Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Í tónlist síðan í móðurkviði
Laugardagur 17. september 2016 kl. 06:00

Í tónlist síðan í móðurkviði

- Vinnur að tónlistarsköpun og byggir brýr á milli þjóðfélagshópa í London

Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths úr Keflavík hefur spilað tónlist alla sína tíð og stýrir nú námi í skapandi tónlistarmiðlun við virtan tónlistarháskóla í Bretlandi. Sex ára gömul hóf hún nám við Tónlistarskólann í Keflavík en kveðst þó hafa verið óformlegur nemandi þar síðan í móðurkviði þar sem móðir hennar, Ragnheiður Skúladóttir, kenndi við skólann. Í æsku lærði Sigrún á píanó, fiðlu, básúnu en sérhæfði sig síðar á básúnu. Undanfarin ár hefur hún stýrt meistaranámi við Guildhall tónlistarháskólann í London en skólinn er á lista yfir tíu bestu tónlistarháskóla í heimi og fékk nú í vor þann stimpil frá Higher Education Funding Council að vera alheimsleiðtogi í kennslu. „Fagið sem ég kenni var einn þeirra fimm liða sem gerði skólanum það kleift að ná þessari tilnefningu og ég er afskaplega stolt af því,“ segir Sigrún. Fagið sem hún stýrir er einstakt á heimsvísu og segir Sigrún að sem krakka í Tónlistarskólanum í Keflavík hafi hana aldrei órað fyrir því að starfa í því umhverfi sem hún gerir í dag.

Eftir að Sigrún lauk stúdentsprófi á tónlistarbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja nam hún við blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Þegar hún var á öðru ári, árið 1996, sótti hún námskeið sem átti eftir að hafa mikil áhrif en þar kynntist hún eiginmanni sínum, Paul Griffiths. „Hann er einn af kennurunum við Guildhall og kom til Íslands til að kynna námið. Þessa örlagaríku helgi féll ég bæði fyrir honum og faginu,“ segir Sigrún. Saman eiga þau tvö börn, þau Rhys Ragnar 12 ára og Sædísi Rheu 8 ára, og búa í Suð-austur London í blómlegu og grænu hverfi sem heitir Sydenham. Fyrir á Paul þrjár uppkomnar dætur af fyrra hjónabandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Skapar tónlist með börnum og unglingum á geðdeildum
Í Guildhall stýrir Sigrún, ásamt bestu vinkonu sinni, Nell Catchpole, meistarakúrs sem heitir Masters in Leadership. Á íslensku kallast fagið skapandi tónlistarmiðlun. Námið tekur tvö ár og er sótt af tónlistarfólki alls staðar að úr heiminum.  „Nemendur þurfa að vera mjög sterkt tónlistarfólk til þess að fá inni hjá okkur en þess er ekki krafist að fólk sé menntað í klassískri tónlist. Þar af leiðandi er gífurleg breidd í tónlistarhefðum og menningarheimum sem fyrirfinnast í nemendahópnum mínum hverju sinni.“

Hljómsveitina the Messengers skipa nemendur úr Guildhall og fólk sem er að ná sér á strik eftir að hafa búið á götunni. Hljómsveitin hefur átt góðu gengi að fagna og er á leið í hljóðver að taka upp plötu. Lengst til hægri á myndinni má sjá Sigrúnu að stjórna sveitinni í febrúar síðastliðnum í Broadway Theatre in Barking and Dagenham.

 

Deildin var stofnuð árið 1989 og var upphaflega ætlað að skoða hvernig hægt væri að brúa bilið á milli klassískra tónlistarnemenda og umheimsins, þar sem klassískur tónlistarheimur á það til að vera eitthvað sem höfðar til ákveðins samfélagshóps en alls ekki til allra.  Upphaflega aðferðin fólst aðallega í því að fara með tónlistarnemendur út í samfélagið til þess að flytja klassíska tónlist, en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, að sögn Sigrúnar.

