Íslensk tunga eins og gull
Sigga Palla lyfjafræðingur er flutt heim frá Noregi eftir að hafa búið þar öðru hvoru frá árinu 2004
Sigga Palla lyfjafræðingur er flutt heim frá Noregi eftir að hafa búið þar öðru hvoru frá árinu 2004, hún heitir fullu nafni Sigríður Pálína Arnardóttir. Það var áhuginn á að læra norrænt tungumál sem rak hana út en hún hafði setið ráðstefnur með apótekurum frá Norðurlöndum erlendis og fannst ekki nógu gott að geta ekki talað norrænt tungumál betur. Noregur var og er alltaf á höttunum eftir lyfjafræðingum og þegar henni bauðst að stýra apóteki í Suður-Noregi sló hún til og flutti ein út með börnin sín tvö.
Langaði að læra tungumálið
„Fyrst flutti ég til Noregs árið 2004. Tungumálið ýtti mér út því mig langaði að tala málið. Norðmönnum vantaði þá og vantar alltaf lyfjafræðinga til að reka lyfjaverslanir. Á Íslandi eru flestir lyfjafræðingar með meistaragráðu en í Noregi eru margir sem fara líka í reseptar-lyfjafræðinám sem er þriggja ára lyfjafræðinám en þá máttu ekki reka apótek. Norðmenn hugsa meira um lífsgæði og að hafa meiri frítíma með fjölskyldunni. Það er því eftirspurn eftir lyfjafræðingum til þess að reka apótek í Noregi,“ segir Sigga Palla sem heldur að hún sé endanlega hætt að búa í Noregi.
„Þeir elska okkur og það er svo gott að búa í Noregi. Svo fjölskylduvænt land. Ég var nýskilin þegar ég ákvað að flytja með börnin tvö til Noregs og þau voru alveg til. Ég byrjaði með apótek árið 2004 í Risør í Suður-Noregi og vildi vildi bara upplifa ævintýrið. Mig hafði lengi langað að flytja út og læra norsku. Eftir þrjú ár kom ég heim aftur til Íslands. Svo fékk ég þessa þrá aftur til Noregs þegar það var hringt í mig og ég spurð hvort ég væri til í að koma og opna nýtt apótek í Noregi. Ég var sko til í það. Auðvitað er maður dálítið hvatvís en svona var þetta bara. Ég flutti aftur út árið 2009 til Lillesand, rétt hjá Risør, og krakkarnir komu með. Það var ótrúlega gaman og við vorum þarna í tvö og hálft ár. Ég leigði yfirleitt húsnæði með húsgögnum svo ég tók ekki alltaf búslóðina með okkur. Svo var það árið 2014 að ég tók við apóteki í Drammen, það var líka mjög gaman. Þetta bara æxlaðist svona. Svo flutti ég heim árið 2017 og opnaði apótek í Njarðvíkunum, Reykjanesapótek.“
Í apótekinu í Noregi
Ísland og Noregur
„Ég elska Ísland og ég elska Noreg. Bæði þessi lönd eiga huga minn og hjarta. Ég var alltaf með heimþrá til Íslands þegar ég var í Noregi og löngun til Noregs þegar ég var heima á Íslandi. Það er miklu rólegra taktur þarna, maður fær næði til að hugsa og finna hvað það er dýrmætt að vera Íslendingur. Norðmenn eru alltaf að minna mann á það að við séum þaðan, þ.e. frá Noregi, upphaflega og að við höfum varðveitt tungumálið þeirra gamla sem þeir tala sjálfir ekki lengur í dag en við gerum það ennþá. Íslenskt tungumál er dýrmætt eins og gull. Maður sér svo vel uppruna íslenskrar tungu í Noregi. Maður finnur vel fyrir norrænum uppruna sínum þar. Dóttir mín var beðin um að lesa upp gammel norsk í skólanum og þetta var bara íslenska. Við vorum svo stoltar að sjá tenginguna. Tungan okkar er mjög dýrmæt og hornsteinn menningar okkar. Hún er það sem gerir okkur að Íslendingum. Tungumálið okkar finnst mér tengjast náttúru okkar og sögu þjóðarinnar. Norðmenn eru svo ánægðir með hvað við höfum varðveitt gamla tungumálið þeirra. Þegar Norðmenn fjalla um Ísland í fréttum þá kalla þeir landið okkar Sögueyjuna. Það eru reglulega sýndir þættir um Ísland í sjónvarpinu en þeim finnst þeir eiga svo mikið í okkur. Íslendingar eru svo skapandi, við gerum það sem okkur langar til að gera, gefumst ekki upp og höfum trú á okkur. Það er kanski veðráttan og náttúran sem veldur því. Norðmenn eru yfirleitt varkárari,“ segir Sigga Palla.
