Mannlíf

Indverja-stórstjörnur lofsömuðu matinn á KEF
Miðvikudagur 9. september 2015 kl. 07:00

Indverja-stórstjörnur lofsömuðu matinn á KEF

- þekktustu leikarar og leikstjóri Indlands gerðu góða ferð til Íslands og gistu á Icelandair hótelinu í Keflavík

Indverjarnir Shah Rukh Khan, leikari, Kajol leikona og Farah Khan leikstjóri, öll heimsþekkt, heimsóttu bítlabæinn Keflavík á ferð sinni um Íslands nýlega.  „Þau eru öll goð í Asíu en þau voru hér í tökum á einu lagi í kvikmyndinni Dilwale sem sagt er að 250 milljónir manna muni sjá fyrstu sýningarhelgina þegar hún verður frumsýnd í desember,“ segir Gunnar Halldórsson, en hann rekur  KEF resturant á Hótel Keflavík með Jenný Rúnarsdóttur konu sinni.

Kajol er frægasta leikona Indverja og Farah Khan sömuleiðis þekktasti leikstjóri Indlands. Þá er Shah Rukh Khan frægasti leikari heims með yfir 14 miljónir fylgjendur á Twitter samfélagsmiðlinum. Hópurinn gerði góða ferð til Íslands og skilaboðin eftir ferðina voru þau að nú verði Íslendingar að gera sig klára til að taka á móti indverskum ferðamönnum sem munu fjölmenna eftir sýningu myndarinnar á Indlandi.

Tökustaðir hjá Indverjunum voru við Skógarfoss, Seljalandsfoss, Þjófafoss, Reynisfjöru, og á Sólheimasandi.  Gunnar sem var þeim til aðstoðar í ferðinni segir að þau hafi ákveðið að gista í Keflavík til að lengja svefninn fyrir heimflug um morguninn. „Þegar þau komu til Keflavíkur um tíuleytið var búið að loka nánast allstaðar en þau vildu borða og óskuðu eftir því að vera útaf fyrir sig. Við buðum þeim að borða á KEF og fengu þau sér þorskinn öll sömul. Móðir Kajol sem er 74 ára og sagðist hafa borðað um allan heim. Hún sagði það við alla að hún hefði aldrei smakkað jafn góðan fisk,“ sagði Gunnar og bætti því við að lífvörður hópsins hafi greitt reikninginn fyrir mat með bros á vör og gefið þjóninum gott þjórfé.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Gunnar er þekktu fólki innan handar á Íslandi. Hann hefur tekið fleiri svona leiðsögumanns-verkefni að sér, m.a. var hann með leikstjórann Christopher Nolan við tökur á kvikmyndinni Interstellar, Vinnie Jones við tökur á rússneskri mynd og fleirum. „Þeir vilja allir heyra um áhugaverða sögu Íslands, tónlistina, tískuna og listir, allt eftir því hvar áhugi þeirra liggur,“ sagði Gunnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Gunnar, annar frá hægri, með hópnum á KEF resturant á Hótel Keflavík.

Gunnar og Khan í Íslandsfjöri.

Úr myndbandinu. Von er á fjölda Indverja til Íslands í kjölfarið.