Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Í gegnum glerþökin“ yrði titillinn á ævisögunni
Laugardagur 22. október 2016 kl. 10:42

„Í gegnum glerþökin“ yrði titillinn á ævisögunni

- Oddný Harðardóttir, 1. sæti á lista Samfylkingar

Hvers vegna ákvaðst þú að fara í framboð?
Ég fór í framboð vorið 2009 vegna þess að ég var viss um að ég gæti gert gagn við endurreisnina eftir hrun og mér fannst afar mikilvægt að við tækjum á þeim vanda með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi.

Hvað vilt þú sjá gerast á Suðurnesjum á næsta kjörtímabili?
Ég vil sjá Heilbrigðisstofnunina öflugri og Fjölbrautaskóla Suðurnesja vaxa og dafna bæði faglega og einnig að viðbygging með aðstöðu fyrir nemendur verði að veruleika. Ég vil sjá tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Fitjum að flugstöðinni og uppbyggingu á mörgum sviðum svo að við getum tekið vel á móti auknum fjölda ferðamanna, bæði í flugstöðinni og annars staðar á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hverja telur þú möguleika þíns framboðslista í kjördæminu í kosningunum í lok mánaðarins?
Ég vona að formaður Samfylkingarinnar verði á þingi á næsta kjörtímabili. Ég held að það sé bæði mikilvægt fyrir Suðurnesin og Samfylkinguna. Til þess þurfa fleiri að kjósa flokkinn en gefa sig upp í könnunum og ég bið hér með um þann stuðning.

Hvað færð þú þér oftast í morgunmat?
Hafragraut með banönum.

Hvar lætur þú klippa þig?
Hjá henni Bryndísi Knútsdóttur á hárgreiðslustofunni Kamillu í Garðinum.

Uppáhalds útvarpsmaður?
Óðinn Jónsson.

Hver væri titill ævisögu þinnar?
Í gegnum glerþökin.

Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar?
Já – og miklu frekar en í Hvassahrauni.

Fallegasti staður á Suðurnesjum?
Garðskagi.

Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið?
Ég hef tekið þær margar góðar. Ein þeirra var að fara í Kennaraháskólann. Þar kynntist ég krökkum sem eru enn mínir bestu vinir og þar hitti ég líka hann Eirík minn.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Að sitja við hliðina á manni sem prumpaði mjög hátt í þögn á sinfóníutónleikum í kirkju í London. Hljómburður var sérlega góður og við sátum á svölum fyrir ofan hljómsveitina og fimmtán hundruð tónleikagestir sem sátu niðri litu allir upp og ásakandi á mig.

Dagblað eða net á morgnana?
Hvoru tveggja.

Sameinuð sveitarfélög á Suðurnesjum eða áfram eins og nú?
Sameinuð, en ef ekki þá þéttara samstarf en nú.