Ingólfur efnir 20 ára gamalt loforð í Moskvu

-Það er allt rosalegt stórt í Moskvu, segir Ingólfur Karlsson veitingamaður sem er mættur á HM í Rússlandi

„Þegar ég fór á HM í París árið 1998 lofaði ég mér því að ef Ísland kæmist á mótið einhvern tíma myndi ég fara og nú er ég að standa við það, nákvæmlega tuttugu árum síðar,“ sagði Keflvíkingurinn Ingólfur Karlsson, veitingamaður og eigandi Langbest veitingastaðarins á Ásbrú.

Ingó var í góðum gír þegar VF hringdi í hann til Moskvu í morgun, degi fyrir fyrsta leik Íslands á mótinu.
Ingólfur fór á HM með Ásbirni Pálssyni, veitingamanni á Suðurnesjum 1998 en þeir unnu miða fyrir tvo og sáu tvo leiki á mótinu þá. „Stemmningin var rosaleg og þess vegna gaf ég mér það loforð að ég myndi ekki sleppa því ef Ísland kæmist einhvern tíma á þennan stærsta knattspyrnuviðburð sem haldinn er. Við sáum Suður Kóreu gegn Belgíu og síðan Rúmeníu mæta  Túnis. En nú er ég kominn til Rússlands.“

Okkar maður byrjaði að undirbúa HM ferðina sína í desember og segir að það hafi verið mikil vinna. Hann er núna úti með Helenu eiginkonu sinni, Pétri Karli syni sínum og Öldu Kristinsdóttur, tengdadóttur sinni. Hópurinn flaug til Dusseldorf í Þýskalandi og þaðan til Moskvu og lentu þar í gær. Hann fékk miða á alla leikina en mun koma heim eftir helgina en fara aftur utan fyrir leikina gegn Nígeríu og Króatíu. „Svo á ég líka miða í 16 liða úrslitin,“ sagði Ingó brattur.

En hvernig er Moskva og Rússland?
„Vá, þetta er öðruvísi. Allt fáránlega stórt, ég hef aldrei séð annað eins. Það er eiginlega allt tvöfalt stærra en í venjulegri stórborg enda búa um 11 milljónir manna í Moskvu. En lestarkerfið er mjög gott og greinilegt að Rússar eru búnir að undirbúa sig mjög vel fyrir þennan stóra viðburð. Öryggisgæsla er gríðarleg, mörg hlið sem þarf að fara í gegnum á lestarstöðvum og þar þarftu að fara með tösku eða bakpokann í gegnumlýsingu. Svo eru allir áhorfendur á mótinu með einkenniskort, „HM-ædí“ og það þarf til dæmis að stemma við aðgangsmiðann þinn á leikina. Ef þú ert með þína hluti á hreinu gengur þetta samt ágætlega en hér gerir þú samt ekki neitt sem tekur minna en klukkutíma.“

Ingó segir að íslenskir stuðningsmenn muni hittast fyrir Argentínuleikinn á torgi í miðborg Moskvu, eitt fárra liða. „Það verður eitthvað. Borgarstjórinn í Moskvu gaf Íslendingum leyfi til að hittast þar en vildi ekki að stuðningsmenn stærri þjóða myndu hittast þar,“ sagði Ingó og hann bætir því við að hann hafi sótt undirbúningsfund sem KSÍ hélt heima á Íslandi og það hafi verið mjög gott. Þar hafi þau fengið nytsamar upplýsingar um margt í Rússlandi. En Keflvíkingurinn er stemmningsmaður og eldri en tvævetur. Hann tók með sér slatta af „mínatúrum“ með íslensku Vodka og réttir vinum sínum í Rússlandi fyrir litla greiða eða hjálpsemi. „Það er eins og maður sé að gefa þeim gull. Það er gaman að gauka einhverju svona íslensku að fólki hér í Moskvu. Ég tók t.d. með mér harðfisk og er búinn að rétta lögreglumanni einn poka og einhverjir fleiri fá.“

Sem sagt, allir klárir í stóra daginn?
„Já, það er mikil eftirvænting meðal Íslendinga. Ég hef heyrt að það muni verða um 3 þúsund Íslendingar hér í Moskvu þannig að við hlökkum til opnunarleiks Íslands og því sem framundan er,“ sagði Ingólfur og var bjartsýnn á gengi okkar manna á HM.

Feðgar á ferð...og íslenski Langbest-hópurinn í Moskvu.

Lestarkerfið í toppformi.