Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Íslendingur með bandarískt vegabréf
Brenton kann vel við sig í flugturninum þar sem mikilvægt er að vera rólegur undir álagi: „Góður flugumferðarstjóri getur séð eitthvað gerast fyrir og brugðist fljótt við án þess að frjósa eða fara á taugum.“ VF/mynd: Eyþór Sæm.
Sunnudagur 25. desember 2016 kl. 05:00

Íslendingur með bandarískt vegabréf

Flugumferðarstjórinn Brenton Birmingham um ferilinn og lífið eftir körfuboltann

Það mætti alveg deila um það hvort örlögin hafi hreinlega ætlað Bandaríkjamanninum Brenton Birmingham að setjast að á Íslandi. Það var fyrir algjöra tilviljun að hann endaði hér þegar hann eltist við æskudrauminn. Í hans tilfelli féllu öll vötn til Njarðvíkur en þar hefur hann endað oftar en einu sinni eftir að hafa leitað á önnur mið. Þar fann hann ástina og átti ákaflega farsælan feril í körfubolta. Nú sér hann um að stjórna flugumferðinni á Keflavíkurflugvelli þar sem hinn yfirvegaði Brenton nýtur sín til fulls.

„Góðan daginn! Er möguleiki fyrir þig að hittast klukkan 13:00,“ segir Brenton og tekur þannig af  allan vafa blaðamanns um hvort hann hafi átt að senda viðtalsbeiðnina á íslensku eða ensku. Brenton, sem fyrst kom til Íslands fyrir 18 árum hefur náð góðum tökum á íslenskunni og talar hana vel. Hann er giftur Njarðvíkingnum Berglindi Sigþórsdóttur og saman eiga þau þrjá drengi sem hann tjáir sig við á ensku, enda vill hann að þeir læri hans móðurmál. Foreldrar Brentons áttu spænsku að móðurmáli og er hann satt að segja frekar súr að þau hafi ekki kennt honum spænsku þegar hann var að alast upp í Bronx hverfi New York borgar. Hann á rætur að rekja til Karíbahafsins. Móðir hans flúði Kúbu þegar Castro komst þar til valda. Faðir hans á svo uppruna sinn að rekja til Jamaíka og Kúbu. Lífið í Bronx var ekki auðvelt á áttunda áratug síðustu aldar þar sem mikið var um gengi og ofbeldi. Brenton segist þó ekki hafa upplifað ofbeldi eða neitt slíkt af eigin raun enda alinn upp til þess að halda sig á mottunni. Hann náði alfarið að sniðganga vandræði og öll vímuefni og var snemma farinn að stunda íþróttir. Brenton var góður íþróttamaður og frambærilegur námsmaður. Hann komst inn í menntaskóla í Brooklyn þar sem hann byrjaði að mæta á körfuboltaæfingar. Hann segir sjálfur að hann hafi verið hrár leikmaður í fyrstu en hafði góðan grunn til að byggja á.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Versti leikur ferilsins fyrir framan stóru skólana

