Innflytjendur auðga samfélagið
Sveindís Valdimarsdóttir, verkefnastjóri íslenskunámskeiða hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, hefur í starfi sínu fylgst með Suðurnesjum breytast úr nokkuð einsleitu samfélagi í mesta fjölmenningarsvæði á Íslandi. Hlutfall innflytjenda á Suðurnesjum er 16 prósent, miðað við 9,6 prósent á landinu í heild. Sveindís segir það enga spurningu að innflytjendur hafi auðgað samfélagið á Suðurnesjum.
Sveindís hafði verið grunnskólakennari í 27 ár þegar hún byrjaði að kenna innflytjendum íslensku fyrir áratug síðan. Fyrst í stað kenndi hún innflytjendum íslensku í vinnuskúrum, til dæmis hjá byggingafyrirtækjum. Hún kenndi líka fiskverkafólki í Sandgerði. Ýmislegt hefur breyst síðan og í dag er íslenskukennsla á vegum MSS víða í fyrirtækjum og laga Sveindís og samstarfsfólk hennar kennsluna að hverjum hóp fyrir sig og velja kennara miðað við þarfir nemenda. MSS getur boðið upp á úrval ólíkra kennara og sumir þeirra eru af erlendu bergi. Hefur meðal annars verið hægt að bjóða upp á kennara sem tala pólsku, tælensku, rússnesku og litháísku og er það mikils virði fyrir nemendur sem eru að hefja íslenskunám. „Svo má eiginlega segja að við hlaupum á eftir því hvernig vinnumarkaðurinn þróast. Við kennum fiskverkafólki aðeins öðruvísi orðaforða en til dæmis smiðum og starfsfólki við flugafgreiðslu,“ segir Sveindís.
Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en undanfarin misseri og hefur nemendahópurinn hjá MSS endurspeglað þá stöðu og segir Sveindís mun fleiri nemendur í dag á flótta vegna stríðsátaka en fyrir áratug.
Búa fólk undir vinnumarkaðinn
Landnemaskólinn er námskeið hjá MSS þar sem nemendur eru undirbúnir fyrir þátttöku á vinnumarkaði hér á landi. Í hópnum þennan veturinn eru átján konur frá ýmsum stöðum í heiminum; Gana, Nígeríu, Kanada, Litháen, Lettlandi og Sómalíu. Í Landnemaskólanum er kennd íslenska, nemendum hjálpað við gerð starfsferilskrár og áhugasviðspróf lögð fyrir. Þá er einnig unnið að ýmis konar listsköpun og sjálfstyrkingu. Sveindís segir mikilvægt fyrir fólk með menntun og reynslu að fá hana metna hér á landi og allt of mikið um að innflytjendur sinni störfum sem þeir hafa ekki ánægju af. „Það er alltaf góð tilfinning fyrir fólk að finna sig í starfi sem því líkar. Við gætum gert meira til að hjálpa innflytjendum að komast í betri störf en vantar fleira fólk og fjármagn.“
Þorbjörg Óskarsdóttir, eða Tobba listakona, ásamt nemendum í listasmiðju í Landnemaskólanum.
Nemendur Landnemaskólans búa við mismunandi aðstæður. Flestir eru komnir með dvalarleyfi og kennitölu hér á landi og sjá því fram á að dvelja áfram á Íslandi. Í hópnum er líka fólk sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi og bíður niðurstöðu Útlendingastofnunar. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þann hóp að hafa eitthvað fyrir stafni. Staðan hjá þeim er oft erfið og það finnum við, óvissan um framtíðina hjá þeim er mikil.“ Sumar kvennanna hafa eignast börn hér á landi og koma með ung börn sín með sér í skólann.
Innflytjendum fjölgar í uppsveiflunni
Í sumum tilvikum þurfa innflytjendur á ýmsum stuðningi að halda fyrstu mánuðina í nýju landi. MSS er staðsett í Krossmóa í Reykjanesbæ. Sveindís segir að ef til vill væri hentugra ef MSS og skrifstofur Reykjanesbæjar væru nær eða jafnvel í sama húsinu. „Við kennararnir hittum fólkið á hverjum degi og oft er það þannig að við erum þau fyrstu sem það leitar til ef eitthvað bjátar á. Stundum þarf fólk aðstoð strax og þá væri gott að það væri styttra að fara, enda margar með barnavagna eða kerrur og alltaf fótgangandi. Ef skrifstofur bæjarins væru nær væri þetta auðveldara og við gætum unnið enn betur saman. Annars hefur samstarf við Reykjanesbæ verið með miklum ágætum, sem og við aðrar stofnanir eins og Vinnumálastofnun, Virk og Verkalýðsfélagið en þær stofnanir eru einmitt hér í Krossmóanum. Þá höfum við einnig átt gott samstarf við Rauða krossinn en þau félagasamtök eru gríðarlega mikilvæg erlendum borgurum sem eru að fóta sig hér á landi.“
Hjá MSS hefur verið unnið að ýmsum verkefnum sem hafa verið styrkt af Evrópusambandinu. Sveindís segir þau öll hafa stuðlað að bættum samskiptum við ólíka menningarheima. Eitt af þessum verkefnum er Lingua Café sem er á Café Petite á þriðjudagskvöldum frá klukkan 20 til 21:30. Þar gefst fólki tækifæri til að hittast og tala saman á mismunandi tungumálum og læra hvert af öðru. ,,Lingua Café mun hefjast aftur 7. febrúar og munum við auglýsa það vel á Facebook síðunni okkar og finna okkur fleiri tengiliði af ólíkum uppruna til að koma inn með okkur. Við erum með alls konar skemmtileg verkefni og er þetta því kjörið tækifæri til að koma, læra og æfa tungumál og vonumst við til að fá fullt af nýju fólki inn þegar við byrjum á ný. Ég hvet fólk til að afla sér upplýsinga hjá okkur í MSS og vera bara óhrætt að mæta. Þetta er ekki síður fyrir okkur Íslendinga. Það er alltaf gaman að læra ný tungumál og kynnast nýju fólki.“
Nú þegar uppsveifla er hér á landi, meðal annars vegna fjölda ferðamanna, fjölgar fólki sem flytur til Íslands vegna atvinnu. Sveindís segir mikilvægt að hafa í huga að því fylgi jafnt réttindi sem skyldur að taka vel á móti því fólki og sýna virðingu og skilning.