Írar í heimsókn í Vogum
Síðasta sumar fóru 16 krakkar úr félagsmiðstöðinni Englum Alheimsins í Vogunum á vegum Ungt fólk í Evrópu til Írlands. Í 8 mánuði höfðu báðir hóparnir, hér og á Írlandi, staðið í undirbúningi fyrir þessi vistaskipti. Fyrir skemmstu endurguldu Vogakrakkar Írunum heimsóknina og voru Írarnir hér á landi þann 10.-17. júní.
Tekið var upp á mörgu skemmtilegu á meðan heimsókninni stóð. T.d. var farið Gullna hringinn, í Draugasetrið og í Bláa Lónið. Sagðar voru draugasögur, unglingunum kennt að dansa, bæði írska og íslenska dansa svo eitthvað sé nefnt. Heimsóknin endaði svo á því að unglingarnir héldu samkomu í hátíðarsal Stóru-Vogaskóla þar sem öllum Vogabúum var boðið að koma að skoða afrakstur vikunnar og heilsa upp á írsku krakkana. Þessi heimsókn gekk afar vel í alla staði að sögn skipuleggenda. Vilja þau þakka öllum þeim sem lögðu sitt á vogaskálarnar til þess að láta þennan draum rætast og einnig þeim sem hjálpuðu til í móttökunni.
VF-myndir/HBB