Í gleðinni erum við tilbúin í allskonar
– segir Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, sem var nýlega ráðin leikskólastjóri á leikskólanum Holti í Reykjanesbæ, en hún telur að gjaldfrjálsir leikskólar komi til með að lyfta faglegu starfi þeirra á hærri stall.
Hólmfríður er að norðan, hún kemur frá Grenivík við Eyjafjörð og lagði stund á leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri. Hún kynntist eiginmanni sínum, Hannesi Jóni Jónssyni, þegar hann þjálfaði meistaraflokk Reynis en hann er umsjónarmaður fasteigna hjá Suðurnesjabæ í dag.
Hólmfríður starfaði sem skólastjóri Sandgerðisskóla en saknaði leikskólastarfsins og ákvað að snúa aftur í leikskólann. Hún sótti um starf leikskólastjóra og tók við stjórn leikskólans Holts nú í vor. Víkurfréttir ræddu við Hólmfríði um starfið með börnum og þá framtíðarsýn sem hún hefur í leikskólamálum.
Langaði að breyta til
„Við bjuggum í fimm ár í Sandgerði og ég var skólastjóri þar. Svo langaði mig að breyta til og fór í pólitíkina, þá er maður farinn að hugsa sér til hreyfings þannig að ég hugsaði: „Mig langar að fara að gera eitthvað annað en að vera skólastjóri.
Þannig að ég sótti um starf í Háskóla Íslands og fékk það. Nú bý ég í Keflavík þannig að ég var að keyra á milli. Það átti ekki við mig. Mér fannst ég bara vera að eyða tíma við það að sitja undir stýri. Mér finnst alveg gaman að keyra, er gömul björgunasveitamanneskja og við vorum mikið að keyra um öll þessi ár sem maður var þar. Fara í einhverjar leitir um allar trissur fyrir norðan. Ég hef mikið keyrt, var t.a.m. að kenna í Háskólanum á Akureyri meðan ég bjó á Grenivík. Þetta var samt ekkert fyrir mig, að keyra brautina á hverjum einasta degi.“
Að loknu leikskólanámi fór Hólmfríður nánast beint í leikskólastjórastöðu í nýstofnuðum leikskóla á Akureyri en eftir að hafa unnið í eitt ár í leikskólaumhverfinu ákvað hún að bæta við sig grunnskólakennanáminu.
„Ég fór í grunnskólann því ég átti tvö börn í leikskóla og hugsaði með mér að ég ætlaði bara að sinna mínum börnum eftir vinnudaginn. Svo hefur mig langað að fara aftur í leikskólann, kannski af því að grunnskólinn er svo mikið að gleypa til sín leikskólakennarana. Ég fann það núna þegar ég var að skipta um starf að mig langaði ekki að fara aftur í grunnskóla. Ég var södd af því og hugsaði með mér að tækifærin eru í leikskólanum, í frelsinu og vinnu með ungum börnum sem er svo opin, einlæg og einhvern veginn til í allt – og ég var ótrúlega heppin að hafa fengið þetta starf. Þetta er bara draumastarfið mitt.“
Draga fram kraftinn, seigluna og þrautseigjuna
Ég ákvað að breyta til núna í janúar og sótti um leikskólastjórastöðuna í Holti. Ég vildi bara fara í þennan tiltekna leikskóla af því að hann fylgir stefnunni sem ég aðhyllist í leikskólamálum. Ég fékk stöðuna og byrjaði hérna í hlutastarfi í apríl og svo í fullu starfi 1. maí. Þannig að ég er búin að vera mjög stutt hérna.“
Stefnan sem Hólmfríður aðhyllist er kennd við Reggio Emilia á Ítalíu og á bak við hana er mjög barnamiðuð hugmyndafræði. „Allt leikskólastarf er það náttúrulega en oft er talað um að þessi stefna byggi á því að börn hafi hundrað mál, sem sagt hundrað aðferðir til að tjá sig, og það sé gjarnan skóli, menning og samfélagið sem taki af þeim hvert málið á fætur öðru og geri þau í raun eintóna eða einmála,“ segir Hólmfríður. „Og það er í raun eitthvað sem við viljum forðast. Við viljum halda sem lengst í sköpunarkraftinn, hugmyndir þeirra og þessa barnslegu sýn þeirra á veröldina.“
Hólmfríður segir að hugmyndafræði stefnu Reggio Emilia taki mið af menningunni á hverjum stað og á Ítalíu séu það gjarnan skúlptúrar, listaverk og annað. „Hérna á Íslandi myndi ég segja að það væru þulur, sögur og ljóð – og líka auðvitað þessi myndlist og í raun allt sem snýr að sköpun.“
Þannig að þið eruð svolítið að reyna að halda í menningararfinn hérna með þessu?
