Ísland er svo fallegt land og þú sérð alltaf eitthvað nýtt
Soffía G. Ólafsdóttir segir lesendum Víkurfrétta frá sumarfríinu innlands árið 2020 en hún og Ólafur Björgvinsson fóru hringinn í kringum Ísland á húsbíl í sumar.
– Hvert var ferðinn heitið í sumarfríinu í ár?
Ákveðið var að fara austur á land í sumarfríinu og farið var suðurleiðina austur og svo norðurleiðina til baka.
– Hvaða ferðamáta notaðir þú?
Ferðast var á húsbíl en ég hef átt húsbíl frá árinu 1999 og er þetta þriðji bílinn sem ég á.
– Var ferðalagið um landið skipulagt fyrirfram eða var fríið látið ráðast af „veðri og vindum“?
Það var búið að fylgjast með spánni svoldið áður en átti að leggja í hann og leist okkur ágætlega á að fara austur á bóginn og langaði mig til að fara til Norðfjarðar en þar liggja rætur mínar í móðurætt.
En ekkert skipulagt bara keyrt af stað og svo kemur þetta bara af sjálfu sér, hvar maður stoppar, hvað er skoðað og hversu lengi dvalið er á sama stað, veðrið hefur dálítið mikið um það að segja. Það er nú alltaf skemmtilegra að ferðast um landið ef maður er svo heppinn að fá gott veður.
Byrjað var að fara um Suðurlandið því þar eru svo margar fallegar perlur.
Við byrjuðum fríið á Hellu og fórum svo á fallegu staðina sem eru á leiðinni til Víkur í Mýrdal og við nutum þess að labba um fallegu perlurnar okkar á þessari leið gistum þar eina nótt og héldum svo til Kirkjubæjarklausturs þar sem við stoppuðum í tvo daga.
Heimsóttum Höfn í Hornarfirði, keyrðum þar um plássið og skoðuðum m.a. Steinagarðinn sem er kynningarreitur fyrir jarðfræði svæðisins og þar eru kynntar nokkrar bergtegundir Suðausturlands með hressilega stórum grjóthnullungum og grettistökum.
Þessi steingarður er við náttúrustíginn, sem er göngustígur fyrir heimamenn og liggur frá Óslandshæð og inn að golfvellinum á Höfn, þessi gönguleið er rómuð fyrir fallegt útsýni yfir fjörðinn til Vatnajökuls.
– Hvaða viðkomustaður var áhugaverðastur?
Það eru margir staðir á Íslandi sem eru áhugaverðir.
Ég nefni hér nokkra en af nógu er að taka úr þessari ferð okkar í sumar.
Er við fórum frá Höfn í Hornafirði austur á bóginn þá lá leið okkar niður að að Stokksnesi (Vestrahorn), afleggjarinn er við þjóðveginn rétt áður en þú ferð í göngin í gegnum Almannaskarð. Herinn var hér á árum áður með bækistöðvar og voru tvær radarkúlur og á tveimur stöðum stórir skermar, nú er búið að rífa skermana í burtu og aðra kúluna.
Fallegar gönguleiðir eru í nágrenninu og hægt er að fá bækling á kaffihúsinu til að kynna sér þær. Við Stokksnes er víkingaþorp sem byggt var sem leikmynd vegna kvikmyndar sem Baltasar Kormákur hugðist taka þar en hætt hefur verið við þau áform. Víkingaþorpið stendur enn þó það sé farið að láta á sjá. Gaman að koma þarna og núna er rekin þarna ferðaþjónusta, tjaldstæði, hægt að fá veitingar og einnig leigja þau út herbergi, sem eru ljómandi hugguleg. Svæðið er í einkaeign. Hingað niðreftir hafði ég aldrei komið.
Djúpivogur er fallegt lifandi sjávarpláss og þar er líka menningunni gert hátt undir höfði. Ýmiss söfn eru þar og margar fallegar, gamlar byggingar, minjasafn, kaffi og veitingahús. Skólahald hefur verið þar síðan 1888. Þekktasta listaverkið er Eggin í Gleðivík í Djúpavogi. Þetta listaverk var afhjúpað 2009 og er eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson. Listaverkið samanstendur af 34 eggjum. Eitt egg er áberandi stærst en það er egg lómsins. Mjög fallegt listaverk og alltaf jafn gaman að líta á eggin.
