Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Ísland er einfaldlega best“
Laugardagur 17. febrúar 2018 kl. 06:00

„Ísland er einfaldlega best“

- Unnur Sig Gunnarsdóttir býr í Svíþjóð

Unnur Sig Gunnarsdóttir ólst upp í Keflavík en býr í Svíþjóð ásamt kærasta sínum, börnum og hundinum Dimmu. Líf hennar tók töluverðum stakkaskiptum árið 2014 en í dag er hún í nýju starfi, flutt á nýjan stað og nýtur lífsins til hins ítrasta. Unnur mælir með því að fólk búi erlendis, geri eitthvað nýtt og stökkvi í djúpu laugina en sjálf hefur hún búið í Svíþjóð frá 2011.

Sænsk samstarfskona kemur til Íslands til að ná sér í orku
Í dag starfar Unnur við Linneuniversitetet í Kalmar sem liggur við austurströnd Svíþjóðar og er u.þ.b. 400 km suður af Stokkhólmi. „Starfsheiti mitt er viðskiptahagfræðingur á heilsu- og heilbrigðisdeild sem tilheyrir/fellur undir heilbrigðis- og lífvísindasvið háskólans. Mitt starf felst í því að sjá um áætlanir, spár, uppgjör og ýmsar greiningar innan sviðsins, allt utanumhald á verkefnum bæði innanlands og erlendis sem snúa að rannsóknum og öðru tengt heilsu. Í háskólanum starfar sænsk kona sem er hjúkrunarfræðingur en hún bjó á Íslandi eða nánar á Hólum í Hjaltadal um skeið, maðurinn hennar starfaði við skólann og talar hún góða íslensku. Unnur segir að þau hjónin heimsæki Ísland á hverju hausti til að ná sér í orku.Unnur skilur hana mjög vel því hún gerir slíkt hið sama.​

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Áður starfaði ég hjá stóru alþjóðlegu fyrirtæki, Andritz, sem „Business Controller“ en þar starfa um 25.000 manns um allan heim og var fyrirtækið skráð á markað sem gerir kröfur á nákvæmnisvinnu ásamt því að skila af sér margskonar greiningarskýrslum og það oft með skömmum fyrirvara.“

Unnur og Johan, við Taj Mahal.

Sagði upp draumastarfinu
Seinnipart síðasta árs flutti Unnur ásamt börnunum sínum til Kalmar, sem var kosinn sumarleyfisstaður Svíþjóðar á nýliðnu ári, frá Växjö en kærastinn hennar er frá Kalmar og Unni fannst of mikill tími fara í keyrslu til og frá vinnu. Það eru 107 kílómetrar á milli bæjanna og hana langaði til að eyða tímanum í eitthvað annað en að sitja undir stýri. Unnur ákvað að segja upp draumastarfinu og fékk vinnu í háskólanum sem hún er afar spennt fyrir. „Það sem mér finnst sérstaklega spennandi við nýja starfið er að maður sér eitthvað gott og þarft fyrir mannkynið fæðast með rannsóknarvinnu sem leiðir af sér betri umönnun og forvarnir fyrir okkur og framtíðina.“

Var liðsstjóri íslenska landsliðsins í knattspyrnu á EM
Unnur hefur búið í Svíþjóð frá árinu 2011 þegar hún flutti þangað með fjölskyldu sinni og hóf nám við sama háskóla og hún vinnur við í dag. „Ég tók masters-gráðu í „Business Process and Supply Chain Management” eða stjórnun viðskiptaferla og virðiskeðja og ennfremur í „International Business Strategy in Emerging Country Markets“ eða stefnumótun í alþjóðaviðskiptum á vaxandi mörkuðum og lauk námi vorið 2013. Strax eftir útskrift fékk ég draumstarfið hjá Howden Axial Fans sem „Business Controller.“
​Haustið 2016 lokaði fyrirtækið starfstöð sinni í Svíþjóð en þá bauðst mér vinna i sama húsi, á hæðinni fyrir ofan, sem ennfremur var alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki og enn við draumastarfið.“

Útskriftardagur Thelmu Maríu.