„Já, þetta snýst svolítið um það. Það er líka hugmyndafræðin og tungumálið, það er hægt að tjá sig á marga vegu en tungumálið er svo dýrmætt. Að vera fær og leikinn í að nota tungumálið. Sem dæmi voru nemendur hérna að taka skimunarprófið Hljóm- 2, sem er til að kanna hljóðkerfis- og málvitund barna barna og sjá hversu reiðubúin þau eru fyrir lestrarnám. Öll börnin hérna á efsta ári eru í tveimur efstu þrepunum. Það er mjög gott.
Þau eru að fara héðan með ótrúlega mikið í bakpokanum upp á næsta skólastig. Þannig viljum við hafa það – örva þau, styðja og að þau þroskist sem mest hérna hjá okkur.“
Svo fara þau héðan í kassann sem grunnskólinn er.
„Já, sumir myndu segja það. Það var þannig en grunnskólinn er svo mikið að breytast – og er búinn að breytast,“ segir Hólmfríður. „Ég segi til dæmis að þeir grunnskólar sem eru með hugmyndafræði byrjendalæsis taka vel á móti okkar nemendum. Það er svolítið eins og þetta, fjölbreyttar aðferðir og þeir kennarar sem fara í gegnum tveggja ára nám í byrjendalæsi fá fullt af verkfærum, tólum og allskonar leiðum til að mæta nemendum út frá þeirra áhuga. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við vitum það öll að ef við höfum ekki áhuga á einhverju þá er miklu erfiðara að tileinka sér það eða læra. Þess vegna er svo mikilvægt að börn fáist við áhugaverða hluti, að við þekkjum þau og vitum áhugamálin þeirra og hvað þeim finnst skemmtilegt. Þá dregur maður fram kraftinn, seigluna og þrautseigjuna með þeim og kennir þeim að nýta sér það sem er áhugavert. Áhugann er svo hægt að yfirfæra svo ótrúlega víða. Þetta snýst um að hefja leikinn eða starfið á einhverju sem þau hafa áhuga á og síðan læra þau smámsaman að yfirfæra það á eitthvað annað,“ segir leikskólastjórinn og það má heyra á ákefðinni í máli hennar að þetta er henni hjartfólgið.
Hólmfríður segir að þegar börnin hafi gaman að því sem þau eru að fást við þá eru þau frekar til í að prófa nýja hluti. „Í gleðinni erum við tilbúin í allskonar,“ segir hún og bætir við að aðferðafræði bæði Reggio Emilia og byrjendalæsis sé mjög einstaklingsmiðuð og horfi til einstaklingsins, áhugasviðs hans og getu og byggi svo ofan á það sem einstaklingurinn býr yfir. „Svo erum við alltaf að hvetja börnin til að fara aðeins lengra, aðeins út fyrir þægindarammann. Ekki þannig að þú verðir óöruggur og takir of stór skref og hrökklist til baka heldur aðeins að kanna og prófa. Þess vegna þarf allt það sem þau eru að fást við að vera pínulítið ögrandi, ekki ofar þeirra getu en allt að því.