Margt líkt með okkur
„Snúa Íslendingar ekki alltaf heim aftur? Börnin mín eru orðin 19 og 29 ára, ég og þau vildum flytja heim en þeim líkaði samt vel og mér einnig. Þau eru bæði í háskólanámi á Íslandi. Dóttir mín prófaði að vera á leikskóla, grunnskóla og menntaskóla í Noregi, náði öllum skólastigum þarna. Hún var í norska U18 landsliðinu í körfubolta sem var mjög skemmtilegt. Við erum öll þrjú beggjalandabörn en það er samt alltaf heimalandið sem togar mest í mann. Nú er að njóta þess að vera komin heim. Þegar jólin nálgast þá man maður einnig eftir því hvernig það var að halda jól í Noregi. Jólahald þar er mjög svipað og hér. Þegar ég fór í jólamessu úti þá táraðist ég stundum því það var svo mikill friður og ró. Einhverjir töfrar svifu yfir. Þarna var miklu minna jólastress. Ekki eins langur opnunartími verslana. Jólamatur Norðmanna er aðeins öðruvísi en hjá okkur. Á jólunum borða þeir pinnekjøtt sem er þurrkað og saltað kindakjöt, mér fannst það gott. Svo eru þeir með lutefisk sem er þorskur bleyttur í vatni og lagður í lút, mjög góður fannst mér og svo er algengt að borða ribbesteik líka. Það var gaman að halda jól í Noregi og auðvitað fengum við hangikjöts sendingu að heiman. Í Lillesand er algengt að jólamaturinn á aðfangadagskvöld sé soðinn, glænýr þorskur með smjöri og soðnum kartöflum og risgrøt með berjasósu í eftirrétt. Það var gaman að upplifa það. En almennt finnst mér maturinn samt betri á Íslandi en í Noregi. Íslendingar og Norðmenn eiga samt svo margt sameiginlegt, við erum svo tengd,“ segir Sigga Palla.
Sigga Palla og Sævar.
Ertu alkomin heim?
Sigga Palla segist vera orðin rólegri hér heima. Ástvinir og vinirnir toga í og hestarnir.
„Hérna hef ég einnig hestana mína sem voru í pössun í þessi ár en nú langar mig að njóta þeirra meira. Svo verð ég að viðurkenna þegar þú spyrð svona beint, já ég á kærasta sem heitir Ólafur Sævar Elísson en ég kynntist honum rétt áður en ég flutti út til Noregs. Nú eru það við sem skiptum máli einnig. Hér á hann heima. Svo opnaði ég apótekið sem mér finnst mjög gaman að reka. Mér hefur verið tekið svo vel af fólkinu. Mér þykir líka vænt um landið mitt. Það er svo margt sem drífur mig áfram hér heima. Ég er útivistarmanneskja og vil vera umhverfisvæn og góð fyrirmynd. Ég velti ýmsu fyrir mér. Ef við viljum að börnin okkar varðveiti til dæmis tunguna okkar áfram þá er mjög mikilvægt að þau lesi íslenskar bækur og að við lesum sjálf bækur svo þau sjái okkur kunna að meta bókalestur. Mikilvægi lesturs er mikill og það er nú aldeilis gaman að sjá hversu margar bækur eru gefnar út á hverju ári hér heima fyrir jól. Tungan okkar geymir minningarnar, vonir okkar og drauma. Við þurfum að bera virðingu fyrir hvert öðru og bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum en umfram allt að varðveita tunguna okkar og hjálpa fólki af erlendum uppruna að læra að tala íslensku svo þau falli vel inn í,“ segir Sigga Palla að lokum.
Björn og Freydís, börn Siggu Pöllu á góðum stundum með hestum og í Noregi
Ísland-Noregur í körfubolta.
Sigga Palla með starfsstúlkum í Reykjanesapóteki.