Íslandsmeistari í rafvirkjun
Sigurður Hólmar Guðmundsson, rafvirkjunarnemi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, gerði sér lítið fyrir á Íslandsmóti iðnnema sem haldið var í Kringlunni fyrir skemmstu, og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í rafvirkjun. Fleiri nemar í FS tóku þátt í mótinu, annar til í rafvirkjun, tveir í hársnyrtiiðn og tveir á húsasmíðabraut.
Sigurður, sem er á nítjánda ári, sagði í viðtali við Víkurfréttir að verkefnið hafi gengið mjög vel. „Ég átti að setja upp og tengja litla greinatöflu með ljósastýringu. Svo setti ég tengslarennu með margvíslegum tenglum við hana og ljós og þess háttar.”
Keppendur höfðu fimm tíma til úrlausnar þá átti að vera búið að kveikja á öllu, loka og ganga snyrtilega frá. En hvað var það öðru fremur sem skóp sigurinn? „Ég held að það hafi verið nákvæmni í mælingum, snyrtiskapur í kringum mig og vönduð vinnubrögð.” Hann fékk margvísleg verðlaun fyrir árangur sinn, m.a.a vandaðan rafmagnsmæli, 40 stundir í námskeiðum við Rafiðnaskóla Íslands og ýmislegt smálegt.
Greinin virðist liggja vel fyrir Sigurði enda rekur faðir hans fyrirtækið Rafþjónusta Guðmundar í Vogum og fékk hann því fljótlega áhuga á fræðunum. Hann tók einnig þátt í þessari sömu keppni í fyrra og gekk nokkuð vel án þess þó að vinna til verðlauna. Sigurður stefnir að því að ljúka námi um næstu áramót og fara í sveinsprófið strax upp úr því.