Þegar við vorum á leiðinni norður datt okkur í hug að fara út af þjóðveginum og fara niður í Sænautarsel, sem var byggt á Jökuldalsheiði 1843 en þarna var búið síðast 1943, ferðafélagi minn Ólafur hafði aldrei komið þarna, svo það var kominn tími til. Við fengum okkur súkkulaði og lummur í baðstofunni í gamla húsinu, bragðaðist mjög vel og skoðuðum svo húsakynnin.
Svo datt okkur í hug að halda áfram að hverfa aftur í tímann og keyrðum gamla þjóðveginn um Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði um 60 km. á grófum malarvegi og komum að Möðrudal, eða eins og þetta er kallað í dag, Fjalladýrð, fengum okkur þar kaffi og kleinur, eftir hristinginn á malarveginum. Í Möðrudal er orðin heilmikil ferðaþjónusta.
Stefán Jónsson, listmálari og lífskúnster, var frá Möðrudal en hann málaði fjallið Herðubreið, drottningu íslenskra fjalla, mikið, svo og hestamyndir. Fjallið Herðubreið er formfagurt og tignarlegt í Ódáðahrauninu og sést vel og víða. Faðir Stefáns, Jón Stefánsson, byggði kirkjuna á Möðruvöllum á sínum tíma, hann reisti hana til minningar um konu sína. Já, sagan er allsstaðar.
– Eitthvað sem kom skemmtilega á óvart?
Göngin frá Eskifirði til Norðfjarðar eru alveg snilld og nú er ekkert mál að skreppa yfir – og alltaf gaman að koma á heimaslóðir móður minnar.
Uppbygging sem hefur átt sér stað víða um land heillar mann, eins og t.d. Undur sjóbaðanna á Húsavík, GeoSea er baðstaður á heimsmælikvarða sem vakið hefur eftirtekt fyrir gæði og fallega hönnun. Vatnið í sjóböðunum er hrein blanda af tæru bergvatni og jarðsjó. Útsýnið yfir Skjálfandaflóa er stórkostlegt. Norðurheimskautsbaugurinn nemur við sjóndeildarhringinn í fjarska og stundum má jafnvel sjá hvali koma upp úr glitrandi sjónum. Nutum þess að liggja i jarðsjónum.
Seyðisfjörður hefur yfir sér skemmtilegan og ævintýralegann blæ frá liðnum árum og við skruppum þangað því það er langt síðan við Óli höfum heimsótt fjörðinn. Það er gaman að sjá hvað listin hefur prýtt bæinn og gefið honum lit með því að mála gömlu húsin í skemmtilegum litum. Ég reyndi að finna verbúðina sem ég dvaldi í (held að ég hafi fundið hana), þegar ég fór að salta síld í kringum 1966 og fór ég bara til að geta hitt eiginmanninn sem var á síldarbát, aukaatriði að salta eitthvað að ráði.
Uppbyggingin á Siglufirði er skemmtileg og verið er að gera upp gömul hús þar, alltaf líf og fjör þar, tónleikar á Rauðku á hverju kvöldi með flottum tónlistamönnum og það var svo mikið um fólk þegar við vorum, við ætluðum út að borða á öðru hvoru Hótelanna en því miður allt upppantað fram í næstu viku, var okkur tjáð, reynum síðar.
Heimsóttum Dimmuborgir á Mývatni og þar er búið að útbúa góða göngustíga en þangað höfðum við ekki komið í mörg ár. Í hrauninu sér maður marga kynjakvisti og gáfum okkur góðan tíma í að rölta þar.
– Fannst þér margir vera á ferli á þem slóðum þar sem þú varst á ferðinni?
Fyrir svona þremur, fjórum árum fórum við um Suðurlandið, t.d. að Seljalandsfossi, Dyrhólaey og Reynisfjörum og Skógafossi, og það var svo mikið af bílum og margt fólk að maður hafði engan áhuga á að skoða sig um.