Fólk rís undir ábyrgð og ef börn fá tækifæri og svigrúm til að taka þátt, eins og með hugtakið lýðræði, ef börnin fá að taka þátt eða hugmyndir þeirra eru virtar, verkin þeirra séu til sýnis upp á veggjum – allt þetta eykur sjálfstraust og styrkir sjálfsmyndina. Þetta er svo hollt og gott fyrir börn – og þau eru svo hugmyndarík.“
Fylgjandi gjaldfrjálsum leikskóla
„Nú er ég að koma aftur í leikskólann og eins og ég nefndi áðan þá er grunnskólinn svolítið að gleypa leikskólakennara, sem mér finnst algjör synd því þetta starfsumhverfi er alls ekki síðra. Það er einhver mýta í gangi að það sé miklu þægilegra að vinna í grunnskólum – en ég myndi vilja sjá breytingar í leikskólaumhverfinu því það er erfitt að manna stöður, ekki bara hér heldur um allt land. Það er allstaðar erfitt að manna leikskólana, kannski síst á Akureyri þar sem Háskólinn á Akureyri er með leikskólakennaranámið. Þar er held ég mesta og besta mönnunin á leikskólum, eiginlega flestallir faglærðir, en hér er erfitt að ná í fagfólk – og þó það sé að fjölga í leikskólakennaranáminu þá virðist það ekki skila sér út í leikskólana. Það er eins og fólk fari að vinna við eitthvað annað og ég skil það, þetta er frábært nám og fólk sem er að útskrifast sem leikskólakennarar í dag er með fjölþætta menntun og getur í raun unnið við ótrúlega margt – en ég myndi vilja fá leikskólakennarana aftur vegna þess að það er verið að bæta umhverfið í leikskólum og ég held að ef við tökum skrefið að gera leikskólana gjaldfrjálsa geti það verið gæfuspor fyrir leikskólana,“ segir Hólmfríður en það hefur verið í umræðunni að gera dvölina á leikskólum gjaldfrjálsa.
„Það er talað um sex tíma til að byrja með, ég á reyndar eftir að kynna mér af hverju sex tímar, hvort það sé verið að reyna að stýra því að stytta daginn hjá börnunum en ég vil ekki meina að það sé vinnudagur fyrir börn að vera í leikskóla. Ég vil ekki meina það því starf leikskólans er gjarnan bara leikur. Í leikskólanum fá börnin svigrúm, næði og skjól til þess að vera í leik – og þau læra í gegnum leikinn. Hér eru þau í rólegheitum, fá að þroskast á sínum hraða í umhverfi með jafnöldrum og fullorðnum sem eru að hlúa að þeim. Auðvitað eru kjöraðstæður barna hjá foreldrum sínum og leikskólinn er alltaf bara viðbót við það.“
Hólmfríður segir jafnframt að gjaldfrjáls leikskóli muni bæta faglega starfið. Þó svo að leikskólarnir séu einsetnir hafi svolítið verið eins og þeir séu tvísetnir. Það hafi verið hópastarf fyrir hádegi og svo aftur eftir hádegi. „Ég myndi vilja vera með þyngdina í þessu faglega, skipulagða hópa-starfi og smiðjum fyrir hádegi. Eftir hádegi væri meira svigrúm fyrir frjálsan leik, stöðvavinnu og annað slíkt, það sem er minna krefjandi fyrir börnin því þau eru kannski orðin lúin þegar líður á daginn. Þá er þetta líka meira í takt við það sem er gert í grunnskólunum, þar sem kennslan er til eitt eða tvö á daginn og þá tekur frístundin við, þar sem er meiri frjáls leikur og annað slíkt.
Þarna er ég ekki að segja að það sé verið að veita afslátt af faglegu starfi, heldur sé þunginn fyrri part dags þegar börnin eru best upp lögð og svo sé meira flæði og frjálsræði sem taki við.“
Hólmfríði finnst í lagi að leikskólinn sé átta tímar á dag því annars þurfa foreldrar að standa í einhverjum skammtímareddingum ef hann er styttri. „Þeir eru vissulega komnir með styttingu vinnuvikunnar þannig að foreldrar ættu að eiga hægara um vik að stilla vinnuvikuna sína þannig af að þau geti sótt börnin sín fyrr af leikskólanum og varið þannig meiri tíma með þeim. Við þurfum líka að hugsa um samfélagið, að við þurfum að hægja aðeins á. Við þurfum að hægja á okkur og að ég tali ekki um foreldra ungra barna, þeir verða bara að forgangsraða hlutunum þannig að það sem er gert sé hægt að gera með börnunum og tíminn sem þú verð með þeim sé öllum í fjölskyldunni til góða. Það er ekkert að því að bara vera, það þarf ekki alltaf að vera eitthvað prógram í gangi. Samvera ein og sér er líka góð.“
Vinnustyttingin er mikið púsluspil
Þó samvera sé góð segir Hólmfríður að það sé líka mikilvægt að gera eitthvað með börnunum; „eins og að spila og lesa. Ég myndi vilja sjá að það sé alltaf lesið heima alla daga og alltaf séu orð og athafnir að spila saman. Ég sá það sem stjórnandi í grunnskóla og maður heyrir það á unglingunum að þeirra orðaforði er ekkert mikill. Hann er það ekki og það er algjör synd.
