Innri Njarðvíkingar halda hverfishátíð
Innri-Njarðvíkingar gera sér ýmislegt til dundurs þegar vetur konungur kveður og blómin fara að springa út. Síðastliðin tvö ár hafa nokkrir einstaklingar, með stuðningi Systrafélagsins, staðið fyrir fjölskylduhátíð í hverfinu. Árið 1998 voru þátttakendur um 100 manns og ári síðar mættu 170 manns, sem verður að teljast afbragðs þátttaka. Í ár stendur til að halda aðra slíka hátíð, þar sem íbúar eru þegar farnir að spyrjast fyrir um hvenær næsta hátíð verður.Erlingur J. Leifsson, er í undirbúningsnefnd fyrir Sögudag 2000, en það er nafnið á hátíðinni í ár þar sem sögulegum fróðleik um Innri Njarðvík er fléttað inní dagskrána á margvíslegan hátt. „Í fyrra vorum við með ratleik, en svörin við spurningunum byggðust á sögu hverfisins. Mjög góð þátttaka var í ratleiknum og svo var endað í safnaðarheimilinu. Þangað mætti innfæddur Innri-Njarðvíkingur, sem sagði frá uppvexti sínum fyrir nokkrum áratugum. Rúsínan í pylsuendanum var svo heimsókn íþróttaálfsins. Að lokum var grillað, sest niður og spjallað saman“, segir Erlingur en nefndin hyggst, eins og fyrr segir, endurtaka leikinn innan skamms en fara þá um annan hluta hverfisins í göngu og hengja upp spjöld á þeirri leið með fróðleiksmolum um sögu hverfisins. „Við ætlum að fá aðkeyptan skemmtikraft á hátíðina en ekki er enn búið að ákveða hvort hún verði haldin 28. maí eða laugardaginnn 3. júní“, segir Erlingur.Á síðasta ári fór undirbúningsnefndin fram á fjárstuðning til Reykjanesbæjar vegna hátíðarinnar. Beiðninni var hafnað á þeim forsendum að hún hefði fordæmisgildi fyrir önnur hverfi í bænum. Erlingur telur að slíkt fordæmi væri bara af hinu góða og Reykjanesbær þyrfti ekki að kosta svo miklu til. „Það er alltaf verið að kvarta yfir því að fjölskyldan eyði of litlum tíma saman en slíkur dagur er einmitt gerður fyrir fjölskylduna. Ég tel einnig að hann auki samkennd fólks og gefi því tækifæri til að hittast og tala saman, sem það gerir annars ekki. Við vildum sjá slíkar hátíðir í öllum hverfum“, segir Erlingur og hver veit, sú ósk á e.t.v. eftir að verða að veruleika.