Núna fórum við á þessar perlur okkar og nutum þess að skoða okkur um en það var fólk á þessum stöðum, misjafnlega margt, bæði útlendingar og Íslendingar, þægilegur fjöldi fannst okkur.
Okkur fannst t.d. á Egilsstöðum vera mikið um útlendinga en við vorum einmitt þar á ferðinni þegar Norræna var að koma frá Danmörku og með henni komu þó nokkuð margir á húsbílum og við urðum vör við marga útlendinga á erlendum húsbílum á vegum landsins.
– Hver er kosturinn að ferðast innanlands?
Maður veit að hverju maður gengur, þekkir sig mjög vel víða og er engum háður. Svo er bara Ísland svo fallegt land og þú sérð alltaf eitthvað nýtt þó þú sért búin að fara margsinnis um landið þitt. Hér eigum við heima.
– Hefur þú ferðast mikið innanlands?
Já, ég hef ferðast mjög mikið um landið mitt og ferðast alltaf innanlands á sumrin. Fyrst þegar maður var að ferðast ungur og með börnin, þá var verið í tjaldi en það var nú ekki farið nema svona um nokkrar helgar og í mesta lagi í viku. Svo eignaðist maður fellihýsi 1990 og svo húsbíl 1999. Stundum hefur maður verið í ferðalagi svona þrjár, fjórar vikur í einu og lagst svo aftur í ferðalög og einhver árin hefur maður náð um 70–80 dögum yfir sumarið í bílnum.
– Áttu þér uppáhaldsstað sem þú sækir oft eða er eitthvað sem þig langar virkilega að skoða?
Snæfellsnesið heillar alltaf, alltaf gaman að koma til Vestmannaeyja, sérstakur sjarmi yfir eyjunum.
Akureyri er alltaf gaman að heimsækja og við vorum svo heppin að vera þar i nokkra daga í júlí og má segja að það hafi verid svona „míní“ ættarmót, einn þriðji af mínu fólki, vorum saman á tjaldstæðinu á Hömrum.
Ég hef aldrei komið í Þakgil sem er skammt frá Vík í Mýrdal, erfitt að fara á húsbílnum þangað en við stefnum að fara þangað á næstunni.
Eins langar mig að fara i Berserkjahraun sem er úfið apalhraun með gíghólum og söguminjum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.
Eins og ég nefndi áðan þá eru svo margir fallegir staðir á Íslandi sem vert er að skoða aftur og aftur.
Það þarf ekki alltaf að fara langt, Garðskagi er reyndar uppáhaldsstaðurinn minn, enda átti ég heima þar í mörg ár og ég skrepp oft út á „Skaga“.
– Á eitthvað að ferðast meira núna í haust?
Já, það er nú meiningin að fara í ferð á næstunni en veðrið mun nú svolítið ráða því hvert verður haldið. Haustin eru oft mjög skemmtilegur tími til að vera í útilegu, þegar farið er að rökkva á kvöldin og maður setur upp ljós í allskonar litum. Vonandi fáum við gott veður núna í haust.
– Hvernig er Covid-19-ástandið að leggjast í þig um þessar mundir og hverjar finnst þér horfurnar vera inn í haustið og veturinn?
Covid-19 er alvarlegt ástand og maður er bara svoldið smeikur um að fá þessa veiru og þetta var mikið áfall þegar smitum fjölgaði svona mikið á síðustu vikum. Ég er mjög meðvituð um þetta ástand og passa mig að spritta og þvo hendur. Mér finnst mjög erfitt að geta ekki gert plön og verst væri ef maður getur ekki haft samneyti við sína nánustu ættingja – en við verðum að lifa með veirunni og passa okkur og ég er mjög þakklát að hafa svona gott þríeyki eins og þau Þórólf, Ölmu og Víði sem tala í okkur kjark og eru heiðarleg og fagmannsleg í því sem þau gera. Stöndum saman, verum góð við hvert annað, þá komumst við í gegnum þennan skafl.