Í samstarf við Bestu vini í bænum – Vertu með!
– Leikfélag Keflavíkur og Gargandi snilld
Leikhópurinn Bestu vinir í bænum sem sett hefur upp frábærar leiksýningar á listahátíðinni List án landamæra s.l. ár mun ekki láta sitt eftir liggja í ár heldur hyggur á samstarf við Leikfélag Keflavíkur og Gargandi snilld. Það eru þær Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir, sem báðar eiga frækinn feril hjá Leikfélagi Keflavíkur, sem sjá um leikstjórn. Hugmyndin er að setja saman fjölskylduleikrit byggt á ýmsum þekktum ævintýrum og verður það sýnt helgina 25. og 26. apríl nk.
Þátttaka í verkefninu er öllum opin og nú er leitað eftir fjölbreyttum hópi fólks til þátttöku. Leitað er að leikurum, söngvurum, sviðsmönnum, förðunarfólki og öllum þeim sem áhuga hafa á að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.
Kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 19. febrúar kl. 17 í húsnæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum í Krossmóa 4 og eru allir forvitnir hvattir til að líta við og kynna sér málið.
Nánari upplýsingar veita þær Guðný og Halla Karen í s. 869-1006 og 690-3952.