Í Eldhúsinu: Grillborgari að hætti mömmu
Berglind Ásgeirsdóttir er í eldhúsinu þessa vikuna en hún deilir hér skemmtilegri uppskrift með lesendum Víkurfrétta. Berglind lumar á girnilegri uppskrift af heimatilbúnum hamborgurum sem eru góðir á grillið. Berglind er þrítug og starfar sem yfirmaður vinnuskóla Reykjanesbæjar en hún er einnig garðyrkjufræðingur hjá bænum.
Hvernig verður sumarið hjá þér?
„Eins og hefðbundið er fyrir flesta garðyrkjufræðinga eru næg verkefni allt sumarið, en Vinnuskóli Reykjanesbæjar mun eiga stóran part, enda ótrúlega gaman að vinna með unglingum. Stefnan er svo að nota helgarnar til að skoða meira af landinu okkar og njóta þess að vera úti í góða veðrinu með dóttur minni.“
Berglindi þykir mjög gaman að elda og baka, samt meira að baka en að elda og kannski þá sérstaklega að skreyta kökur. „Ég viðurkenni það samt fúslega að ég elda mjög sjaldan fyrir okkur tvær, en ef það eru fleiri í mat þá eldar maður eitthvað gott. Ég og dóttir mín erum svo heppnar að búa nálægt hótel Mömmu/Ömmu og förum oft þangað í mat.“
Elskar kartöflumús
Hvað eldarðu oftast?
„Allt með kjúklingi býst ég við. Mér finnst kjúklingur voða góður og svo er auðvelt að finna eitthvað hollt og gott með honum. Mexikóskur matur er líka í miklu uppáhaldi. Einnig allt sem er borið fram með kartöflumús, ég elska kartöflumús í hvaða búningi sem er.“
Hefurðu gaman af því að stússast í eldhúsinu?
„Já ég hef gaman af því, sérstaklega þegar ég stússast í stærra eldhúsi en mínu eigin. Það er ótrúlegt hvað það hefur mikil áhrif á eldamennskuna að hafa nóg pláss í kringum sig. Framtíðarplan er sem sagt að eignast stórt eldhús. Einnig er mjög gaman að lesa matreiðslubækur og horfa á matreiðsluþætti. Það er ótrúlegt hvað hægt er að innbyrða af mat á þann hátt, án þess að fitna.“
„Þar sem mamma mín er snillingur í eldhúsinu og enginn sem gerir betri hamborgara en hún, þó svo að ég reyni mikið, þá ákvað ég að fá hana með mér í þetta verkefni. Við mæðgurnar förum reyndar ekki mikið eftir uppskrift, enda hún þaulvön og ég hermikráka. Við tókum okkur nú samt til og græjuðum saman þessa uppskrift af uppáhalds hamborgurunum á heimilinu.“
Mommy burger - um 15 - 20 stk eftir stærð
500 gr hakk
3 stk gulrætur
2 stk sellerileggir
1 laukur
3 hvítlauksrif
½ mexikó ostur
1 lúka spínat
½ sæt kartafla
4 tsk reykt paprika
3 dl hveitikím
4 tsk krydd salt (t.d. Season All)
1 tsk svartur pipar
Gott að bæta við ferskum eða þurrkuðum chilli pipar fyrir þá sem vilja.
Grænmetið rifið niður í matvinnsluvél og öllu blandað vel saman. Mótar sæmilega kúlu eftir því hvaða stærð borgara óskað er eftir. Leggur hana á „mellemblad“ eða klipptan smjörpappír og fletur létt út með flötum fingrum. Gott er að taka hníf og saxa létt ofan á borgarann til að jafna þykkt og gera huggulegt munstur.
Borgararnir grillaðir, ásamt brauði og borið fram með niðurskornu grænmeti og sósum. Einnig er frábært að bjóða upp á steikta sveppi, egg og beikon til að skella á milli. Það er svona fullorðins.
Hvítlauksjukk
Dós af sýrðum rjóma blandað saman við hvítlauk, 2-3 væn rif og smá salt. Einum poka af rifnum mosarella osti blandað saman við. Þetta er algjör snilld út á grillaðar kartöflur og auðvitað á hamborgarann.
Mynd: Ólöf eldri, Berglind og Ólöf yngri við grillið.