Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Í Eldhúsinu: Súkkulaðisæla
Sunnudagur 21. október 2012 kl. 10:37

Í Eldhúsinu: Súkkulaðisæla

María Skagfjörð Illugadóttir er stödd Í Eldhúsi Víkurfrétta að þessu sinni en hún er 22 ára Keflavíkurmær sem leggur stund á sálfræði við Háskóla Íslands. Maríu finnst ótrúlega gaman að elda og hefur verið móður sinni innan handar við að elda kvöldmatinn síðustu árin. Þessi dægrin býr hún með vinkonu sinni og eru þær stöllur duglegar að skipta með sér verkum við eldamennskuna.

Þegar María er spurð að því hvað verði oftast fyrir valinu er hún tekur fram potta og pönnur þá segir hún að kjúklingurinn sé afar vinsæll. „Mér finnst kjúklingur mjög góður, þannig að kjúklingaréttir verða oft fyrir valinu. Annars finnst mér líka gaman að skoða uppskriftir og prufa eitthvað nýtt,“ segir María. Uppskriftin sem hún ætlar að deila með lesendum er girnileg súkkulaðikaka sem klikkar aldrei að hennar sögn. „Ég fékk þessa uppskrift hjá frænku minni sem er snilldarkokkur. Ég smakkaði þessa köku fyrst hjá henni og hún hefur verið bökuð margoft á mínu heimili síðan og klikkar aldrei.“
Uppskriftin:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Súkkulaðikaka

200 g smjör
200 g sykur, þeytt létt og ljóst
3 egg sett út í, eitt og eitt í einu og hrært vel á milli
200 g hveiti
1 kúfuð tsk lyftiduft
vanilla (smá dropar) hrært út í
Hræra saman í þykkt mauk 3 kúfaðar msk af kakó og heitt vatn og setja maukið út í deigið.
Setja deigið í eldfast mót.
100 gr suðusúkkulaði (eða 70%) brotið í bita og stungið hér og þar í deigið.

Kakan er bökuð við 180° í 18-20 mín (má vera lengur).

Krem:

100 g suðusúkkulaði brætt á vatnsbaði
100 g flórsykur
100 g smjör og
4 msk mjólk bætt við suðursúkkulaðið
Látið mýkjast í hita í 1 mínútu í vatnsbaði og hellt yfir kökuna. Verður oft kekkjótt og því verður að muna að sigta flórsykur.

Hella kreminu yfir kökuna þegar hún kemur út úr ofninum.
Mjög góð með ís eða rjóma!

María Skagfjörð stödd í eldhúsinu sínu.