Í versta falli gistum við fangageymslur fyrir óviðeigandi grín
Rúnar Ingi Hannah, forsprakki Breiðbandsins, er kominn í fiskeldi í garðinum heima hjá sér og segir að kettirnir í hverfinu hafi komist að því hvað sé í tjörninni í garði söngvara Breiðbandsins. Rú er spenntur fyrir námi í rafvirkjun sem hefst í haust og hann hefur skráð sig í, því húsasmíðanámi í síðdegisskóla var frestar til áramóta.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Þar sem ég byrjaði á nýjum vinnustað í vor sem landamæravörður hjá lögreglunni á Suðurnesjum þá var ekkert eiginlegt sumarfrí. En frítíminn sem ég fékk í vaktarfríum var notaður til að vinna heima við og í helgarferðir upp í bústað foreldrana á Flúðum og einstaka sinnum tekinn góður rúntur á mótorhjólinu.
Hvað stóð upp úr?
Stúss í kringum fiskeldið heima hjá mér. Við erum með tjörn sem fór að leka og fór mikill tími í að laga það. Á meðan fengu hornsíli sem voru í tjörninni bráðabirgðaaðstöðu í fiskikari. Þau eru núna komin aftur í tjörnina og virðast braggast vel. Reyndar eru kettir hverfisins búnir að uppgötva hornsílin mér til pirrings. Hvernig er það annars, er ekki kominn tími til að banna lausagöngu katta hér í bæ? Einnig fórum við í göngutúr um æskuslóðir föður míns og hans systkina í miðbæ Reykjavíkur og var það mjög skemmtilegt og fræðandi.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Hvað það er gaman í vinnunni. Flottur vinnustaður og skemmtilegir vinnufélagar. Það er mjög nærandi þegar manni hlakkar til að fara í vinnuna. Ég fer brosandi í vinnuna og kem brosandi heim.
Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?
Minn uppáhaldsstaður er heimilið mitt enda segi ég oft að það sé sumarbústaðurinn minn líka. Finn mér alltaf eitthvað skemmtilegt til dundurs þar. Í góðu veðri er ég að ditta að hinu og þessu og eyða tíma í vinnuskúrnum mínum við smíðar. Í vondum veðrum er ég í fjölskylduherberginu að spila billiard eða bæta þar við nýjum hlutum.
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Ég skráði mig í síðdegisskóla í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í húsasmíði. Svo var því námi frestað til áramóta svo ég svissaði skyndilega yfir í rafvirkjanám því það var laust í það. Þó svo þetta hafi ekki verið planað er ég mjög spenntur (rafvirkjabrandari) yfir nýrri áskorun. Stundum er eins og einhver annar kippi í strengina í lífinu.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Frábær. Þetta er árshátíð og uppskeruhátíð okkar sem búum hérna. Bærinn skartar sínu fegursta og svo hefur maður á síðustu tuttugu árum tekið þátt á ýmsa vegu með Breiðbandinu.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Fyrir mig verður aðalviðburðurinn tónleikarnir í Holtunum heima þar sem Breiðbandið mun koma fram en hljómsveitin á tuttugu ára afmæli í ár. Það seldist upp á þessa tónleika á mettíma og erum við félagarnir í Breiðbandinu sannfærðir um það að það sé eingöngu út af því að við erum að koma fram. Það er langt síðan Breiðbandið hefur spilað upp á sviði fyrir framan fleiri hundruð manns. Vonandi verður hlegið og við ekki púaðir niður. Í versta falli gistum við fangageymslur fyrir óviðeigandi grín sem á ekki við í dag.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Árið 2006 kom Breiðbandið fram á tónleikum og víðar og auglýsti að Kristján Jóhannsson stórsöngvari myndi taka með okkur lagið. Sá Kristján hefur komið víða við í menningarmálum hér í bæ. Fjölmiðlar landsins misskildu þetta og nefndu í fréttum að hinn heimsfrægi óperusöngvari Kristján Jóhannsson kæmi fram með Breiðbandinu. Þáverandi menningarmálafulltrúi hafði orð á því að hafa aldrei þurft að svara eins mörgum spurningum frá fjölmiðlum sem óskuðu eftir frekari upplýsingum um þetta óvænta atriði. Hið sáluga Fréttablað tók viðtal við „okkar“ Kristján Jóhannsson stórsöngvara í tilefni þessa „misskilnings“.
Erum að spá í að fá einhverja Björk Guðmundsdóttur til að koma fram með okkur við tækifæri svo ef einhver alnafna söngkonunar les þetta þá má hún endilega hafa samband við okkur. Ekki myndi skemma fyrir ef hún getur sungið.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Við förum niður í bæ alla dagana og tökum þátt í eins miklu og við getum. Annars er mest gaman að hitta brottflutta sem maður hefur ekki séð í mörg ár.