Ekki voru margir af stóru háskólunum sem sýndu Brenton áhuga þrátt fyrir fínan feril í framhaldsskóla. Skólar úr 2. og 3. deild sýndu honum áhuga. Aðeins einn skóli úr 1. deild háskólaboltans vildi fá Brenton í sínar raðir. Það var Brooklyn háskólinn, sem er lítill einkaskóli sem lék utan deildar í þá daga. Brenton þekkti aðstoðarþjálfarann sem vildi ólmur fá hann, en aðalþjáfarinn var ekki sannfærður. Brenton spilaði mikilvægan leik í úrslitakeppni í borginni sem þjálfararnir komu að sjá. Þarna var stóra tækifærið fyrir ungan leikmann. „Við töpuðum leiknum og ég hitti úr einu af 18 skotum mínum í leiknum,“ rifjar Brenton upp og skellihlær. „Þetta er ennþá versti leikurinn á ferli mínum og það er óhætt að segja að þjálfararnir hafi ekki verið sannfærðir.“ Þjálfarar frá öðrum stórum skólum voru á leiknum og ljóst að nafn Brenton var strikað af mörgum listum þetta kvöld. Brenton fékk þó annað tækifæri og komst í Brooklyn skólann á hálfum skólastyrk þar sem hann þótti ekki nægilega góður. Með góðri spilamennsku vann Brenton sér inn fullan styrk og lék með skólanum í tvö ár. Þá fékk hann slæmar fréttir. Skólinn var í fjárhagskröggum og þurfti að leggja niður allar íþróttir. Þá var Brenton á byrjunarreit og þurfti að leita sér af nýjum skóla. Flestir skólarnir í umdæminu voru áhugasamir enda komst Brenton í úrvalslið í fylkinu eftir annað árið sitt í Brooklyn. „Ég gerði munnlegt samkomulag við Davidson skólann í Norður Karolínu en komst ekki inn þar sem einkunnirnar voru ekki nægilega góðar. Það var algjör vendipunktur í lífi mínu og ég var mjög vonsvikinn. Ég var bara að gera það sem þurfti til að skrimta námslega séð en það kom mér í koll á endanum.“ Á síðustu stundu kom Manhattan skólinn til sögunnar þar sem Brenton kláraði háskólaferilinn. Þar var Brenton í frægðarhöllinni og átti glæstan feril og leiddi liðið meðal annars til NCAA-úrslita þar sem liðið tapaði gegn sterku Virgina liði. Brenton varð besti leikmaður liðsins og einn af þeim bestu í New York umdæminu auk þess sem hann bætti úr námsárangrinum og var verðlaunaður á þeim vettvangi. Hann taldi því að hann ætti möguleika á að verða atvinnumaður. Ef ekki NBA deildin þá Evrópa. „Ef þú ferð í lítinn skóla þarftu að gera eitthvað stórkostlegt til þess að vekja athygli á þér. Þeir fá ekki mikla umfjöllun,“ segir Brenton en hann hlaut ekki náð fyrir augum NBA liða eða stóru liðanna í Evrópu. Hann þurfti virkilega að hafa fyrir því að komast í atvinnumennsku.

Skrykkjótt leiðin í atvinnumennsku

Eftir að ljóst varð að Brenton myndi ekki að ná að upplifa drauminn strax eftir útskrift lék hann með liði sem ferðaðist um landið og spilaði æfingaleiki við háskólalið. Hann segir það hafa verið mikið hark. „Við spiluðum 22 leiki á 30 dögum og fórum vítt og breitt um Bandaríkin. Þjálfarinn í því liði kom mér á fyrsta samninginn minn sem atvinnumaður í Finnlandi.“ Þar lék Brenton aðeins hluta af tímabili en fékk ekki áframhaldandi samning. Á besta aldri sagði Brenton því skilið við körfubolta í þrjú ár. Hann þjálfaði þá kvennaliðið við gamla háskólann sinn. „Ég leit svo á að ég væri hættur í körfubolta 22 ára gamall. Ég ætlaði þá að snúa mér að þjálfun og gera starfsframa úr því.“ Ástríðan var ekki beint til staðar í þjálfun en Brenton hafði gaman af því að vera í kringum körfubolta. Þegar Brenton greip í körfubolta þá fór hann jafnan illa með andstæðinga sína. Fólk furðaði sig á því af hverju hann væri ekki að spila.

