Íbúar opna heimili sín og halda tónleika
„Það var ótrúlega skemmtilegt í fyrra að halda tónleika heima og fá til sín fjöldann allan af gestum og tónlistarfólk,“ segir Sara Dögg Gylfadóttir íbúi við Melteig í Reykjanesbæ. Sara og fjölskylda opnuðu heimili sitt á Ljósanótt í fyrra þar sem níu manna stórhljómsveitin Sígull hélt tónleika. Þeir voru hluti af tónleikunum Heima í gamla bænum sem þá voru haldnir í fyrsta sinn. Þá var boðið upp á tónleika á fjórum heimilum og seldust aðgöngumiðar upp á skömmum tíma. Í ár verða tónleikar í fimm húsum, þar á meðal hjá Söru Dögg og fjölskyldu þar sem Eliza Newman mun koma fram.
Hafa skóhlífar til taks
Sara segir það ekki hafa verið mikið mál að opna heimilið og halda tónleika. „Við þurftum nú ekki að breyta miklu. Við bættum nokkrum stólum við og höfðum skóhlífar til taks, ef það skyldi vera rigning. Við höfum sama háttinn á í ár,“ segir Sara sem hlakkar mikið til tónleikanna. Í fyrra voru íbúar með mismunandi skreytingar og veitingar til að hafa stemninguna heimilislega og skemmtilega.
Jón Jónsson á veröndinni
Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson kemur fram á tónleikum á veröndinni við Íshússtíg 14. Að sögn Særúnar Guðjónsdóttur, íbúa þar, verður sett upp tjald í garðinum ef það skyldi rigna á meðan tónleikarnir standa yfir. „Svo erum við með garð sófasett svo einhverjir geta fengið sæti. Svo verða luktir í garðinum. Þetta er nú Ljósanótt svo það verður að vera eitthvað um ljós.“ Þau fjölskyldan voru ekki með tónleika heima á Ljósanótt í fyrra en fóru á tónleika í hverfinu. „Það voru allt mjög skemmtilegir tónleikar og ég náði að fara á þá alla enda stutt að ganga á milli tónleikastaða,“ segir Særún.
Tónleikarnir fara fram föstudagskvöldið 2. september og verða allir tvisvar sinnum í sama húsinu, fyrst klukkan 21:00 og svo aftur klukkan 22:00. Tónleikarnir standa í 40 mínútur. Fólk getur því rölt á milli húsa, enda stutt á milli, og sótt einn, tvo eða jafnvel fleiri tónleika.
Listamennirnir Berndsen & Hermigervill, Elíza Geirsdóttir Newman, Jón Jónsson, Markús & The Diversion Sessions og Ylja hafa staðfest komu sína. Miða á tónleikana má nálgast á vefnum tix.is. Gestir fá armband sem er aðgöngumiðinn og kort af svæðinu í Duushúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar á opnunartíma. Hægt er að sækja armband og kort gegn kvittun frá Tix frá og með 29. ágúst.
Á heimili Særúnar Guðjónsdóttur og fjölskyldu við Íshússtíg 14 verða tónleikar með Jóni Jónssyni. VF-mynd/dagnyhulda