Ásamt því að vera í námi og skóla hefur Unnur sinnt sjálfboðastarfi innan íþróttahreyfingarinnar bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Sænska knattspyrnusambandið réð hana sem sjálfboðaliða fyrir EM kvenna árið 2013 sem fram fór í Svíþjóð og sá Unnur um íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu. „Sá tími var einn af þeim eftirminnilegustu sem fararstjóri/liðsstjóri á mínum ferli, svo mikil fagmennska, samheldni og vinnusemi​. Ég hef starfað sem verkefnastjóri hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands og sá þá um landslið okkar í frjálsum íþróttum, það var yndislegur tími með yndislegu fólki. Ég get ekki alveg sagt skilið við sportið því ég sit ennþá í íþrótta- og afreksnefnd hjá Frjálsíþróttasambandinu. Ég hef einnig starfað sem sjálfboðaliði við ýmis stórmót á vegum sænska sambandsins. Mér finnst alveg einstaklega gaman að vera til staðar fyrir íþróttamenn sem hafa skýr markmið og ætla sér alla leið, því það skiptir öllu máli að umgjörðin sé sterk og fagleg og
​að maður sé tilbúin að græja allt 100% fyrir íþróttamanninn áður en flautað er til leiks, vera til staðar 24/7. Íþróttamenn hafa margir hverjir ákveðna rútínu á sínum keppnisdegi og jafnvel daginn fyrir keppnisdag, t.d. sérstaka tegund af sokkum, sérstakt fæði og ef einhverja hluta vegna þessir hlutir eru ekki til staðar þá fórnar maður sér og finnur þessa hluti með einum eða öðrum hætti.“

Fyllir ferðatöskuna af íslensku góðgæti
Ákveðin stakkaskipti urðu í lífi Unnar árið 2014 en þá skildu leiðir hennar og eiginmanns hennar, hann flutti heim til Íslands en börnin og hundurinn Dimma urðu eftir í Svíþjóð ásamt Unni. Thelma, dóttir hennar, hefur flutt sig um set og stundar nám við Ballettakademíuna í Stokkhólmi og Aron Ingi, sonur hennar, æfir handbolta og ætlar sér alla leið í þeirri íþrótt.

Þegar blaðamaður spyr Unni hvort hún sakni einhvers á Íslandi þá er því auðsvarað en hún reynir að koma reglulega til landsins til að heimsækja fjölskyldu og vini. „Ég sakna mömmu minnar mikið en hún býr á Nesvöllum í Reykjanesbæ, ég heimsæki hana helst á tveggja mánaða fresti og þá reynum við að gera margt og mikið og svo fer hún í hvíld þar til næst.“ Unnur segist vera þakklát fyrir fésbókina því þá líði henni svolítið eins og hún sé nær en ella, þegar hún kemur til Íslands þá finnst henni fátt eins gaman eins og að kaupa ýmis konar varning í minjagripaverslunum og versla íslenskar vörur. „Ég kaupi alltaf eitthvað íslenskt, síðan er ferðataskan fyllt með íslensku góðgæti, s.s. lambalæri, slátri, fiskibollum a la Haddi á Lyngholtinu, Kaffitárskaffi og svo drekk ég í mig íslenska náttúru og reyni að taka náttúruperlusnúning á meðan að ég er á landinu.“

Unnur ásamt Eddu, móðursystur sinni og móður sinni, Unni Grétu.