Fór í áheyrnarprufu hjá Spike Lee og lék vonda gaurinn í bíómynd

Þegar hann var í fríi frá körfubolta daðraði Brenton við kvikmyndaiðnaðinn þar sem hann lék vonda gaurinn í körfuboltamyndinni Game day sem fór beint á dvd. Hann lék líka í auglýsingum sem sýndar voru um öll Bandaríkin og gáfu vel í aðra höndina. Brenton var einn af þeim sem komu til greina í stórmyndina He got game og fór í áheyrnarprufu hjá sjálfum Spike Lee. „Það gekk ekki vel og ég var mjög stressaður. Ég er enginn leikari og hafði enga þannig þjálfun, ég las bara beint upp af blaðinu,“ rifjar Brenton upp og hlær. Brenton var hvattur til þess að leggja auglýsingar fyrir sig en þá var hann þegar farinn að huga að körfuboltanum aftur. (hér má sjá brot úr myndinni góðu).

Eftir þrjú ár í dvala fékk hann boð um að reyna fyrir sér hjá liði í Kýpur. Í lélegu formi skoraði Brenton 30 stig gegn sterku liði í sínum fyrsta leik. „Í lok leiksins komst ég í hraðaupphlaup og lagði boltann ofan í í stað þess að troða. Stjórn liðsins líkaði illa við það. Áhorfendur vildu sjá Bandaríkjamennina troða.“ Stjórnin var á báðum áttum með að semja við Brenton sem var langt frá leikformi. Hann tók ákvörðunina fyrir þá og ákvað að yfirgefa Kýpur. „Ég var svo á Ítalíu á heimleið þegar ég fékk símtal frá umboðsmanninum mínum þar sem mér var boðið að fara til Íslands. „Okei ég er til,“ sagði Brenton án þess að hugsa sig um. Þannig hafnaði Brenton hjá Njarðvíkingum.

Frá Bronx til Njarðlem

„Þetta var smá sjokk í fyrstu, komandi frá New York. Ég á hins vegar auðvelt með að aðlagast og liðsfélagarnir mínir létu mér líða eins og heima hjá mér. Ég þurfti bara að venjast því að lífið gekk aðeins hægar fyrir sig en ég var vanur,“ rifjar Brenton upp um fyrstu mánuðina á Íslandi. „Ég skildi ekki hvernig það var hægt að tala á meðan maður dró andann, en fyrir utan það fannst mér Íslendingar yndislegt fólk,“ segir Brenton í gríni. Þetta var árið 1998 og voru Njarðvíkingar og Keflvíkingar með bestu lið landsins. Njarðvíkingar höfðu landað titlinum árið áður. Brenton sá fyrir sér að að nýta Ísland sem stökkpall í stærri deild og bjóst ekki við því að ílengjast hér. Á fyrsta tímabili Brentons á Íslandi töpuðu Njarðvíkingar svo fyrir erkifjendunum í lokaúrslitum. „Ég var miður mín og vildi koma aftur og vinna titilinn með Njarðvík. Þeir voru hins vegar að setja saman lið ÍRB (sameiginlegt lið Njarðvíkur og Keflavíkur í Evrópukeppni) og ákváðu að velja stóran erlendan leikmann.“

Brenton var því atvinnulaus og ekkert virtist vera að hlaupa á snærið. „Ég fæ svo símtal frá Sævari Garðarssyni þar sem hann segir mér að Grindavík hafi verið að reka Kanann sinn, og hvort ég vilji ekki koma þangað.“ Aftur var hann kominn til Íslands. Einar Einarsson var þjálfari liðsins á þeim tíma. Hann gaf Brenton skotleyfi og fól honum að leiða liðið. Brenton átti sitt besta tímabil á ferlinum með Grindavík það ár og liðið varð bikarmeistari og tapaði í lokaúrslitum gegn KR. Brenton var maður tímabilsins og átti von á því að fá gott boð frá Grindvíkingum. „Þeir gerðu mér hins vegar móðgandi tilboð sem ég hafnaði. Njarðvíkingar sögðu hins vegar að þeir vildu fá mig aftur, að þeir hefðu gert mistök með því að láta mig fara og ég samdi við þá.“ Brenton var hálpartinn ættleiddur í Njarðvík þar sem Þórunn Þorbergsdóttir, gjaldkeri liðsins og Jón þáverandi maður hennar, tóku Brenton að sér. Hann átti sitt herbergi á heimili þeirra og var með lykil. Þar varð hann eins og einn af fjölskyldunni og heldur enn mjög nánu sambandi við Þórunni og fjölskyldu í dag.