Það er ekkert bara íslenskan heldur tjáningin. Með orðunum erum við að fá fleiri leiðir til að tjá okkur og við þurfum að halda þessum hundrað málum áfram. Við þurfum að viðhalda þeim þannig að börn séu með fullt af leiðum til þess að tjá sig. Sum börn þurfa að nota myndrænar leiðir, tákn með tali eða annað slíkt. Hafa orð yfir tilfinningar, yfir það sem þau langar að gera o.s.frv. Það dregur úr kvíða, skapofsaköstum og öðru slíku hjá börnum ef þau geta tjáð sig um það sem þau þurfa, vilja og langar. Það er svo mikilvægt og það erum við að leggja mikla áherslu á hérna í leikskólanum, að börn fái fullt af leiðum til að tjá sig og geti tjáð sig á ótal vegu.“
Þau eru 105 börnin á sex deildum sem eru í leikskólanum á Holti og Hólmfríður segir að leikskólinn sé ágætlega mannaður. „Hér er algjörlega frábær starfsmannahópur og um helmingur þeirra er annað hvort menntaðir leikskólakennarar eða í námi að verða leikskólakennarar. Reyndar er einn í þroskaþjálfanámi og svo er uppeldis- og menntunarfræðingur hjá okkur og líka B.S. í sálfræði. Þannig að við erum mjög heppin og ég get ekki kvartað yfir því.“
Hólmfríður segir að hún sé búin að ráða inn og gera allt klárt fyrir starfið næsta vetur og hún er mjög ánægð með hópinn sem verður þá.
Það sem háir leikskólastarfinu helst í dag er vinnustyttinga. „Hjá okkur er vinnustyttingin hálf, það þýðir að hver starfsmaður á rétt á að vera frá vinnu einn dag í mánuði, þannig útfærum við þetta hér. Þar sem er full vinnustytting eru tveir dagar í mánuði og þetta er ofboðslega mikið púsluspil hjá 34 starfsmönnum eins og eru hér.
Allir fá einn dag í mánuði og sumir dagar eru vinsælli en aðrir og við lendum í svakalegri klípu þegar upp koma veikindi í ofan-álag. Við höfum þurft að loka deildum hjá okkur, ég held að við höfum þurft að loka öllum deildum tvisvar sinnum í vetur.
Það sem ég myndi vilja sjá gerast er að við reynum að samræma skóladagatalið í leik- og grunnskólum, að þessir vinnstyttingardagar séu í dymbilviku, milli jóla og nýárs, að það sé sambærilegt haust- og vetrarfrí í leikskólum og grunnskólum. Það myndi létta mikið á leikskólunum ef við þyrftum ekki að hugsa svona mikið um þessa vinnustyttingu, ef það væri ekki alltaf einhver starfsmaður í fríi. Við ættum að geta keyrt leikskólann á 100% mönnun allt skólaárið. Leikskólarnir hér loka í fimm vikur á sumrin, það finnst mér frábært hjá Reykjanesbæ, og þá er öllum leikskólum lokað á sama tíma.“
Þegar við spyrjum Hólmfríði út í leikskólastarfið í bænum segir hún að þar standi Reykjanesbær mjög framarlega. „Það er eitt sem má segja um leikskólana í Reykjanesbæ, þetta eru allt flottir leikskólar. Ég man eftir því öll mín ár fyrir norðan að það var litið til leikskólanna í Reykjanesbæ með virðingu, hér er flott starf unnið og metnaðarfullt – og ég hef alveg fundið það, þegar ég er að heimsækja leikskóla og tala við leikskólakennara og leikskólastjóra, að hérna er mjög metnaðarfullt starf í gangi. Hér í Reykjanesbær er mikill kraftur og sköpun enda samfélagið fjölmenningarlegt og ríkt af alls konar skapandi starfi,“ sagði leikskólastjórinn að lokum.