Stór hluti námsins sem Sigrún stýrir felst í því að kenna þá tækni sem gerir tónlistarfólki kleift að starfa úti í samfélaginu. Þá er aðal markmiðið að brúa bil og efla samskipti á milli þjóðfélagshópa sem og að gera einstaklingum kleift að eiga samskipti við annað fólk á nýjum grundvelli. Nemendur skólans starfa með hinum ýmsu hópum og fólki á öllum aldri svo sem í hefðbundnum grunnskólum, með börnum og fullorðnum með sérþarfir, með innflytjendum, inni á spítölum, á hjúkrunarheimilum og í fangelsum. Þau vinna einnig mikið með fólki úr öðrum listgreinum. „Ég vinn reglulega með hljóðfæraleikurum úr Royal Philharmonic Orchestra inni á lokuðum geðdeildum fyrir unglinga og börn. Þessi börn eru þau veikustu sem fyrirfinnast í landinu og koma úr óskaplega erfiðum aðstæðum. Flest hafa þau farið í gegnum réttarkerfið sem gerendur og oft fyrir kynferðisglæpi. Þau eiga í miklum erfiðleikum með eðlileg samskipti við annað fólk, en við semjum með þeim lög, bæði texta og laglínur alveg frá grunni og á undraverðum hraða.“ Sigrún segir börnin og unglingana nánast vera fanga í eigin huga en ná að tjá sig í gegnum tónlist, vinna að sameiginlegu markmiði með öðru fólki og standa stolt frammi fyrir hópi fólks og flytja sín eigin sköpunarverk. „Svona jákvæð reynsla hefur gífurleg áhrif á sjálfsmynd þeirra og sjálfstrú og veitir þeim tækifæri til annars konar hegðunar.“

Á leið í hljóðver fyrir David Byrne
Sigrún vinnur einnig að verkefni með heimilislausu fólki í hljómsveitinni the Messengers. Í sveitinni eru 25 manns og er helmingur þeirra nemendur úr Guildhall og hinn helmingurinn fólk sem er að ná sér á strik eftir að hafa verið heimilislaust. Á næstunni er sveitin á leið í hljóðver fyrir útgáfufyrirtækið Luaka Bop sem er í eigu David Byrne úr hljómsveitinni Talking Heads. Þar taka þau upp fjögur ný lög sem verða gefin út á plötu sem verður dreift víða um heim. „Hljómsveitin er þrusu góð, þó ég segi sjálf frá, og það minnist enginn á þá staðreynd að helmingur hljómsveitarmeðlima hafi aldrei nokkurn tíma lært tónlist og hafi verið á götunni fyrir ekki svo löngu. Ástæða þess að við erum að fá þetta tækifæri er einfaldlega sú að tónlistin okkar er góð,“ segir Sigrún. Hljómsveitin spilaði eitt laga sinna í útvarpsþætti David Byrne fyrir Pitchfork Radio í júlí síðastliðnum og í júní spiluðu þau með einum af listamönnunum hjá Luaka Bop á aðalsviðinu á Field Day tónlistarhátíðinni í Victoria Park í London. „Þetta er svakalegt ævintýri fyrir okkur öll, sérstaklega fyrir þau okkar sem hafa upplifað það að vita ekki hvar þau geti höfði sínu hallað og fengið sína næstu máltíð.“

Grétu eftir Brexit kosningu
Í vor vann Sigrún að verkefni með hópi unglingsstúlkna frá Sómalíu. Hópurinn var frá félagsmiðstöð fyrir sómalskar konur í London og segir Sigrún samstarfið hafa verið einkar lærdómsríkt. „Stúlkurnar eru allar með slæður og í síðum kuflum. Þær eru mjög tignarlegar og mér fannst þær einhvern veginn ósnertanlegar. Í Sómalíu tíðkast ekki að konur komi fram. Þær dansa og syngja í brúðkaupum og þá er það upptalið. Það kom okkur í Guildhall því skemmtilega á óvart þegar þær óskuðu eftir samstarfi við okkur. Því lauk svo með tónleikum og tóku mæður sómölsku stúlknanna virkan þátt í undirbúningnum og kenndu dætrum sínum og okkur dansana og söngvana sem þær syngja í brúðkaupum í Sómalíu.“

