Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ísland í uppáhaldi
Sunnudagur 8. maí 2005 kl. 16:56

Ísland í uppáhaldi

Þeir voru þreyttir en sáttir, þáttastjórnendur og tökumenn TopGear, þegar þeir gengu inn í matsölustað Bláa Lónsins. Dagurinn hafði dregist á langinn og voru sumir orðnir ansi langeygðir í að klára tökur og komast út á lífið eða bara beint upp á hótel að sofa.

Blaðamaður Víkurfrétta fékk að fylgjast með síðustu tökum kvöldsins. Þar voru þáttastjórnendurnir Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May að ræða um gang mála og hvaða bíll hefði staðið sig best. Þeir félagar urðu ekki sammála um neitt og valdi hver sinn bílinn. Á endanum var ákveðið að salta málið og gera út um þetta í Englandi.

Þáttur þeirra félaga er algjörlega óháður þeim sem framleiða bílana og fæst allt fjármagn frá BBC 2. Þetta gerir þættina einstaka því þeir eru ekki bundnir neinum. Það er því oftar en ekki talað tæpu tungu laust um bílana og ekkert verið að spara lýsingarorðin. Úr verður nokkurskonar grínþáttur sem allir hafa gaman af, hvort sem þeir hafa áhuga á bílum eða ekki.

Það er einmitt útgangspunktur þáttanna að sögn Jeremy „Við pössum okkur að vera ekki að flækja málin. Ég held best að segja að við segjum aldrei frá neinum staðreyndum heldur grínumst með allt og rífum alla bíla í okkur.“

Ekki er vitað hvort þættirnir verða teknir til sýninga hér á landi en hægt verður að sjá þá á BBC 2 og á BBC Prime.

Jeremy Clarkson var ekki að koma til Íslands í fyrsta sinn. „Ég er alltaf hérna, ég nenni ekki að ferðast mikið til að taka upp þessa þætti fyrir BBC. Ég hef farið til 82 landa og er kominn með nóg af ferðalögum. Ísland er eins og að fara norður til Skotlands, í raun er þetta bara aðeins norðar en Skotland. Svo er frábært að gera bílaþætti hér, allir eru tilbúnir til að hjálpa til og ef það þarf að finna varahluti eða annað er alltaf einhver sem þekkir einhvern sem getur bjargað málunum.“

Ekki skemmir fyrir að Bretar eru mjög áhugasamir um Ísland eða eins og Jeremy orðaði það: „Bretar hafa óseðjandi áhuga á Íslandi og öllu sem því viðkemur, það þekkja allir helstu staðina hér og áhorfið á þættina sem ég hef stjórnað hefur alltaf rokið upp þegar við tökum upp hér. Þannig ég get ekki tapað á að koma hingað!“

Þegar Jeremy var spurður að hinni alræmdu túristaspurningu um hvernig honum líkaði Ísland, sagði hann: „Ísland er uppáhaldslandið minn. Ég held í raun meira upp á það en England. Samt hef ég ekki séð nema hluta þess. Næst ætla ég hingað í frí og ferðast hringinn.“

Svo sagði hann með bros á vör; „Það góða við að ferðast hér er að ekki er hægt að villast, þjóðvegur 1 er það eina sem maður þarf að muna og svo á endanum finn ég Reykjavík aftur!“

[email protected]

VF-mynd/Margrét. Jeremy Clarkson og tökuliðið

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024