Fjórfaldar tvennur og fjöldi titla

Ýmislegt hefur Brenton afrekað á körfuboltaferlinum þrátt fyrir brösuga byrjun. Tvisvar hefur hann náð því sem kallað er fjórföld tvenna, en það er afar sjaldgæft í körfubolta. Í leik með Grindavík gegn Keflavík í úrslitakeppni árið 1999 skoraði hann 17 stig, tók 14 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal 10 boltum. Í lokaúrslitum Njarðvíkur og Tindastóls árið 2001 átti Brenton svo leik þar sem hann skoraði 28 stig, gaf 11 stoðsendingar, tók 10 fráköst og stal 10 boltum. Þrisvar hefur Brenton orðið Íslandsmeistari með Njarðvík (2001,2002 og 2006) og fjórum sinnum bikarmeistari. Fjórum sinnum hefur hann tapað í lokaúrslitum, þrisvar gegn KR og einu sinni gegn Keflavík.

Eilífð vandræði með bakið

Eftir að hafa unnið allt sem var í boði árið 2002 með Njarðvíkingum þá kom loks tækifærið til að leika í stærri deild. Brenton fór þá til Frakklands þar sem hann lék með liði Rueil í B-deildinni. Þá var hann þegar byrjaður að finna verulega til í bakinu og á endanum fór hann í uppskurð vegna brjóskloss, þá þrítugur að aldri. „Það voru sumir dagar þar sem ég féll í gólfið af sársauka og gat kannski ekki gengið í nokkra daga, ég vissi ekkert hvað var í gangi.“ Upp frá því háði bakið honum mikið og hamlaði því að hann næði að sýna sitt allra besta. „Bakið setti algjörlega strik í reikninginn á mínum ferli,“ viðurkennir Brenton en hann segist ekki sjá eftir neinu. Svona gerast kaupin á eyrinni bara.

Nógu góður fyrir NBA deildina

Ýmsir örlagavaldar hafa orðið til þess að Brenton endaði á Íslandi en það er eitthvað sem hann óraði ekki fyrir þegar hann var ungur maður í Stóra eplinu. Hann er á þeirri skoðun að til þess að ná langt í körfubolta þá dugi hæfileikarnir einir saman ekki til þess að koma sér í deild þeirra bestu eða stóru háskólana þar sem sviðið er stærst. „Þú þarft að vera á réttum stað á réttum tíma og heppni spilar þarna inn í líka.“

„Ég held að Brenton hefði vel getað spilað í NBA deildinni eða í sterku liði í meistaradeild Evrópu. Hann er stór bakvörður sem er frábær varnarmaður, getur skotið og hefur boltatæknina,“ segir Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson, fyrrum samherji og vinur Brenton til fjölda ára. „Ég hef heyrt þessu fleygt fram. Ég trúi í hjarta mínu að ég hefði getað spilað í stórri deild í Evrópu. Bakið eyðilagði það eiginlega fyrir mér þegar ég var kominn með annan fótinn þangað í Frakklandi. Þegar allt kemur til alls þá þýðir lítið að horfa til baka, „it is what it is,“ segir Brenton á móðurmálinu.

Brenton er annálað ljúfmenni utan vallar og ótrúlega vel liðinn hvar sem hann drepur niður fæti. „Hann verður þó grimmur inni á vellinum og breytist talsvert mikið. Hann er einn mesti sigurvegari sem hef spilað með,“ bætir Logi við um félaga sinn.