Nauðsynlegt að takast á við ný verkefni í lífinu
Það eru ekki margir sem stökkva í djúpu laugina og ákveða að flytja með alla fjölskylduna til annars lands en Unnur segir að það sé hollt og gott að stinga sér í djúpu laugina því maður verði að takast á við ný verkefni reglulega til að halda sér í góðu formi, bæði líkamlega og andlega. 
„Þegar við fluttum þá horfðum við bara á Växjö sem er mjög sérstakt. Við litum aldrei neitt annað og sé ég ekki eftir því. Fyrrverandi þjálfari minn í frjálsum íþróttum, Vésteinn Hafsteinsson, sem er mjög farsæll kastþjálfari, býr hérna og hann hafði áhrif á ákvörðunina, ég neita því ekki. Ræturnar liggja þó á Íslandi, þó að í dag sjái ég ekki fyrir mér að flytja heim en ég þarf samt að koma reglulega heim, ég þarfnast náttúrunnar, ættingja minna, vina og síðast en ekki síst að fá góða íslenska máltíð, íslenskur matur er bara eðal.“

Unnur og Vésteinn á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Skólastjórinn pantaði rútu fyrir skautaferðir á Seltjörn
Unnur ólst upp í Keflavík en hún segir að það hafi verið yndislegt í alla staði að alast upp á Suðurnesjum og það hafi alltaf verið nóg að gera og aðhafast. „Við lékum okkur í móanum fyrir ofan kirkjugarðinn á horninu á Smáratúni og Aðalgötu.

Ég byrjaði kannski að æfa fyrir „Sterkustu konu Íslands“ strax í barnaskóla því á hverjum þriðjudegi kom „Coca Cola“-bílinn í verslunina „Nonni og Bubbi“ sem var á horni Hringbrautar og Tjarnargötu. Ég hjálpaði til við að bera kassa af „kók í flösku“ inn á lager og fékk nokkrar flöskur að launum. Það var aðeins erfiðara að semja við Ölgerð Egils Skallagrímssonar en þeir komu alla fimmtudaga, það tókst síðan á endanum. Ég bjó á Heiðarbrún sem var yndisleg gata þar sem að allir þekktu alla og maður gekk inn og út eins og maður ætti heima í sautján húsum.“

Skólinn var stór þáttur í lífi Unnar þegar hún ólst upp, hún brallaði ýmislegt með bekkjarsystkinum sínum bæði innan og utan veggja skólans.
„​Einn vetrardag í fjórða eða fimmta bekk fóru við sex saman niður í slipp í Keflavík og trúlofuðum okkur og notuðum álhringinn af kókdós fyrir hringi.“ ​

Hún segir að skólastjóri Barnaskólans í Keflavík, sem nú er Myllubakkaskóli hafi verið duglegur að fara með bekkinn sinn í skautaferðir á Seltjörn þegar kennarinn þeirra var veikur. „Þá var bara leigð rúta og brunað af stað, aðrir bekkir fengu víst ekki sömu meðferð,“ segir Unnur kímin. Unnur lék handbolta með KFK, æfði dans hjá Sóley Jóhanns í Ungó og Heiðari Ástvaldssyni í Tjarnarlundi, svo var hún í skátafélaginu Heiðarbúum. „​Oftast eftir skóla fórum við samferða heim, þeir sem bjuggu á Heiðarbrúninni og upp í nýja hverfi sem kallaðist í þá daga. Einn daginn var ákveðið að keppa í hver gæti sveiflað sér lengst frá snúrustaur heima hjá Eddu Rós Karlsdóttur Steinars, og jú ég vann þá keppni en lenti eitthvað illa á hendinni og fór heim. Mamma kom heim um tveim tímum síðar og fór með mig beint til læknis, ég var víst handleggsbrotin. Ég, Heiða Guðmunds og Ingunn Ingva vorum duglegar að semja dans og komum fram á árshátíðum, þorrablótum, í Bergás og í Stapanum við hin ýmsu tækifæri. Við vorum dyggir viðskiptavinir Verslunarinnar Femínu og Álnabæjar því við saumuðum alla dansbúninga sjálfar. Við Ingunn saumuðum hvert dressið á fætur öðru í öllum litum fyrir „opið hús“ og „diskótek“ í skólanum.

