Íslensk útilegutónlist klikkar aldrei
Afþreying Suðurnesjamanna
Arndís Ingvarsdóttir er 20 ára nýstúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja frá því í vor. Arndís vinnur hjá IGS í augnablikinu en byrjar í september að vinna á leikskólanum Garðaseli. Hún er einnig á fullu í fótboltanum með Keflvíkingum í 1. deild en þar er hún iðin við markaskorun. Arndís hefur gaman af skáldsögum, hlustar á kósý tónlist og vill helst glápa á drama og glæpaþætti í sjónvarpinu.
Bókin
Síðasta bók sem ég las var The Fault in Our Stars. Bókin er um unglingana Hazel og Augustus en þau eru bæði krabbameinssjúklingar. Bókin fjallar um samband þeirra og erfiðleikana í kringum krabbameinið. Ég var búin að bíða rosalega spennt eftir að lesa þessa bók og ég varð heldur betur ekki fyrir vonbrigðum! Ég hef mjög gaman af skáldsögum en næsta bók sem ég væri til í að lesa er „Ég er á lífi, pabbi,“ frásögn Siri og nokkurra annarra sem upplifðu árásina á Útey í Noregi árið 2011.
Tónlistin
Ég get hlustað á nánast alla tónlist en uppáhalds tónlistin mín er þessi rólega kósý tónlist. Uppáhalds hljómsveitin mín er Coldplay og svo eru tónlistarmennirnir Ed Sheeran og Sam Smith virkilega góðir en ef það er eitthvað sem klikkar aldrei þá er það íslensk útilegutónlist og lögin með hljómsveitinni Queen.
Sjónvarpsþátturinn
Í augnablikinu er ég að horfa á Grey´s Anatomy og Criminal Minds en ég er oft að flakka á milli þátta og horfi mikið á Gossip Girl, One Tree Hill, Law & Order og eiginlega bara þá þætti sem mér dettur í hug á því augnabliki. Ég er mikið fyrir drama og glæpaþætti en ef ég ætti að velja einn uppáhalds þátt þá er það án efa Friends.