunga er gullið okkar
„Við eigum þetta magnaða tungumál og það er í harðri samkeppni við ensku, pínulítið tungumál fámennrar þjóðar í risastórum heimi. Það skiptir því miklu máli að við hlúum að því en ekki á þann hátt að fræðingar fussi og sveii í hverju horni, skammist og reyti hár sitt yfir heimi sem versnandi fer. Tungumálið verður að fá að vera lifandi og einhvers konar hreintungustefna má ekki verða til þess að notendum þess fallist hendur og finni til vanmáttar gagnvart því. Ef það gerist leita þeir einstaklingar einfaldlega í einhæft mál og falskt öryggi enskunnar. Stundum finnst mér ég sjálf ekki hafa yfir mjög fjölbreyttum orðaforða að ráða í töluðu máli. Ekki eins fjölbreyttan og ég myndi vilja hafa. Ég er meðvituð um það og hef ósjaldan stoppað sjálfa mig af og jafnvel skellt upp úr þegar ég kem sjálfri mér í þess háttar vandræði í samtölum. Að því sögðu er auðvitað bara kjánalegt að vera að rembast við að beita orðaforða sem maður ræður ekki vel við. Eins hef ég lært heilmikið af bókaskrifunum en í þeim gerði ég heilan helling af vitleysum sem ég hafði ekki áttað mig á áður. Sumu var bjargað fyrir prófarkalestur en öðru ekki“, segir Bryndís Jóna og brosir.
Hún fullvissar blaðamann um að við þurfum ekki að vera hrædd við að tala eða skrifa vitlaust og bendir jafnframt á að tungumálið okkar eigi að skipta okkur öll máli en við verðum að fá að prófa okkur áfram, gera mistök og læra af þeim. „Ekki að festa hvert annað á gálga og hía ef okkur verður á að segja eitthvað öðru hverju málfarslega rangt, klikka á stafsetningu eða nota orðtök og orðasambönd vitlaust. Snobb eða neikvæð gagnrýni verður ekki til þess að hjálpa okkur í því mikilvæga verkefni að varðveita og rækta fallega tungumálið okkar. Það mun einungis gera fólk óöruggt og fæla það frá því að hafa áhuga á að vanda sig við að tala og skrifa,“ segir hún að lokum.