Íslandsmet í sjóstöng í Grindavík
,,Þetta var einstakt mót því hér veiddust stærstu ufsar og löngur á sjóstöng hér á landi frá upphafi og líklega þorskur líka en sett voru þrjú Íslandsmet. Ég setti myndir inn á facebook síðuna mína og sjóstangveiðimenn um allan heim voru yfir sig hrifnir og sjá þetta hér við Grindavík í hillingum," sagði Skarphéðinn Ásbjörnsson sjóstangveiðimaður og Íslandsmeistari en Íslandsmeistaramót EFSA (Evrópusamband sjóstangveiðimanna) fór fram utan við Grindavík um helgina.
Keppt var í léttlínu og bátakeppni og stóðu Skarphéðinn Ásbjörnsson og Sigríður Rögnvaldsdóttir uppi sem Íslandsmeistarar í bátakeppni.
Keppendur voru tíu talsins en róið var á tveimur bátum, Grindjána og Ívari. Skipstjórar voru Jón Gauti Dagbjartsson og Birgir Már Guðfinnsson. Fyrri daginn var farið út í röst en seinni daginn var veitt skammt utan við Grindavík.
Ufsinn sem veiddist var 15,5 kg og 113 sm og er sá stærsti sem veiðst hefur á sjóstöng hérlendis.
Langan var hvorki meira né minna en 30 kg og var 165,5 sm á lengd sem jafnframt er sú stærsta sem veiðst hefur á stöng hérlendis.
Þorskurinn vigtaði 21,5 kg og var 138 sm og er sá stærsti sem veiðst hefur á félagsmóti EFSA og á sjóstangveiðimótum hér á landi. Sögusagnir eru um stærri þorska á stöng en að sögn Skarphéðins eru þær ekki staðfestar.
Skarphéðinn segir að mótið hafi tekist frábærlega vel. Að komast í svona veiði sé algjörlega einstakt fyrirbrigði og því ýmis tækifæri hér varðandi sjóstöng í framtíðinni.
Efsta mynd: Aflaklær við bryggju. Standandi er Helgi Bergsson. Þá kemur Arnþór Sigurðsson með lönguna sína, þá Birgir Már Guðfinnsson skipstjóri og í fangi hans er Ólafur Hauksson með met ufsann sinn, þá kemur Ólafur Jón Guðmundsson með met þorskinn sinn og að síðustu Ólafur Harðarsson m.a. með ufsa sem var 15,5 kg.