Í starfi sínu í Guildhall umgengst Sigrún fólk alls staðar að úr heiminum og því hefur hún fundið mikla breytingu á andrúmsloftinu í Bretlandi eftir að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu í júní síðastliðnum. „Nú er eins og fólki, sem hefur haft neikvæðar tilfinningar gagnvart innflytjendum, finnist það hafa fengið leyfi til að láta þær í ljós. Til dæmis á ég vin sem er af þriðju kynslóð innflytjenda og eins breskur og hægt er að verða og hann hefur þrisvar sinnum orðið fyrir áreitni á almannafæri vegna uppruna síns.“ Eitt af meginmarkmiðum námsins sem Sigrún stýrir er að byggja brýr á milli þjóðfélagshópa en með Brexit hefur orðið til afl sem vinnur að því að brjóta þær, að hennar sögn. „Það var grátið á skrifstofunni minni daginn sem niðurstöður kosninganna voru tilkynntar. Það veit enginn hvernig þetta endar svo það eru ógnvekjandi tímar núna. Það var engin áætlun til um að það hvað myndi taka við eftir kosninguna. Þetta var pólitískur leikur sem gekk of langt.“

Sigrún ásamt fjölskyldunni, eiginmanninum Paul Griffiths og börnunum Rhy Ragnari og Sædísi Rheu.


Heldur tengslum við tónlistarlífið á Íslandi
Sigrún kemur reglulega til Íslands til að hitta fjölskyldu og vini og líka til að halda námskeið. Undanfarin tíu ár hefur hún haldið námskeið fyrir tónlistarkennara og stjórnendur í ágúst ár hvert. „Þetta er orðin dálítil hefð hjá mér og námskeiðin eru vinsæl. Svo er þetta frábær leið til þess að halda tengingunni við tónlistarstarfið á Íslandi.“ Í desember kennir Sigrún svo alltaf við Listaháskóla Íslands. Í desember í fyrra dvaldi hún á Íslandi í fimm vikur og voru börnin hennar gestanemendur við Holtaskóla í Reykjanesbæ í þrjár vikur og segir Sigrún það hafa verið mjög spennandi lífsreynslu fyrir þau.

Sigrún kveðst ekki finna oft fyrir heimþrá, en þó sakna fjölskyldunnar og óska þess að þau byggju nær. „Ég á það sameiginlegt með mömmu minni að sætta mig við það hvernig hlutirnir eru í stað þess að veltast upp úr því hvernig þeir gætu verið. Ég á óskaplega gott samband við mömmu, bræður mína tvo og þeirra fjölskyldur. Mér þykir ólíklegt að samband okkar væri sterkara þó að við byggjum nær. Auðvitað hjálpar internetið og nútíma samskiptatækni gífurlega. Ég er í daglegu sambandi við mömmu í gegnum síma og frétti vanalega af öllu því sem er að gerast á heimaslóðum áður en mamma hefur tækifæri til þess að segja mér frá því, þökk sé Facebook.  Stundum þegar mamma ætlar að segja mér frá fæðingu nýs barns í fjölskyldunni get ég sagt henni hverjum barnið líkist, þar sem ég hef þá þegar séð það á Facebook.“

Móðir Sigrúnar er nýfarin á eftirlaun eftir að hafa kennt á píanó í 53 ár, fyrst við Tónlistarskólann í Keflavík og síðar í Reykjanesbæ. Hún spilaði einnig undir hjá nær öllum kórum og einsöngvurum svæðisins og fór Sigrún oft með mömmu sinni í vinnuna. „Stór hluti míns tónlistaruppeldis fór fram á þessum óformlegu nótum og það hjálpar mér í mínu starfi í dag.  Ég þarf að geta útsett, raddsett, samið og stjórnað á svakalega miklum hraða og þá eru það aðallega eyrun mín og tilfinning fyrir röddunum sem ég nýti mest.“ Sigrún segist eflaust hafa fengið þessa tilfinningu fyrir röddum þegar hún sat í fanginu á pabba sínum, Sævari Helgasyni, í Karlakór Keflavíkur, frekar en í tónfræðitímum, þó þeir hafi eflaust hjálpað eitthvað líka.

[email protected]