Innblástur frá náttúrunni á Suðurnesjum
Málverkasýning Guðrúnar Helgu í gamla bókasafninu í Grindavík.
„Landslagið suður með sjó er helsta fyrirmynd mín, skýin og náttúran. Ég geymi myndir í huganum og mála út frá þeim. Er svona frekar spontant imperssionisti. Þetta er dálítið dramatískt hjá mér, segja sumir. Þetta hefur gengið mjög vel og ég stoppa ekkert því mér finnst svo gaman að mála. Þetta er svo mikil útrás,“ segir myndlistarkonan Guðrún Helga Kristjánsdóttir, sem verður með sýningu á verkum sínum í húsnæði gamla bókasafnsins í Grindavík. „Ég var alltaf að teikna sem krakki og fór síðan á námskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík og síðar í Myndlistarskóla Kópavogs þar sem ég lagði stund á olíumálun hjá ýmsum myndlistarmönnum.“
Árið 2002 flutti Guðrún Helga til Barcelona og stundaði þar nám í listháskóla og einnig hefur hún sótt einkatíma hjá Cynthiu Packard í Boston og Serhiy Savchenko frá Úkraínu. „Sl. fimm ár hef ég unnið sjálfstætt og kynnst mörgu fólki um allan heim. Ég nota olíuliti og er einnig að þreifa mig áfram með vatnsliti. Ég heillaðist snemma af abstract list og hef einbeitt mér að kraftmiklum og litaglöðum olíumálverkum, með innblástur úr náttúrunni suður með sjó. Flest verk mín eru unnin með olíu á striga og einnig hef ég notað blandaða tækni.“
Verður einnig með opna vinnustofu
Guðrún Helga hefur haldið bæði einkasýningar og tekið þátt í nokkrum samsýningum. Hún segir marga byrja í myndlist en hætta svo því þeir hafi ekki trú á sér. „Það þýðir ekkert að hugsa þannig. Frekar að ná sér í meiri þekkingu, skoða gömul listaverk.“ Þá hefur hún sjálf verið að kenna í vinnustofu sinni í Vörðusundi og einnig flutt inn kennara. Á sýningunni um safnahelgina verða einnig verk eftir þrjá vini hennar sem komu hingað til lands og skildu eftir verkin sín. „Þær myndir eru mjög skemmtilegar og gaman fyrir almenning að sjá þær. Sýningin verður opin í viku, tengd safnahelginni og menningarvikunni, einnig verð ég með opna vinnustofu þessa helgi frá kl. 13 til 18.“