Eftir atvinnumennsku í Frakklandi stoppaði Brenton stutt við í London en var sagt upp þar vegna bakmeiðslanna. Hann kom því heim til Njarðvíkur aftur og það tók hann í raun tvö ár að ná sér af meiðslunum sem þó há honum enn þann dag í dag. „Ég hefði líklega verið eins og Darrell Lewis að spila eftir fertugt ef það hefði ekki verið fyrir bakið,“ segir Brenton sem þó spilaði til 38 ára aldurs. „Ég vil geta labbað þegar ég verð sextugur og því er ég opinberlega hættur,“ segir hann kíminn.

Lífið eftir körfuboltann

Þegar halla fór á síðari hluta ferils Brenton í körfuboltanum fór hann að hugsa um hvað tæki við. Hann ákvað að opna húsgagnaverslun við Hafnargötu í Reykjanesbæ árið 2006 og rak hana í tvö ár. Brenton og Berglind fóru að vera saman þegar Brenton var að fara að spila í Frakklandi en þar bjuggu þau saman. Þau eignuðust son saman 2004 en fyrir átti hún einn son. „Það var gaman í upphafi að reka búðina. Svo tekur raunveruleikinn við. Til þess að fyrirtækið virki þurftum við að njóta ákveðinnar velgengni. Svo kom kreppan og við þurftum að ákveða hvort við ættum að segja skilið við búðina,“ segir Brenton um húsgagnaævintýrið.

Það stóð aldrei til að verða eftir á Íslandi þegar körfuboltanum lauk. „Berglind er ástæðan fyrir því að ég varð eftir á Íslandi. Eftir Frakkland þá varð Ísland heimahöfnin fyrir mér þar sem hún var hér. Það var ekki erfið ákvörðun að setjast að á Íslandi. Ef þú elskar einhvern þá skiptir staðsetningin engu máli. Ég sakna auðvitað fjölskyldu minnar í Bandaríkjunum mjög mikið en er að reyna að lifa mínu eigin lífi.“

Fyrir tilviljun fékk Brenton spurnir af námi flugumferðastjóra. Það er starf þar sem enska er fyrirferðamikil og mikilvægt er að vera yfirvegaður undir álagi. „Ég elska þessa vinnu og hlakka til þess að mæta á hverja vakt,“ segir Brenton sem hafði alltaf áhuga á flugi en var ekki áhugasamur um að vera flugmaður. „Ég er ekki flughræddur en kýs frekar að vera á jörðu niðri.“ Brenton skráði sig í námið hjá Keili árið 2009 og stóð sig mjög vel. Hann var ráðinn til Isavia í kjölfarið og kláraði réttindin ári síðar.

„Margir hafa ákveðnar hugmyndir um starfið. Einn spurði mig til dæmis um daginn hvort við værum byrjaðir að starfa innandyra, hann hélt að við værum gaurarnir með ljósin sem leiðbeina flugvélunum við rampinn,“ segir hann og hlær. „Það eru mismunandi tegundir af flugumferðarstjórum. Þeir sem eru í turninum, en ég fæst við það núna. Svo eru það þeir sem stýra flugumferð á flugvöllum á Íslandi og í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem er 5,4 milljónir ferkílómetrar að stærð og eitt það stærsta í heiminum. Svo eru aðrir sem stjórna aðflugi og ratsjánum. Það er svo ótalmargt í þessu sem fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir. Við verðum að vera með það á hreinu hvað fer fram á öllum flugbrautum þar sem umferð bíla og flugvéla er talsverð, svo er oft mikið um framkvæmdir á flugbrautunum og við fylgjumst vel með því.“

„Þessu starfi fylgir ákveðin streita og þú þarft að vera mjög einbeittur. Við erum auðvitað ekki eins og Heathrow í London og umferðin er ekki mikil miðað við þessa stóru flugvelli. Eins undarlega og það hljómar þá er það stundum þannig að okkar umferð er erfiðari en á þessum stóru völlum. Hér eru námsvélar og oft hervélar í bland við almenna umferð.“

