Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Íslandsmet í sjóstöng í Grindavík
Miðvikudagur 31. ágúst 2011 kl. 09:36

Íslandsmet í sjóstöng í Grindavík

,,Þetta var einstakt mót því hér veiddust stærstu ufsar og löngur á sjóstöng hér á landi frá upphafi og líklega þorskur líka en sett voru þrjú Íslandsmet. Ég setti myndir inn á facebook síðuna mína og sjóstangveiðimenn um allan heim voru yfir sig hrifnir og sjá þetta hér við Grindavík í hillingum," sagði Skarphéðinn Ásbjörnsson sjóstangveiðimaður og Íslandsmeistari en Íslandsmeistaramót EFSA (Evrópusamband sjóstangveiðimanna) fór fram utan við Grindavík um helgina.

Keppt var í léttlínu og bátakeppni og stóðu Skarphéðinn Ásbjörnsson og Sigríður Rögnvaldsdóttir uppi sem Íslandsmeistarar í bátakeppni.

Keppendur voru tíu talsins en róið var á tveimur bátum, Grindjána og Ívari. Skipstjórar voru Jón Gauti Dagbjartsson og Birgir Már Guðfinnsson. Fyrri daginn var farið út í röst en seinni daginn var veitt skammt utan við Grindavík.

Ufsinn sem veiddist var 15,5 kg og 113 sm og er sá stærsti sem veiðst hefur á sjóstöng hérlendis.

Langan var hvorki meira né minna en 30 kg og var 165,5 sm á lengd sem jafnframt er sú stærsta sem veiðst hefur á stöng hérlendis.

Þorskurinn vigtaði 21,5 kg og var 138 sm og er sá stærsti sem veiðst hefur á félagsmóti EFSA og á sjóstangveiðimótum hér á landi. Sögusagnir eru um stærri þorska á stöng en að sögn Skarphéðins eru þær ekki staðfestar.

Skarphéðinn segir að mótið hafi tekist frábærlega vel. Að komast í svona veiði sé algjörlega einstakt fyrirbrigði og því ýmis tækifæri hér varðandi sjóstöng í framtíðinni.
Efsta mynd: Aflaklær við bryggju. Standandi er Helgi Bergsson. Þá kemur Arnþór Sigurðsson með lönguna sína, þá Birgir Már Guðfinnsson skipstjóri og í fangi hans er Ólafur Hauksson með met ufsann sinn, þá kemur Ólafur Jón Guðmundsson með met þorskinn sinn og að síðustu Ólafur Harðarsson m.a. með ufsa sem var 15,5 kg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024