Í tónlist geta allir unnið saman
Hógvær en framtakssamur bæjarlistamaður.
Tónlistarmaðurinn og -kennarinn Halldór Lárusson er bæjarlistamaður Grindavíkur í ár. Hann kennir á trommur í Garði og Sandgerði en aðallega þó í heimabænum Grindavík.
Heiðurinn kom á óvart
Valið á bæjarlistamanninum kom Halldóri vægast sagt á óvart og hann hélt fyrst að um grín væri að ræða. „Maður er vanur því að bæjarlistamenn séu rithöfundar, rótgrónir listmálarar eða eitthvað virðulegra og háæruverðugra en trommari. Þetta var því mikill heiður og mjög gaman að þessu,“ segir Halldór og aðspurður telur hann rökin fyrir heiðrinum líklega þau hversu virkur hann hafi verið og staðið að mörgum viðburðum í bænum. „Ég hef kannski verið svona pínu áberandi. Þetta er líf mitt og starf, ég er alltaf að vasast í einhverju svona.“
Viðurkenning fyrir alla trommara landsins
Halldór segir að honum hafi þótti vænt um þegar hann hitti fólk á förnum vegi eftir nafnbótina. „Fólkið var svo innilega ánægt með þessa ákvörðun og óskaði mér til hamingju. Það var eiginlega svona stærsti bónusinn, mjög gaman að því. Ég var heillengi að bögglast með hvernig ég ætti að díla við nafnbótina og það var áskorun því ég er ekki vanur svona.“ Einnig segir hann trommara víða á Íslandi hafa tekið viðurkenninguna dálítið til sín. „Trommarar á Íslandi halda dálítið hópinn, hittast og borða saman. Þetta er í fyrsta skipti sem við vitum um að trommari hefur hlotið slíka nafnbót eða heiður. Trommarar landsins eiga því alveg sinn hlut í þessu.“ Einnig segir hann þetta jafnvel í leiðinni hvatningu til annarra sveitarfélaga um að hægt sé að heiðra alþýðulistamenn því nútímalist liti samfélagið og snerti það allt. „Þó að sveitarfélög móti einhverjar stefnur og séu með einhverja flotta og fína pappíra þá er það samt fólkið í bænum sem skapar menninguna. Þó að allt hitt sé auðvitað mjög virðingarvert,“ segir Halldór.
Vinn við það sem er skemmtilegast
Eins og áður hefur komið fram er Halldór alltaf með eitthvað á „kjuðunum“. „Ég fæ sífellt nýjar hugmyndir og er líka með fullt af fólki til að taka þátt í að hrinda þeim í framkvæmd. Yfirleitt er það þannig að ég sit heima og segi við konuna mína: Heyrðu, ég var að fá asskoti góða hugmynd. Þá segir hún: Æ, nei, ekki eina enn,“ segir hann hlæjandi og bætir við að í raun geti hann ekki verið rólegur og finnst hann alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. „Ég starfa við að kenna á trommur. Í rauninni vinn ég við það sem mér finnst skemmtilegast að gera og er búinn að finnast það síðustu 39 árin.“
Vínylplatan sem breytti öllu
Halldór segir upphafið að ferlinum ekki hafa hafist á svipaðan hátt og hjá mörgum trommurum, sem börðu með sleifum í potta og pönnur. „Það var ekki alveg þannig. Ég heyrði ákveðna tónlist þegar ég var 12 ára gamall. Það var hljómplatan Red með hljómsveitinni King Crimson. Ekki beint léttmeti sú tónlist. Bróðir minn kom heim með plötuna og þegar ég heyrði fyrsta lagið vissi ég hvað ég ætlaði að gera í lífinu.“ Hann segir að andartakið hafi verið greipt svo fast í sig að ekki var aftur snúið. „Það var ekki bara trommuleikurinn sem heillaði mig, heldur tónlistin. Ég byrjaði á að fá lánað eitthvað trommusett og byrjaði svo að djöflast á því. Þrátt fyrir að vera töluvert lattur til að leggja þetta fyrir mig því hljóðfærið er afar hávaðasamt. En ég var bara svo einarður í þessu að þetta var bara einstefna.“
Tónlistarmenn án fordóma
Halldór hefur starfað víða um heim og bjó lengi erlendis. „Mig langaði að starfa með fólki frá öðrum heimshornum og ég gerði það í fimm ár. Bjó lengst af í Hollandi og ferðaðist þaðan um Evrópu. Mjög gaman og góð reynsla.“ Hann hafi öðlast mikla þekkingu og kynnst fólki frá öðrum menningarheimum, s.s. V-Afríku, Indónesíu, Ghana, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Hollandi. Af öllum sem Halldór hefur unnið með segir hann að best hafi verið að vinna með manni frá Gíneu sem hét Seydouba Soumah. „Við unnum saman þau ár sem ég bjó í Hollandi. Við þurftum aldrei að tala saman, heldur horfðum bara hvor á annan og vissum alltaf hvað við áttum að gera.“ Seydouba var Kora-leikari, en það er 25 strengja hljóðfæri sem er millistig á milli gítars og hörpu. „Við hittumst á einhverju tónlistarlegu plani sem ég hafði aldrei kynnst áður. Þessi maður var mikils metinn í sínu heimalandi, einu af fátækustu ríkjum heims, og var oft að spila í sjónvarpinu.“ Ef einhverjir þjóðhöfðingjar komu til Gíneu var hann alltaf beðinn um að spila og hafði ferðast um nær allar heimsálfurnar. „Það situr alltaf í mér það sem hann sagði um að hvert sem hann kom fann hann aldrei fyrir kynþáttahatri af hendi annars tónlistarmanns. Í tónlist geta allir unnið saman frá ólíkum menningarheimum. Þar mætirðu aldrei fordómum því tónlist sameinar,“ segir Halldór.
Allir eru fyrirmyndir á einhvern hátt
Ef Halldór væri ekki trommari segir hann líklegt að hann hafi getað orðið sellóleikari því selló sé æðislegt og dramatískt hljóðfæri. Hann segist ekki eiga sér eina stóra fyrirmynd í tónlistarheiminum. „Ég verð alltaf fyrir áhrifum frá þeim sem ég hlusta á þá stundina. Hvort sem þeir eru góðir eða síðri tónlistarmenn. Ég tek eitthvað inn þannig að allir tónlistarmenn eru á einhvern hátt fyrirmynd.“ Hann segir trommuleikara vera á einhvern hátt þannig að þeir eru bara á bakvið eitthvað trommusett og fáir viti hverjir þeir séu. „Það finnst mér voða þægilegt og er ekkert mikið að trana mér fram. Ég bara nýt þess í hvert sinn að spila.“
VF/Olga Björt