„Við verðum að vera tilbúin að kveikja á okkur og takast á við verkefni á örskotsstundu. Það er ekki hægt að hita upp og teygja í þessum geira og hlutirnir gerast hratt.“ Þannig getur ýmislegt komið upp á og mistök geta haft alvarlegar afleiðingar. „Það gerist auðvitað ýmislegt þar sem mannlegi þátturinn er stór í starfinu. Góður flugumferðarstjóri getur séð eitthvað gerast fyrir og brugðist fljótt við án þess að frjósa eða fara á taugum.“ Brenton segir að liðsvinnan sé mikil eins og í körfuboltanum. Allir hafi sömu markmið og mikil áhersla er á samskipti. Brenton sér fyrir sér að starfa á þessum vettvangi lengi enda mjög hamingjusamur í starfi.

Fjórir strákar og fjörugt heimili

Brenton er mikill fjölskyldumaður. Þau Berglind eiga saman þrjá stráka og Berglind átti soninn Rúnar fyrir sem Brenton hefur verið uppeldisfaðir. „Ég elska fjölskyldulífið og það er fullkomið að ala upp börn á Íslandi.“ Strákarnir eru í körfubolta og tekur Brenton þar mikinn þátt. Hann er eiginlega „all in“ þar eins og maður segir.  Mætir á öll mót og ráðleggur stákunum. „Ég segi þeim að þeir þurfi ekki að spila körfubolta út af mér. En ef þeir vilja spila körfubolta þá finnst mér að þeir verði að leggja 120% á sig og þá er ég til í að hjálpa.“

Stoltur Íslendingur sem öskrar yfir fótbolta

Brenton er eins og áður segir vel liðinn í samfélaginu en hann hefur þó fundið fyrir því að vera öðruvísi á stundum. „Að vera svartur maður á Íslandi, þá líður manni stundum eins og utanaðkomandi. Vegna þeirra sem eru mér nærri, fjölskyldu og vina sem mér þykir vænt um, þá gerist það mjög sjaldan.“

Brenton var eins og allir Íslendingar með fótboltaæði í sumar þegar EM stóð yfir. Brenton sjálfur lék á sínum tíma 19 landsleiki fyrir Íslands hönd. „Þegar við spiluðum við England, hver var ekki hoppandi og öskrandi af gleði? Ég bý yfir miklu íslensku stolti. Ég hef verið hér í 18 ár, næstum hálfa ævina, auðvitað er ég stoltur Íslendingur. Nú til dags skilgreini ég mig sem Íslending með bandarískt vegabréf,“ segir hinn geðþekki Brenton.

Heilt byrjunarlið: Brenton ásamt sonum sínum. frá vinstri: Elstur er Rúnar Ingi, svo er það Róbert Sean, næstur er Patrik Joe og svo Sigþór litli.


Góður í Grindavík: „Ég er mikill Njarðvíkingur en ber líka tilfinningar til Grindavíkur. Mér var nokkurn veginn ýtt þangað á sínum tíma. Ég hefði líklega spilað allan minn feril hjá Njarðvík á Íslandi ef þetta hefði ekki farið svona. Þetta snýst líka um viðskipti og tryggðin nær aðeins visst langt á báða bóga.“

Spilaði 19 landsleiki: „Jón Arnór er erfiðasti andstæðingurinn. Hann er besti leikmaður sem Ísland hefur átt. Hann er líka tíu árum yngri en ég og því var stundum erfitt að líta á hann sem andstæðing á sama stigi.“

Frægðarhöllin: Brenton átti frábæran feril í Manhattan skólanum. Brenton prófaði einu sinni að drekka í háskóla fyrir forvitnissakir. „Það var bara tilraun. Ég vissi strax að það yrði í eina skiptið.“

Sú eina rétta: „Berglind er ástæðan fyrir því að ég varð eftir á Íslandi. Eftir Frakkland þá varð Ísland heimahöfnin fyrir mér þar sem hún var hér.“


Brenton og Jes Hansen náðu vel saman og Brenton segir hann einn sinn besta samherja.