Í Eldhúsinu: Elskar mat frá Mexíkó
Sigrún Inga Ævarsdóttir er 25 ára gamall Njarðvíkingur sem rekur verslunina Krummaskuð á Hafnargötunni. Hún er nýútskrifuð úr lögfræði og stefnir á að starfa við það í nánustu framtíð. Sigrún og maður hennar eiga fjögurra ára gamla dóttur sem er mikill áhrifavaldur þegar kemur að matargerð á heimilinu. „Ef dóttir mín hins vegar fengi alltaf að ráða þá værum við með grjónagraut og súkkulaði í öll mál. Það er ekki oft sem að ég gef mér tíma í að elda. Ég malla þó reglulega í þessa kjúklingasúpu sem er í algjöru uppáhaldi. Hún er að mínu mati best daginn eftir, með smá sýrðum rjóma og grófu brauði.“
Ertu dugleg í eldhúsinu heima hjá þér?
„Langt því frá. Það er þó kvöldmatur hjá okkur á hverju kvöldi en ég get ekki eignað mér heiðurinn af því að töfra fram allar þær kræsingar sem þar verða til. Ég er svo heppin að eiga mann sem hefur gaman af því að elda þannig að ég slepp við að þurfa að velja hvað er í matinn hverju sinni.“
Hefur þú gaman af því að elda?
„Þegar ég var yngri þá hafði ég gaman af því að fá eldhúsið hennar mömmu að láni annað slagið. Ég á þrjá bræður með stóra maga þannig að það var krefjandi verkefni að töfra fram kvöldmatinn á því heimili en ég hafði mjög gaman af því. Frá því að ég flutti að heiman virðist ég þó ekki hafa fundið sjarmann við það að eyða miklum tíma í eldhúsinu. Kannski er það af því að ég kann ekki að elda marga rétti og það vekur ekki mikla lukku að vera alltaf með það sama í matinn.“
Hvað verður oftast fyrir valinu hjá þér, áttu þér einhvern sérrétt ef svo mætti segja?
„Á mínu heimili er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Frá því að ég var barn hef ég alltaf verið rosalega hrifin af mexíkóskri matargerð. Ég myndi segja að klassískt tacos sé minn sérréttur og fæ ég oft fyrirspurn um það hvaða leyniuppskrift ég blanda út í hakkið. Við erum kannski einu sinni í viku með ýmist Taco eða kjúklinga fahjitas. Hina dagana er þetta mjög einfalt; kjúklingur og salat, lax og salat eða jafnvel eitthvað ennþá einfaldara eins og boozt. Ég er ekki mikið fyrir unna kjötvöru og þoli illa mjólkurvörur þannig að því er haldið í lágmarki.“
Dóttirin Rakel Júlía hjálpar stundum til.
Einföld ljúffeng kjúklingasúpa:
Kjúklingur (Ég nota ýmist 2-3 bringur eða nokkrar lundir)
1 paprika
1 krukka af lífrænum hökkuðum tómötum
1 laukur
1 lítil askja af rjómaosti
U.þ.b. 1/3 af flösku af Chili sósu frá Heinz
2 msk. karrý
Salt og pipar eftir smekk
2 grænmetissúputeningar
U.þ.b. 2 dl vatn
2-3 dl matreiðslurjómi
„Ég steiki kjúklinginn og grænmetið á pönnu upp úr íslensku smjöri og karrý. Svo er öllu nema rjóma skellt í pott, suðan látin koma upp og látið malla í 5-10 mínútur. Þá er rjómanum bætt við og látið malla í um 5 mínútur.“