Mannlíf

Í suðupotti popptónlistar í Boston
Sunnudagur 14. september 2014 kl. 09:00

Í suðupotti popptónlistar í Boston

Þorvaldur Halldórsson trommari Valdimar

Þorvaldur Halldórsson trommari ákvað að feta í fótspor félaga sinna í hljómsveitinni Valdimar og söðla um á erlendri grundu. Hann stundar nú nám við Berklee College of Music í Boston borg. Þorvaldur hefur lært á trommur frá unga aldri og kennt ungviðinu á Suðurnesjum trommuleik frá því hann var 19 ára gamall. „Ég var frekar ungur þegar ég var farinn að skríða inn í pottaskápana heima og berja á potta og pönnur. Síðar hóf ég nám í tónlistarskólanum í Garðinum þar sem ég lærði á píanó,“ segir Þorvaldur sem fljótlega skipti yfir á trommurnar, þá níu ára gamall. „Vinur minn var að læra á trommur og var með trommusett heima hjá sér. Mér fannst það afskaplega spennandi. Þegar ég sá svo hljómsveitir í sjónvarpinu þá fannst mér trommarinn alltaf vera flottastur. Trommarinn dregur að sér athygli þar sem hann er umkringdur græjum og dóti.“

Nágranni opnaði gluggann þegar Þorvaldur fór að spila

Þorvaldur fékk svo trommusett í fermingargjöf og eftir það var ekki aftur snúið. Hann fékk herbergi á æskuheimilinu undir settið og þar hamaðist hann við að berja húðirnar. „Nágrannarnir hafa ekki ennþá kvartað yfir látunum. Ein vinkona mömmu sem var nágranni okkar sagðist alltaf opna gluggann þegar ég byrjaði að æfa mig, þannig að það er ágætis hrós.“ Sem unglingur var Þovaldur ekki beint í hljómsveitum en þegar trommusettið var fært inn í bílskúr þá fóru vinirnir að kíkja í heimsókn og spila á hljóðfæri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bjóst ekki við að Valdimar yrði svona langlíf hljómsveit

Trommarinn er yngstur í hljómsveitinni Valdimar en það er fyrsta alvöru hljómsveitin sem Þorvaldur hefur verið í. „Ég þekkti Valda úr tónlistarskólanum þar sem við spiluðum með léttsveitinni og lúðrasveitinni. Hann hafði haft orð á því að við myndum enda saman í hljómsveit einn daginn. Eftir að þeir Ásgeir ákváðu svo að stofna hljómsveit þá höfðu þeir samband við mig,“ segir Þovaldur um það hvernig hann endaði í hljómsveitinni Valdimar. Hljómsveitin á fimm ára starfsafmæli um þessar mundir og þriðja platan er á leiðinni núna í október. „Ég bjóst ekki við því að þetta yrði svona langlíft og að þrjár plötur kæmu út. Okkur finnst samt eins og við séum rétt að byrja. Fyrsta platan var frekar tilraunakennd enda var ekki alveg sami mannskapur í hljómsveitinni og núna. Þannig að mér finnst eins og platan sem er að koma út sé okkar önnur plata með þessum mannskap.“

Náum vel saman þrátt fyrir mismunandi tónlistarsmekk

Þorvaldur segir erfitt að skilgreina tónlistina sem Valdimar spilar. „Spekingarnir tala um indie popp-rokk með einshvers konar djass áhrifum. Annars veit ég aldrei hvað ég á að segja þegar ég er spurður um það sem við erum að gera,“ segir hann kíminn. „Við erum frekar rólegir og ekki mikið rokk og ról líferni á okkur. Við erum allir frekar ólíkir hvað varðar tónlistarsmekk og hlustum á mjög misjafna tónlist. Mikið af þessari tónlist sem Valdi og Ásgeir eru að hlusta á hef ég aldrei heyrt, og líklega er það öfugt líka. Því finnst mér það sérstakt hvað við náum vel saman að búa til músík þó svo að við hlustum á mismunandi tónlist,“ segir trommarinn.

