Í öllum regnbogans litum
Það hefur verið líflegt listalíf í Sandgerðisbæ á þessu ári í sýningarsal Listatorgs. Nú um helgina opnar Magnea Lynn Fisher sýningu, sem hún kýs að kalla eftir regnboganum því litríkar myndir hennar munu prýða veggi.
Magnea byrjaði að mála með akríl sem barn og með olíu rétt um 17 ára aldur en hún notar einnig steypu og perlufylli á striga, sem hún málar svo yfir. Magnea Lynn, sem einnig kallar sig Sissý er að mestu sjálfmenntuð en tók þó nokkur námskeið í baðstofunni hérna áður fyrr.
„Ég mála af því að mér finnst það skemmtilegt og róandi en þetta er líka einhvers konar þörf. Ef ég hef ekkert málað í nokkurn tíma þá líður mér ekki nógu vel og finn aftur þörf til að fara að skapa eitthvað,“ segir Magnea.
„Ég hef t.d vaknað upp með hugmynd um miðja nótt og byrjað að mála þá mynd strax. Stundum þegar ég byrja að mála mynd þá á ég erfitt með að stoppa fyrr en myndin er alveg tilbúin. Mér finnst tíminn líða hratt þegar ég er að mála, það er eins og maður detti inn í annan heim. Ég helli mér upp á gott kaffi og byrja að mála en ég nota ekkert endilega tónlist til að kveikja í mér en stundum er það ágætt. Mér finnst samt betra að mála í ró og næði. Myndirnar sem ég ætla að sýna í Listatorgi eru bæði olía og akríl á striga, svo er ég með nokkrar þar sem ég nota steypu og olíu á striga. Þarna verða englamyndir, kaffibollamyndir og fleiri mismunandi verk. Ég er ekki föst í neinu einu þema eða jú kannski í litunum, bjartir fallegir litir standa mest uppúr“, segir hún að lokum og vonast til að sjá sem flesta.
Allir eru hjartanlega velkomnir á opnun sýningarinnar laugardaginn 20. mars frá klukkan 13-17 í Listatorgi en sýningin stendur yfir frá 20. mars til og með sunnudagsins 28. mars. Opið er alla daga í Listatorgi frá klukkan 13-17.