Thelma María. stjúpbörn Unnar; Alexina og Max og Aron Ingi.

Byrjaði að vinna tólf ára gömul
Pabbi Unnar var með útgerð og fékk hún að byrja að vinna þegar hún var einungis tólf ára gömul og man það eins og það hafi verið í gær þegar hún vann í fyrsta sinn, þá í jólafríinu. „Síðan var ekki aftur snúið og vann ég hjá pabba við fiskvinnslu almennt, snyrti fisk, var í stíunni, í frystiklefanum, vann í saltfiski, við skreið og að pakka fínum humri.“ Þegar Unnur varð sextán ára byrjaði hún starfa við skrifstofustörf hjá hernum. Leiðin lá í síðan í Verslunarskóla Íslands en þar lauk hún verslunarprófi og hóf störf hjá Endurskoðunarmiðstöðinni sem heitir PWC í dag. Unnur vann þar í tvö ár eða þar til hún hóf nám í Samvinnuskólanum á Bifröst, síðar Háskólinn á Bifröst. Lauk þremur gráðum frá Bifröst; stúdentprófi, rekstrarfræðinámi og að lokum b.s. í viðskiptafræði.

Í Svíþjóð er algengt að þú sért ráðin inn tímabundið í sex mánuði og að hálfu ári loknu eru störf þín metin, ef þú hefur staðið þig vel þá er þér boðin fastráðning en Unnur er í nýju starfi eins og áður hefur komið fram og þarf því að bíða í hálft ár eftir fastráðningu. „Nú þarf maður að standa sig til að eiga möguleika á því.“

Var sterkasta kona Íslands
Íþróttir hafa átt hug Unnar í mörg ár og í dag æfir hún reglulega. „Ég hef alltaf lyft lóðum og nýjasta nýtt hjá mér er innibandý. Hér áður var ég í frjálsum íþróttum og var t.d. síðasti frjálsíþróttamaðurinn sem fór úr UMFK þegar ég skipti yfir í FH. Þar keppti ég í öllum kastgreinum um árabil fyrir félagið. Ég æfði einnig blak með Víkingi í nokkur ár og á þeim tíma urðum við Íslands- og bikarmeistarar.  Í dag skelli ég mér oft á blakæfingar og strandblaksæfingar af því að það er svo gaman.“ Unnur var hér um árið Sterkasta kona Íslands og þegar fyrrum vinnuveitendur hennar komust að því þá var hún oft látin færa eitt og annað til á vinnustaðnum sem henni finnst nokkuð skondið. ​„Skemmtileg saga í kringum þátttöku mína í „Sterkustu konu Íslands“, bræðurnir Andrés og Pétur Guðmundssynir sáu um keppnina og höfðu samband við mig um þátttöku og ég sagði nei. Þá sögðu þeir að vinkona mín Íris Grönfeldt, fyrrverandi Íslandsmethafi í spjótkasti, ætlaði að vera með og ég sló til. Þeir notuðu þessa taktík á hana líka en hún sló ekki til, sá í gegnum þá, en ég mætti til leiks.​“

Kirkjan í Dimmuborgum 2017.

Ferðalög og heimsóknir heim til Íslands
Það er alltaf nóg að gera hjá Unni og fjölskyldu hennar og á döfinni hjá þeim er að fara á skíði þegar börnin eru í skólafríi í febrúar, svo eru þau búin að skrá sig fyrir miðum á leiki Íslands á HM í Rússlandi og undir lok ársins fer hún til Japans að heimsækja gamlan vinnufélaga. Hún er dugleg að mæta á útskriftarafmæli hjá skólasystkinum sínum, en nú í vor er stúdentsútskrifarafmæli frá Samvinnuskólanum á Bifröst svo er bara eitt ár í stórfermingarafmæli frá Suðurnesjum. „Þetta eru algjörar vítamínsprautur.“