Hljómsveitin Valdimar hefur þróað með sér sérstakt „sánd“ þrátt fyrir að erfitt sé að setja fingur á hvað skuli kalla það. „Mér finnst nýja platan bera keim af Undralandi sem var okkar fyrsta plata,“ segir Þorvaldur. Hann segir að aldrei sé tekin meðvituð ákvörðun um hvort ætlunin sé að gera hressa eða rólega plötu. „Allir koma með eitthvað í púkkið og platan þróast eftir veðri og vindum. Ásgeir og Valdi eru þó helstu lagahöfundar og leggja í raun línurnar af því hvernig platan mun hljóma. Við höfum oft grínast með það hve sjaldan það koma upp rifrildi eða leiðindi. Við erum oft mjög sammála þegar við erum að búa til tónlist.“

„Planið er alltaf að koma heim aftur en maður veit aldrei hvað gerist, þetta er svo stór heimur þarna úti“

Þorvaldur hefur undanfarið haldið til í Boston þar sem hann stundar nám við Berklee College of Music. Garðbúinn segir að skólinn sérhæfi sig í popptónlist en þar stundar hann framhaldsnám í slagverki og trommuleik. Um er að ræða fjögurra ára háskólanám en Þorvaldur fékk eitt ár metið sökum fyrri reynslu. Þorvaldur segir námið vera fjölbreytt og spennandi þar sem hann lærir um hinar ýmsu hliðar tónlistarinnar. Hann segist geta séð fyrir sér að reyna fyrir sér erlendis. „Planið er alltaf að koma heim aftur en maður veit aldrei hvað gerist, þetta er svo stór heimur þarna úti. Þessi skóli er hálfgerður suðupottur fyrir popptónlist í Bandaríkjunum. Það er aldrei að vita nema maður verði heppinn og eitthvað detti upp í hendurnar á manni.“ Kærasta Þorvaldar er einnig að hefja nám í Boston og líkar þeim lífið í borginni. „Mér finnst Boston frábær borg. Hún er ekki of stór og ekki of lítil. Það er líka stutt að fara heim ef svo ber undir.“

Gluggað í námsbækur í Boston.

Íslendingar framalega í tónlistinni

Allt frá 19 ára aldri hefur Þorvaldur verið að kenna á trommur. Fyrst í Garðinum og síðar í Reykjanesbæ. Sem tónlistarkennari hefur Þorvaldur umgengist efnilega unga tónlistarmenn. Hann telur að Íslendingar séu framarlega á merinni þegar kemur að tónlist. „Svona ef við miðum okkur við önnur lönd þá eigum við mikið af ungum og góðum hljómsveitum sem hafa verið að fá góða dóma og vakið athygli. Það virðist vera eitthvað við íslenska tónlist sem útlendingum þykir voðalega flott. Það er erfitt að benda á hvað það er. Sumir hafa bent á það að við séum einangruð hér og því ríki töluvert frelsi fyrir unga tónlistarmenn að gera það sem þeim sýnist. Það er enginn að setja þig í einhvern farveg sem þú þarft svo að fylgja. Það eru margar frábærar hljómsveitir á Íslandi að mínu mati.“

Þorvaldur er ánægður með nýtt húsnæði tónlistarskóla Reykjanesbæjar og telur hann að það geti orðið til þess að fleiri góðir tónlistarmenn geti vaxið úr grasi á Suðurnesjum. „Ég man þegar ég var að kenna að það var alltaf biðlisti eftir því að komast að læra á trommur. Oft þurfti maður að sía út þar sem aðsóknin var svo mikil, það er bara jákvætt. Ég tók reyndar eftir því að það kemur yfirleitt að þeim tímapunkti þar sem krakkar þurfa að velja á milli íþrótta og tónlistaskóla þar sem erfitt er að sinna báðu af fullum þunga. Námið verður strembnara eftir því sem líður á. Þegar ég var 13 ára þá þurfti ég að velja á milli þess að halda áfram í fótbolta eða læra á trommurnar. Ég efast um það ég væri fótboltamaður í dag hefði ég valið þá braut,“ segir Þorvaldur að lokum og hlær.